top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Eldra fólk hristir bara höfuðið“

Updated: Apr 3, 2019


Glacier Adventure, Suðursveit, jöklaferðir, úr vör, vefrit
Haukur, Berglind og sonur þeirra Steinþór

Hjónin Haukur Ingi Einarsson og Berglind Steinþórsdóttir reka fyrirtækið Glacier Adventure sem sérhæfir sig í jöklaferðum. Starfsemina gera þau út Suðursveit, en Berglind er ættuð þaðan. Starfsemin hófst árið 2014 og hefur vaxið síðan þá í takt við vonir og væntingar þeirra. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Hauki Inga á dögunum og fékk skemmtilega innsýn inn í heim jökla og ævintýra.


Haukur segir að þau Berglind hafi bæði starfað áður á Höfn í Hornafirði og langað að breyta aðeins til og gera eitthvað nálægt heimkynnum Berglindar á Hala í Suðursveit.

Starfsemin snýst um leiðsögn með áherslu á að upplýsa ferðamenn um þá staðbundnu búskaparhætti og hvernig byggð þróaðist á þessu svæði frá landnámi til dagsins í dag. Að auki miðla þau sögu um hvernig jökulbreytingarnar hafa áhrif á búskap og lifnaðarhætti fólks á svæðinu.

Að sögn Hauks starfa í dag sex leiðsögumenn hjá fyrirtækinu, auk þess sem hann er sjálfur í leiðsögn. Berglind sér svo um skrifstofu- og markaðsmál ásamt öðrum starfsmanni. Hann segir að stærðin sé að mörgu leyti eins og þau gerðu sér í hugarlund til að þetta geti staðið undir sér og rekið sig. Haukur segir að 99,5% gesta þeirra séu erlendir ferðamenn. Hann segir að það sé svolítið skondið, því þegar Íslendingar ferðist erlendis þá fara þeir í allskonar afþreyingarferðir. „Ég myndi segja að það sem við bjóðum upp sé alveg á pari við það sem boðið upp á erlendis.


Glacier Adventure, jöklaferðir, Suðursveit, úr vör, vefrit
Ævintýralegt umhverfi í íshellaferð fyrirtækisins. Ljósmynd Glacier Adventure

„En þess ber að geta að jökullinn er fyrirbæri sem erlent ferðafólk hefur aldrei séð en þetta hefur verið fyrir augunum á okkur alla ævi og fólk hefur kannski verið hvatt til að forðast jöklana og ekki vera að skoða þá eða ganga á þeim. Það er t.d. sumt eldra fólk sem heyrir af því sem við erum að gera og hristir bara höfuðið!“ segir Haukur.

Haukur hefur ekki miklar áhyggjur af svartsýnisspám varðandi ferðamennsku á Íslandi. Hann segir að í allri starfsemi, hvort sem um er að ræða sjávarútveg eða bankakerfi, þá séu alltaf einhverjir óvissuþættir, hvort sem það er aflabrestur, erfiðir markaðir eða gengisþróun. „Það er það sama í ferðaþjónustunni. Eftir að hafa verið í þessu í fjögur til fimm ár þá tekst maður á við þessar áskoranir þegar þær koma.

„Maður hefur áður breytt um starfsvettvang og ef Öræfajökull færi að gjósa þá færi maður bara að snúa sér að einhverju öðru. Það þarf að hafa líka í huga í þessari umræðu að ef það verður 10% samdráttur þá eru samt tvær milljónir ferðamanna sem koma til landsins, það er ekkert lág tala.“ segir Haukur.
Glacier Adventure, Suðursveit, jöklaferðir, úr vör, vefrit
Jökullinn klifinn! Ljósmynd Glacier Adventure.

Aðspurður segir Haukur að áhrifin af starfsemi fyrirtækis þeirra hjóna séu jákvæð fyrir svæðið. Hann segir að þegar þau hafi byrjað árið 2014 þá hafi þau verið algjörlega að skapa frá grunni eitthvað sem var ekki til áður á svæðinu og hafi með því skapað störf fyrir átta til tíu manns. „Á þessum tíma var landsbyggðin búin að vera í vörn lengi, talsverð fólksfækkun átt sér stað og menn voru ekki að sjá tækifæri. Þannig að svona starfsemi hefur jákvæð áhrif byggðaþróunarlega séð.

Vonandi heldur þetta áfram að ganga og að fólk sjái að hægt sé að halda áfram að búa í sveit, þótt þessi hefðbundni landbúnaður breytist. Það eru tækifæri fyrir þá sem alast upp á landsbyggðinni að geta verið áfram eða komið aftur á heimaslóðir og gert eitthvað þar.“ segir Haukur.

Áhyggjuraddir heyrast reglulega um loftslagsbreytingar og að jöklar landsins muni hopa og jafnvel hverfa alveg innan einhverra áratuga. Haukur er auðvitað vel meðvitaður um þetta og sér þessar breytingar vel vegna nálægðarinnar og starfsemi fyrirtækisins. Hann segir jökulinn vissulega hopa og þau þurfi sífellt að ganga lengra, en bætir því við að það sé ekki endilega svo slæmt. Að auki breytist umhverfið í kringum jökulinn ört að sögn Hauks og felist í því skemmtilegar áskoranir, eins og þurfa að brúa ár.

Glacier Adventure, Suðursveit, jöklaferðir, úr vör, vefrit
Skemmtileg tengsl myndast meðal þáttakanda í ferðum fyrirtækisins að sögn Hauks. Ljósmynd Glacier Adventure

„Til lengri tíma litið er ekki skynsamlegt að stunda jöklagöngur á skriðjöklum en er á meðan er. En t.d. fjallgöngur og kajakferðirnar geti tekið við, fjöllin verða áfram þó jöklarnir bráðni. Varðandi jökulinn sem við vinnum mikið á, Breiðamerkurjökull við Jökulsárlón, þá er útlit fyrir að hann verði alveg horfinn innan 50 ára, ef að loftslagsbreytingar halda áfram á sama hraða. Þá verð ég 90 ára ef ég lifi svo lengi og yngsti strákurinn minn verður 56 ára og ef hann tekur við þessum rekstri þá verður hann örugglega ekki að ganga á jökla get ég sagt þér!“ segir Haukur.

Haukur segir að undanfarin ár hafi vissulega verið góðir tíma en einnig erfiðir tímar sem hafi kennt þeim margt. Hann segir starfið krefjandi og um mikla vinnu sé að ræða og margt sem þarf að takast á við. „Það sem stendur uppúr eru samskiptin við gestina sem eru áhugaverð og skemmtilegt er að mynda þessar tenginar þótt það sé skammur tími sem varið er saman. Menn geta skipst á skoðunum og miðlað málum, það er það sem gefur mest og situr eftir.“ segir Haukur að lokum.

Glacier Adventure, Suðursveit, jöklaferðir, úr vör, vefrit
Ýmis form og litir myndast í hellum jöklanna. Ljósmynd Glacier Adventure.

Comments


bottom of page