Við árslok finnst okkur tilvalið að líta aðeins tilbaka og rifja upp árið sem er að líða. Vefritinu var ýtt úr vör þann 15. mars síðastliðinn og er óhætt að segja að tíminn hafi flogið síðan þá! Tæplega 140 greinar hafa birst í málaflokkum okkar, hringinn í kringum landið og hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Viðmælendur sem og fylgjendur vefritsins eru sammála um það að fjölmiðill sem þessi sé mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í tilverunni og við fíleflumst við hvert hrós!
En þó vel hafi gengið þá er ekki á vísan að róa í þeim ólgusjó sem fjölmiðlaumhverfið er. Nauðsynlegt er að sækja vind í seglin úr öllum áttum og munum við fljótlega kynna til sögunnar ákveðna áskriftarleið, þar sem fólk getur stutt okkur um upphæð að eigin vali í hverjum mánuði. Að auki munum við bjóða upp á tvær nýjungar snemma á næsta ári sem einnig verða kynntar fljótlega og erum við gríðarlega spennt fyrir þeim!
En þá er komið að upprifjuninni og völdum við þrjár vinsælar greinar frá liðnu ári:
Fyrst ber að nefna pistil Eiríks Arnar Norðdahl sem ber nafnið „Þú ert ekki kominn til Ísafjarðar.“ Pistillinn hlaut mikla eftirtekt og er í dag mest lesna grein vefritsins. Þá skal nefna viðtal við Hlyn Hallsson um gjörningahátíðina A! sem haldin er ár hvert á Akureyri. Síðast en ekki síst er það viðtal við Pálma Einarsson sem hefur ásamt konu sinni, Oddnýju Önnu Björnsdóttir, hafið tilraunir til að rækta iðnaðarhamp í Berufirði.
Að lokum viljum við þakka fyrrnefndar viðtökur og um leið biðla til lesenda að vera dugleg og óhrædd við að dreifa orðinu um vefritið. Níu mánuðir eru ekki langur tími, við erum ungur fjölmiðill sem margir vita enn ekki um. Með því að deila greinum á samfélagsmiðlum og segja vinum, fjölskyldu og vinnufélögum frá okkur þá leggið þig ykkar framlag á vogarskálirnar og eflið þennan landsbyggðarmiðil sem ÚR VÖR er.
Við hlökkum til að birta nýtt og brakandi ferskt efni strax í upphafi næsta árs og vonandi mun ÚR VÖR stækka og vaxa áfram á hinu fallega ártali sem 2020 er, góðar stundir.
Aron Ingi Guðmundsson,
ritstjóri ÚR VÖR
댓글