top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Gefandi að veita fólki það sem það þarfnast“


Móðir Jörð, Vallanes, austurland, landsbyggðin, frumkvöðlastarf, lífræn ræktun, Eymundur Magnússon, Eygló Björk Ólafsdóttir, úr vör, vefrit
Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir, eigendur fyrirtækisins Móðir Jörð. Ljósmynd Móðir Jörð

Fyrirtækið Móðir Jörð ræktar og framleiðir íslensk matvæli úr jurtaríkinu og býður upp á lífrænt ræktaðar og hollar afurðir sem framleiddar eru í sátt við náttúruna. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Eygló Björk Ólafsdóttir á dögunum en hún og maðurinn hennar, Eymundur Magnússon reka fyrirtækið. 


Eygló segir að starfsemin byggi á kornrækt og grænmetisrækt í lífrænni ræktun. Hún segir að þau hjón séu í ár að halda upp á 30 ára vottaða lífræna framleiðslu í Vallanesi.

„Vallanes er eitt af fyrstu býlunum sem hóf vottaða lífræna ræktun á Íslandi. Starfsemin grundvallast á því að rækta plöntur og undanfarið höfum við verið með sívaxandi fullvinnslu og erum nú með fjölbreytt úrval tilbúnna vara sem eru fáanlegar víða um land í verslunum og veitingahúsum.

Við erum með korn, ferskt grænmeti og bygg, bakstursvörur, morgunverðarvörur og grauta. Úr grænmetinu höfum við unnið súrkál og annað sýrt grænmeti, einnig chutney úr rótargrænmeti en nýtum einnig ber og jurtir sem vaxa hér í kring í sultur o.fl. Við ræktum  repju fyrir matarolíu, nuddolíur, einnig bragðbætta olíu með jurtum og pestó.“ segir Eygló.

Móðir Jörð, Vallanes, austurland, landsbyggðin, lífræn ræktun, hvítkál, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Verið að taka upp hvítkál í Vallanesi. Ljósmynd Móðir Jörð

Að sögn Eyglóar hefur ferðaþjónustan bæst við í Vallanesi undanfarin ár, en þau hjón eru með gistingu, veitingastað og kaffihús á sumrin fyrir ferðafólk.

„Fyrir þremur árum byggðum við svokallað Asparhús sem byggt er úr okkar eigin timbri. Við höfum samtvinnað ræktun og skógrækt, höfum plantað einni milljón trjáa hér á jörðinni og mörg þeirra umlykja akrana okkar og búa til gott skjól.

Þessi skógrækt hófst árin 1979 til 1980. Árið 2016 byrjuðum við svo að fella aspir til að byggja þetta hús og er það smíðað að mestu leyti úr íslensku timbri, okkar timbri.“ segir Eygló.


Samkvæmt Eygló fer öll matvælaframleiðslan fram á staðnum. Hún segir að það sé gott fyrirkomulag, því þá nýtist allt hráefni betur og heilmikill flutningur sparast. Allur afskurður og afgangsefni nýtist aftur sem áburðarefni því lífræn ræktun sé jú hringrásarkerfi þar sem öllum lífrænum efnum er skilað í jarðveginn í gegnum safnhaugagerð.

Móðir jörð, Vallanes, lífræn ræktun, austurland, landsbyggðin, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Vottuð lífræn ræktun hefur verið stunduð í Vallanesi í 30 ár. Ljósmynd Móðir Jörð

Að sögn Eyglóar er vaxandi áhugi fyrir lífrænni ræktun, en bætir hún við að kynningu vanti hér á landi á þessum búskaparháttum talandi um sjálfbærni. Hún segir að í Vallanesi séu ekki notuð nein kemísk eitur- eða áburðarefni og að það hafi ekki verið gert í áratugi.

„Hreinleikinn er mikilvægur til þess að valda ekki mengun á grunnvatni, ám og lækjum sem síðan skola efnum út í sjó og valda mengun eða súrnun þar. Í lífræna kerfinu er markmiðið sjálfbærni á öllum sviðum, þar gilda reglur um ræktunaraðferðir og innihald matvæla, en ýmislegt annað skoðað s.s. umbúðir og félagslegir þættir  þannig að þetta strangasta heildstæðasta gæðastýringakerfi sem til er í matvælum í dag.“ segir Eygló.

Eygló segist sjá þróun í lífrænni ræktun hér á landi og að það hafi orðið fjölgun á landsvísu af aðilum sem séu að feta inn á þessar brautir, sem sé gott því að ákveðin stöðnun átti sér stað árin þar á undan að hennar sögn. Hún segir að aukinn stuðningur við bændur og sérstaklega þá sem koma nýjir inn í kerfið skili sér, sér í lagi er kemur að ungum bændum sem séu að fara inn í þetta á eigin forsendum. 

Móðir Jörð, Vallanes, lífræn ræktun, austurland, landsbyggðin, frumkvöðlastarf, Asparhús, skógrækt, íslenskt timbur, úr vör, vefrit
Sjá má einn akrana frá Asparhúsinu sem smíðað var úr íslensku timbri, ræktuðu í Vallanesi. Ljósmynd Móðir Jörð

Talið víkur þá að upphafinu hjá þeim hjónum í Vallanesi, hvernig þetta hófst allt saman. Eymundur, fagnaði 40 ára búskaparafmæli í fyrra,  fyrst var hann með hefbundinn kúabúskap en flutti sig svo yfir í lífræna ræktun og grænmetisræktun fljótlega.  Eygló segir að það hafi verið áhugi hans á akuryrkju sem náði yfirhöndinni hjá honum og það þótti einfaldlega rétt ákvörðun að byggja á aðferðum sem fólk er sáttara við til framtíðar, að vinna í takt við náttúruna með sjálfbærum aðferðum. 


Eygló kom inní fyrirtækið Móðir Jörð árið 2010. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og hefur komið að verslun með matvæli frá ýmsum hliðum, bæði hér heima og erlendis og haft mat sem áhugamál mjög lengi. Hún var meðal stofnenda Slow Food á sínum tíma og laðaðist að þessari starfsemi og manninum sínum í gegnum það. „Ég hef lagt áherslu á að bæta einhverju við, byggja ofan á þann góða grunn sem hér er og auka verðmætasköpun úr þessum jarðvegi því mér finnst lífræn matvælaframleiðsla eigi að taka meira pláss á Íslandi. 

Það sem nærir mig er að vera í umhverfi sem býður uppá nýsköpun og þróun.  Dagsdaglega er það auk þess mjög þakklátt og gefandi starf að veita fólki það sem það þarfnast, hollan og góðan mat sem framleiddur er með sjálfbærum aðferðum.“segir Eygló að lokum.
Móðir Jörð, Vallanes, lífræn ræktun, frumkvöðlastarf, austurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Hér getur að líta nokkrar vörur sem Móðir jörð framleiðir. Ljósmynd Móðir Jörð


Comments


bottom of page