top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Jólalest Vestfjarða


Jólalest Vestfjarða, jólalest, jól, jólahátíð, sleðar, Fablab, Vestfjarðastofa, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Til stendur að frumsýna sleðana milli jóla og nýars. Ljósmynd Vestfjarðastofa

Vestfirðir ætla að taka jólin alla leið í ár og um ókomna tíð því búið er að setja á laggirnar sannkallað jólaverkefni sem ber heitið „Jólalest Vestfjarða“. Jólalest Vestfjarða er spennandi frumkvöðla- og samstarfsverkefni á milli verkefnastjóra Jólalestarinnar; Einars Mikaels Sverrissonar, Fab Lab nýsköpunarsmiðju á Ísafirði og Vestfjarðastofu. Jólalest Vestfjarða er styrkt af fyrirtækjum innan Sjávarútvegsklasa Vestfjarða auk fjölmargra annarra sem hafa lagt verkefninu lið.

Í fréttatilkynningu frá forsvarsmönnum jólalestarinnar segir að markmið Jólalestar Vestfjarða sé að sýna í verki mikilvægi nýsköpunar á Vestfjörðum, upphefja list- og verkgreinar og auka sýnileika Vestfjarða, sem og að gleðja börn og fullorðna um jólin með skemmtilegri upplifun.

„Jólalest Vestfjarða einstakur viðburður, ekki bara á Íslandi heldur víðar. Ég held að það sé ekki algengt að það sé heill landshluti, sem tekur jólin með svona mikilli gleði og metnaði í þeim tilgangi að veita fjölskyldunum einstaka upplifun en það er nákvæmlega það sem við erum að gera“

segir Einar Mikael, verkefnastjóri.

Jafnframt segir í fyrrnefndri fréttatilkynningu að verkefnið sé tvíþætt og samanstandi af tólf fullbúnum jólasleðum og tólf jólapóstkössum. Smíðaðir verða tólf jólasleðar, einn fyrir hvert bæjarfélag á Vestfjörðum og tengja þar með bæjarfélögin saman með einni stórri jólalest. Fyrsti sleðinn var smíðaður veturinn 2020-21 af Einari Mikael, FabLab Ísafirði og börnum í 8-10.bekk Grunnskólans á Suðureyri. Smíðin á sleðunum er í samstarfi við Verkmenntaskólann á Ísafirði og FabLab smiðjurnar á Ísafirði og Reykjavík sem hafa skorið út sleðana. Rafmagnsdeild Verkmenntaskólans útbýr ljósaborðin og málsmíðadeildin sér um að sjóða saman undirgrindurnar.

„Við erum að leggja lokahönd á smíðarnar og erum að setja sleðana saman, við erum með gott teymi í þessu með okkur og svo hefur fólk verið duglegt við að kíkja á okkur og bjóða fram aðstoð sem er vel þegið núna á síðustu metrunum en við ætlum að frumsýna sleðana á milli jóla og nýárs“ segir Einar Mikael.

Jólalest Vestfjarða, jólalest, jól, jólahátíð, Einar Mikael Sverrisson, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Einar Mikael Sverrisson aðstoðar börn að póstleggja bréf í einn af sérsmíðuðum póstkössum verkefnisins. Ljósmynd Vestfjarðastofa

Að auki voru smíðaðir tólf jólapóstkassar, einn fyrir hvern grunnskóla á Vestfjörðum. Póstkassarnir voru skornir út í FabLab Ísafirði og settir saman af nemendum í trésmíðadeildinni í Verkmenntaskóla Ísafjarðar.

Póstkassarnir eru handmálaðir af listakonunni Marsibil Kristjánsdóttur á Þingeyri og dóttur hennar Heiði Emblu Elfarsdóttur og handverk eftir tréútskurðarmeistarana Sigurð Petersen og Hrefnu Aradóttur prýðir botninn á hverjum póstkassa.

Í fréttatilkynningunni segir að bréfin sem börnin í grunnskólum Vestfjarða nota til að skrifa til jólasveinsins voru sérhönnuð en þau þurfa að segja jólasveininum hvaða góðverk þau ætla að gera í desember auk þess sem þau fá tækifæri til að spyrja jólasveininn að hverju sem er. Jólasveinninn sjálfur svarar hverju einasta bréfi til baka auk þess sem börnin fá að gjöf lítinn jólaóróa sem hannaður var af nemanda Grunnskólans á Suðureyri og skorinn út í FabLab.

„Jólapóstkassarnir sem og jólasleðarnir voru hannaðir af börnum, við erum að reyna að fá krakkana til að sjá að allt er mögulegt og allt það sem þau sjá fyrir sér er hægt að búa til. Við erum ótrúlega þakklát fyrir hversu vel fólk hefur tekið í verkefnið og hvernig allir eru tilbúnir til þess að vinna með okkur og taka þátt“ segir Einar Mikael.

Jólalest Vestfjarða, jól, jólalest, jólahátíð, Vestfirðir, landsbyggðin, Vestfjarðastofa, úr vör, vefrit
Jólalest Vestfjarða er spennandi frumkvöðla- og samstarfsverkefni á milli verkefnastjóra Jólalestarinnar; Einars Mikaels Sverrissonar, Fab Lab nýsköpunarsmiðju á Ísafirði og Vestfjarðastofu. Ljósmynd Vestfjarðastofa

Að lokum segir í fréttatilkynningunni að Jólalest Vestfjarða sé partur af kynningarátaki Vestfjarðastofu um sýnileika Vestfjarða. Vestfjarðastofa ásamt sveitarfélögunum á Vestfjörðum og fyrirtækjum í fjórðungnum hafa staðið að kynningarátaki undir nafninu „Vestfirðingar.“ Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á fólkið sem býr og starfar á svæðinu og sýna hvað Vestfirðir hafa upp á að bjóða.

„Okkur fannst Jólalest Vestfjarða passa vel inn í þetta kynningarátak og án vafa mun hún vekja eftirtekt þegar hún fer af stað. Hér á Vestfjörðum erum við afar lánsöm með fólkið sem hér býr og er tilbúið til að byrja með svona flott verkefni eins og Jólalestin er. Jólalest Vestfjarða er komin til að vera“

segir Auður Steinberg hjá Vestfjarðastofu.


Þess ber að geta að lokum að hægt er að fylgjast með Jólalest Vestfjarða á Facebook og Instagram


Comments


bottom of page