top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ævintýri yfir nótt

Texti: Aron Ingi Guðmundsson

Fjallsárlón, jökullón, Breiðamerkursandur, Suðurland, ferðamennska, ferðaþjónusta, siglingar, húsbátar, næturævintýri, lón, úr vör, vefrit, heimildin
„Í þessum húsbátum er allt til alls fyrir gesti, eldhús, góð kynding, netsamband, rúm og lítið salerni.“ Ljósmynd aðsend frá Fjallsárlóni

  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar síðastliðinn föstudag.


Einhverjir hafa eflaust heyrt um fyrirtækið Fjallsárlón sem boðið hefur upp á siglingar í 11 ár á samnefndu lóni, Fjallsárlóni á Breiðamerkursandi. En það sem meira er, fyrirtækið er nú farið að bjóða upp á svokallað ævintýri yfir nótt þar sem fólki gefst tækifæri að halda til í svokölluðum húsbátum, eða Aurora Huts, næturlangt eftir að hafa siglt um á lóninu.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Steinþór Arnarson segir að fyrirtæki sé búið að bjóða upp á þetta nú í tvö ár með góðri raun. Um er að ræða hugmynd sem Finnar hafa notað talsvert á sínum vötnum, sem og Svíar og Norðmenn, en þetta hefur ekki verið gert áður hér á landi. Bátarnir eru nýtískulegir með gleri í lofti og helming hússins sem býður upp á frábært útsýni sem tilvalið er t.a.m. fyrir norðurljósa upplifun.

„Fólk kemur í þessa ferð um seinnipart dags, fer í siglingu hjá okkur, borðar síðan kvöldverð og fer svo yfir í þessa húsbáta. Við höfum verið að þróa þetta síðastliðin tvö ár, en það er mikil ánægja hingað til með þetta og talsverð aðsókn, þó aðeins meira frá erlendum ferðamönnum. Þetta er svolítill lúxus og kostar sitt, en það er líka heilmikið umstang í kringum þetta fyrir okkur.

Það þarf að koma þessu í skjól þegar veður er vont og það er ekki hægt að hafa þetta á lóninu allt árið heldur.“ segir Steinþór.

Í þessum húsbátum er allt til alls fyrir gesti, eldhús, góð kynding, netsamband, rúm og lítið salerni. Notað er etanól til að framleiða rafmagn auk þess sem sólarsellur eru á bátnum, þannig að um er að ræða umhverfisvænan kost. Undir bátnum eru skíði og hægt er að draga þá út á frosið lónið þegar svo ber undir. Steinþór segir að þegar Fjallsárlónið sé ófrosið þá fljóti bátarnir á vatninu nálægt landi, þeir eru landfastir og í góðu hvarfi þannig að vegfarendur sem virða fyrir sér náttúrufegurð lónsins verða þeirra ekki varir. Fyrirtækið hefur yfir að ráða þremur húsbátum og er ákveðinni fjarlægð haldið á milli þeirra svo notendur upplifi sig eina á svæðinu.

Fjallsárlón, jökullón, Breiðamerkursandur, Suðurland, ferðamennska, ferðaþjónusta, siglingar, húsbátar, næturævintýri, lón, úr vör, vefrit, heimildin
Steinþór Arnarsson, framkæmdastjóri Fjallsárlóns, siglir hér slöngubát á lóninu. Ljósmynd aðsend frá Fjallsárlóni

„En svo þegar lónið frýs þá er hægt að draga þetta út á ísinn, þegar hann er orðinn nógu þykkur. Við höfum reyndar ekki þróað þá pælingu mikið, við tókum þó að okkur eitt þannig verkefni fyrir kúnna síðastliðinn vetur sem tókst mjög vel. En á vorin og haustin er ákveðið millibilsástand, þá hlýnar og frystir til skiptis og ísinn er því ekki nógu traustur, þess vegna er ekki hægt að hafa þessa starfsemi allt árið.

Við erum að þróa þessa vetrarstarfsemi, það er aðeins hægt að hafa siglingarnar okkar á lóninu í sex eða sjö mánuði á ári, þannig að við erum að leita leiða til að hafa afþreyingu á lóninu yfir veturinn.“ segir Steinþór fullur tilhlökkunar varðandi þessa hugmynd.

Fjallsárlón er sem áður segir á Breiðarmerkursandi, vestar en Jökulsárlón og er um10 mínútna akstur á milli lónanna. Fjallsárlón er jökullón líkt og Jökulsárlónið, það er yngra og minna þekkt, en nú þegar jöklar eru að hopa í meira mæli þá myndast fleiri lón á þessum slóðum. Að sögn Steinþórs er ferðamannaiðnaðurinn búinn að ná sér að mestu leyti eftir heimsfaraldurinn og segir hann að mjög mikið hafi verið að gera síðastliðið sumar og er bjartsýnn á framhaldið.

„Það er mjög fjölbreytt af þreying í boði hérna á svæðinu sem er jákvætt. Það eru siglingar, jöklaklifur, íshellar og fleira, þetta trekkir að og er mikið betra að hafa þetta svona heldur en ef það væri bara eitt fyrirtæki hérna, þá kæmi kannski enginn. Samkeppnin er af hinu góða fyrir alla sem koma að svona starfsemi, engin spurning, hún hjálpar.“ segir Steinþór að lokum.

Hægt er að kynna sér allt um siglingarnar sem og næturævintýrin á síðunni: https://fjallsarlon.is/ sem og á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.


Comments


bottom of page