top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Snýst ekki um að vera með þúsund bolta á lofti


Arnar Sigurðsson, Blábankinn, nýsköpunarhemill, Þingeyri, úr vör, vefrit
Arnar Sigurðsson, forstöðumaður Blábankans á Þingeyri. Ljósmynd Blábankinn á Þingeyri

Næstkomandi haust, nánar tiltkekið þann 16. september mun Blábankinn á Þingeyri bjóða upp á það sem þau kalla nýsköpunarhemil (e. innovation decelerator). Viðburðurinn er með svipuðu móti og svokallaðir nýsköpunarhraðlar sem boðið er upp á í Reykjavík og víðar reglulega en sérstaða þessa nýsköpunarviðburðar er að forsvarsmenn Blábankans bjóða fólki að koma og hægja á sér, kúpla sig út og skipta algerlega um umhverfi til að setja á fót eða vinna að verkefnum sínum.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í forstöðumanni Blábankans, Arnari Sigurðssyni, sem leiddi undirritaðan í allan sannleikann um þennan skemmtilega viðburð.

Arnar segir að það snúist ekki alltaf um að hlaupa hraðar og hraðar og vera með þúsund bolta á lofti í einu til að koma verkefni sínu af stað. Hann segir að nýsköpunarhemillinn í Blábankanum gangi út á að fá næði til að vinna að verkefni sínu og er viðburðurinn sérsniðinn fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki.

Blábankinn bauð upp á samskonar viðburð á síðasta ári og tókst það mjög vel til að sögn Arnars.

Haukur Sigurðsson, Blábankinn, Þingeyri, nýsköpunarhemill, nýsköpun, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Samfélagsmiðstöðin Blábankinn er staðsett í bláa húsinu hægra megin á myndinni. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

„Fyrstu vikuna verða hjá okkur ansi færir mentorar og fólk fær þá tækifæri til að hitta það fólk og læra af þeim og auðvitað að vinna að verkefni sínu. Eftir þann tíma lýkur formlegri dagskrá og þá gefst fólki færi á að vera áfram ef það vill og halda áfram með verkefni sitt.

„Að einhverju leyti erum við að búa til öðruvísi aðferðafræði með því að leggja áherslu á að komast útúr sínu daglega umhverfi og að einfalda tilveruna hjá sér. Við sjáum fyrir okkur að geta tekið á móti tíu til fimmtán manns og vorum við með svipaða dagskrá í fyrra, þá var það í fyrsta skipti sem þetta var haldið hér hjá okkur.“ segir Arnar.

Samkvæmt Arnari lærði forsvarsfólk Blábankans mikið af viðburðinum á síðasta ári og munu þau halda í sumt af því en hann segir að annað hafi þróast og breyst. Verkefnið fékk flotta styrktaraðila þetta árið og verður því mögulegt að leggja meira í þetta að sögn „Það skiptir miklu máli að hafa fjármagn til að vinna með og eins er það góð viðurkenning sem felst í því, fyrir litla samfélagsmiðstöð á Þingeyri eins og okkur, að fá stuðning frá fyrirtækjum varðandi svona lagað. Það eru fimm nýsköpunarhraðlar sem ég veit um í dag og þeir fara allir fram í Reykjavík. Við fögnum þeirri grósku og það er mikilvægt fyrir okkur að taka þátt í þessu að okkar mati.“ segir Arnar.

Haukur Sigurðsson, Þingeyri, Blábankinn, nýsköpunarhemill, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Arnar segir að fólk sé svolítið önnur útgáfu af sjálfum sér þegar það er í nánu samneyti við náttúruna. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

Hugmyndin að verkefninu fæddist þegar Arnar starfaði fyrir íslenska hópfjármögnunarvettvanginn Karolina Fund. Arnar segir að haft hafi verið samband við Karolina Fund frá nýsköpunarmiðstöð í Puerto Rico og aðilar þar hafi markvisst verið að nálgast nýsköpunarfyrirtæki og að bjóða þeim stuðning við að flytja starfsemi sína til landsins.

„Þeir sendu fallegar myndir af ströndum og stemningu og þetta var líka gert í Chile á svipaðan hátt. Þar var fyrirtækjum boðinn peningur og stuðningur til að flytja sig um set. Þótt að okkar dagskrá sé ekki eins veigamikil, þá viljum við gjarnan bjóða fólki að koma hingað, allavega í smá stund og hjálpa til við að auka nýsköpunarsenuna hér að einhverju leyti.“ segir Arnar.

Viðburðurinn er opinn fyrir allan heiminn og var opnað fyrir umsóknir fyrir nokkrum dögum síðan að sögn Arnars. Hann segir að bæði íslenskir og erlendir aðilar hafi nú þegar sótt um og bætir við að þeim þætti skemmtilegast að hafa blöndu af bæði innlendum sem erlendum aðilum hér og einnig Vestfirskum verkefnum. „Í fyrra voru fleiri sem sóttu um en við gátum tekið á mót og það stefnir aftur í það.

Haukur Sigurðsson, Blábankinn, Þingeyri, nýsköpunarhemill, úr vör, vefrit
Vinnuaðstaðan í Blábankanum er til fyrirmyndar. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

„Ég held að það að komast útúr sínu daglega umhverfi sé alltaf svolítið skapandi. Það tekur þig útúr þinni venju og þú sérð eitthvað nýtt. Og svo með því að leiða saman atvinnulíf og samfélag hér við frumkvöðla annarsstaðar frá þá er alltaf möguleiki að eitthvað fæðist útúr því.“ segir Arnar.

Arnar segir að það að koma í svona afskekkt þorp eins og Þingeyri í ákveðinn tíma með fólki sem er bæði öðruvísi en að einhverju leyti hugsi á svipuðum nótum, þá verði meiri samvera og meiri samskipti á stað eins og Þingeyri heldur en í stórborg. „Hérna er þetta meira svona algjör upplifun, frá því þú ert í heita pottinum um morguninn þangað til þú borðar með öðrum um kvöldið.

„Fólk kynnist á allt annan hátt hér heldur en annarsstaðar og þegar vel tekst til þá myndast sérstök orka. Við erum svolítið önnur útgáfu af sjálfum okkur þegar við erum í svona nánu samneyti við náttúruna og það er eitthvað sem við viljum ná fram.“ segir Arnar.
Þingeyri, Haukur Sigurðsson, Blábankinn, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Þorpið Þingeyri stendur við Dýrafjörð á Vestfjörðum. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

Samkvæmt Arnari er mest gefandi að hitta fólk með hugmyndir og fá að taka á einhvern hátt þátt í að koma þeim áfram. Arnar segir að það sé líka gefandi fyrir sig að kynna samfélagið á Þingeyri fyrir öðrum, því hann sé hluti af því og honum finnst það hafa svo margt upp á að bjóða. „Ég er sannfærður um að það er rými í framtíðinni fyrir fleiri búsetuformi heldur en í stórborginni.

„Það er frjótt og skapandi í sjálfu sér ef allir búa ekki í sama borgaralega umhverfinu þar sem allir borða á Joe and the Juice og drekka sitt Starbucks kaffi. Við þurfum fjölbreytni varðandi hvernig við dreifum okkur um hnöttinn og ég vil koma þessum skilaboðum áleiðis til frumkvöðla og skapara framtíðarinnar.“ segir Arnar að lokum.
Blábankinn, Haukur Sigurðsson, Þingeyri, nýsköpunarhemill, úr vör, vefrit
Líf og fjör í Blábankanum, venju samkvæmt. Ljósmynd Haukur SigurðssonComments


bottom of page