top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Safn þar sem má pota og pikka í hluti


Jón Sigurðsson, hljóðfærasafn, Þingeyri, Vestfirðir, Vaida Bražiunaité, úr vör, vefrit, langspil
Jón Sigurðsson við smíði á hljóðfæri um árið. Ljósmynd Vaida Bražiunaité

Hljóðfærasafn Jóns Sigurðssonar á Þingeyri var stofnað árið 2003. Jón byrjaði með safnið í bílskúrnum hjá sér en flutti síðan í hentugra húsnæði í miðbæ Þingeyrar og tekur þar á móti gestum daglega yfir sumartímann. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Jóni á dögunum og forvitnaðist um hvernig það fór svo að hann setti á fót safn.


Jón segir að áhugi fyrir hljóðfærum hafi byrjað þegar tónlistarkennari við grunnskólann á Þingeyri bað hann að smíða langspil fyrir sig. Jón starfaði sem smíðakennari og tók vel í beiðni kollega síns. Að sögn Jóns var þessi tónlistarkennari með allskonar þjóðlagahljóðfæri hjá sér og hafði Jón verið að gutla í tónlist lengi, allt frá því hann var í grunnskóla. Hann segist hafa verið forvitinn varðandi öll þessi hljóðfæri sem tónlistarkennari var með hjá sér.

„Víst ég gat smíðað þetta langspil þá prufaði ég að smíða eitthvað annað líka og þetta vatt upp á sig. Og við þetta kviknaði áhugi á allskonar hljóðfærum. Ég byrjaði svo að kaupa hljóðfæri og þetta fór að vera of mikið. Í byrjun hafði ég þetta inni í einu herbergi heima og svo inni í stofu líka og svo var komið að þeim tímapunkti að það þurfti að koma þessu út.“ segir Jón.
Hljóðfærasafn Jóns, Þingeyri, Vestfirðir, langspil, úr vör, vefrit
Hljóðfærasafn Jóns byrjaði í bílskúrnum heima hjá þeim hjónum. Ljósmynd Hljóðfærasafn Jóns

Samkæmt Jóni er íslenska langspilið og fiðlan ekki til á hverju heimili í dag og segir hann að það hafi verið frekar lítið um langspil þegar hann byrjaði að smíða það árið 2003. „Ég leitaði að myndum á netinu af því þegar ég byrjaði að smíða það og fann ekki mikið. En samt sem áður var tónlistarkennarinn ánægður með þetta hjá mér.

„En hann sagði við mig eftir að ég kláraði það að nú mætti ég rispa það! Hann vildi hafa þetta gamalt, það átti ekki að líta út eins og nýtt, þannig að ég rispaði öll horn og annað. Hans hljóðfæri litu öll út þannig, eins og þau voru gömul.“ segir Jón

Jón setti þá upp safn í bílskúrnum hjá sér í fyrstu og hafði þann háttinn í tvö til þrjú ár. Eftir það fékk fékk hann leigt hentugra húsnæði í Hafnarstræti 2 í miðbæ Þingeyrar. „Þar er þetta miðsvæðis og ferðamenn og aðrir eiga greiða leið framhjá. Það er auðveldara að vera með þetta opið í miðbænum heldur í einhverri útgötu einhversstaðar. Svo er ég með vefsíðu þar sem langspilið og önnur hljóðfæri eru til sölu.“ segir Jón.

Hljóðfærasafn Jóns, Þingeyri, Vestfirðir, langspil, úr vör, vefrit
Safnið er hið glæsilegasta og er um helmingur hljóðfæranna smíði Jóns. Ljósmynd Hljóðfærasafn Jóns

Samkvæmt Jóni er langspilið mest pantað hjá honum og fær hann reglulega pantanir og þarf því alltaf að vera að smíða, sem hann segir vera hið besta mál. „Þannig að það er nóg að gera í því, fyrir utan það að ég er í annarri vinnu í grunnskólanum, er í fullri vinnu þar og geri þetta þá á kvöldin og um helgar. Það er fólk um allan heim sem er að panta þetta hjá mér.“ segir Jón.

Ásóknin í safnið er líka fín að sögn Jóns og segist hann fá á hverju sumri um eitt þúsund gesti að jafnaði. Safnið er opið í maí, júní, júlí og svo út ágústmánuð og eru það bæði innlendir sem erlendir ferðamenn sem sækja hann heim. Jón segir að nærri helmingurinn af hljóðfærunum á safninu sé smíðaður af honum og afgangurinn sé eitthvað sem hann hafi keypt eða fengið gefins.

„Svo tek ég oftast nær lagið fyrir gesti á langspilið og leyfi fólki yfirleitt að prufa. Þetta er ekki svona safn þar sem ekki má snerta og ég hef heyrt að fólki finnist spennandi og skrýtið að koma inn á safn þar sem má pota og pikka í. Svo er ég með fullt af hljóðfærum sem krakkar mega líka leika sér með.“ segir Jón.

Hljóðfærasafn Jóns, Þingeyri, Vestfirðir, langspil, úr vör, vefrit
Jón segir að ekki hafi verið mikið um langspil þegar hann byrjaði að smíða það árið 2003. Ljósmynd Hljóðfærasafn Jóns

Samkvæmt Jóni er mest gefandi í starfinu að taka á móti gestum og spjalla við þá. Hann segist ekki græða neitt á þessu og bætir við að þetta sé bara áhugamál. „Það er mest gefandi þegar einhver kemur til að sjá hvað ég er að brasa. Það hefur komið fyrir að fólk hafi fundið mig á netinu og komið svo og skoðað hjá mér.


„Það var t.a.m. einhver sem kom langt utan úr heimi um daginn og var að fara að vinna í Blábankanum. Hún var búin að skoða safnið á netinu og hlakkaði rosalega mikið til að sjá mig, ég var alveg undrandi á þessu öllu saman.“ segir Jón og hlær.

Jóni finnst gaman þegar þekkta gesti ber að garði. Hann segist stundum fá móðir sína eða systur til að leysa sig af, svo hann geti aðeins hvílt mig, því hann situr yfirleitt yfir þessu allt sumarið. „Og þá kemur yfirleitt einhver þekktur inn, eins og þegar leikkonan Geena Davis kom hingað um árið, þá voru mamma og systir mín að vinna fyrir mig. Hún var hér á landinu í einhverja daga og var allt í einu hér, en ég rétt missti af henni!“ segir Jón.


Að sögn Jóns er ýmislegt framundan og er hann spenntur fyrir komandi sumri. Hann og konan hans, Rakel Brynjólfsdóttir spila á langspil og fiðlu fyrir ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipunum á svæðið og eru í því líka á sumrin. Pantað er fyrirfram og gera þau þetta nokkrum sinnum yfir sumarið, dagskrá sem er hluti af stærri túr fyrir þessa ferðamenn.

„En við höfum ekki spilað mikið annarsstaðar en hér heima, sá þáttur er bara á byrjunarreit. En ég hlakka mikið til sumarsins og til að fá fleiri gesti.“ segir Jón að lokum.

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


Comments


bottom of page