top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Á puttanum um firðina


Jamie Lee, Fine Food Islandica, beltisþari, þari, frumkvöðlastarf, nýsköpun, Vestfirðir, Breiðafjörður, sjávarþang, Matthias Spoo, matvælaframleiðsla, Hong Kong, ræktun, umhverfi, náttúra, matvæli, úr vör, vefrit, Heimildin, landsbyggðin
„Hugmyndin með fyrirtækinu er að gera fólki auðveldara fyrir að nota sjávarþang sem hluta af sínum daglegu matarvenjum.“Ljósmynd Matthias Spoo.

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin (www.heimildin.is) mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein er sú fyrsta sem tengist því samstarfi.


Klukkan er hálffimm á sólríkum mánudagsmorgni um miðjan september mánuð. Á meðan flestir landsmenn sofa værum blundi undirbýr Jamie Lee sig fyrir að synda út í Steingrímsfjörð og athuga með ræktun sína á beltisþara.

Þessi náttúruunnandi frá Hong Kong var fyrsti aðilinn hér á landi til að sækja um leyfi til að rækta beltisþara, sem hún gerir með því að koma fyrir fræjum á línum í Steingrímsfirði.

Jamie hefur verið heilluð af norðurskautum veraldarinnar síðan hún sá vísindakonu flytja fyrirlestur á sínum uppeldisslóðum í Hong Kong þegar hún var 10 ára gömul. Fyrirlesturinn fjallaði um hlýnun jarðar og var rauði þráður fyrirlestursins að jöklar og ís færu hopandi á norðurslóðum. Þetta fannst Jamie óhugsandi og síðan þá dreymdi hana að heimsækja löndin í norðri. Sá draumur rættist 19 árum síðar þegar Jamie fór í fimm vikna ferðalag til Íslands þar sem hún ferðaðist um á puttanum og tjaldaði víða um landið. Hún heillaðist af landi og þjóð og var staðráðin í að koma aftur síðar til þessarar fögru eyju.

„Ég féll kylliflöt fyrir Íslandi í þessari ferð, ekki einungis vegna náttúrufegurðarinnar, heldur líka útaf fólkinu sem ég hitti og spjallaði við í mínum mörgum bílferðum þegar ég sníkti mér far. Mér fannst þetta vera algjör paradís á jörð. Fólkið var svo opið og kenndi mér svo margt, á svo mildan og einstakan hátt. Ég varð að koma aftur, það hlaut að vera eitthvað sem var að fara framhjá mér, þetta gat ekki verið svona fullkomið land!“ segir Jamie hlæjandi og augljóst er að hún ferðast aftur í tímann í huganum þegar hún rifjar upp þessi fyrstu kynni.

Það má með sanni segja að Jamie hafi ekki einungis látið sig dreyma, heldur kom hún aftur til Íslands nokkrum árum seinna í kjölfarið af að skrá sig í framhaldsnám í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Námið tók eitt og hálft ár og í lok þess tíma hóf Jamie að rannsaka og leita leiða til að rækta beltisþara við Ísland. Hún hefur heillast af sjávarþangi lengi, bæði hvernig það bragðast sem og útlit þess og áferð.

Það var árið 2018 sem hún byrjaði að gera tilraunir til að rækta þarann eftir að hafa kynnst Bergsveini Reynissyni, kræklingssjómanni sem gerir út í Breiðafirði. Bergsveinn leyfði Jamie að gera tilraunir á kræklingslínunum sínum til ræktunarinnar og við tók lærdómsríkur tími þar sem mörg mistök voru gerð en á sama tíma varð til ómetanleg þekking að sögn Jamie. Í kjölfarið stofnaði Jamie fyrirtækið sitt Fine Food Islandica sem framleiðir og selur matvörur.

„Fólk á Íslandi hefur verið að nota og selja beltisþara lengi en það hefur ekki verið gert á þennan hátt, þ.e. ekki ræktun sem þessi. Þarinn er mjög næringarríkur og ljúffengur að mínu mati ef hann er undirbúinn á réttan hátt. Hugmyndin með fyrirtækinu er að gera fólki auðveldara fyrir að nota sjávarþang sem hluta af sínum daglegu matarvenjum.“

Það fer ekki framhjá neinum sem nær tali af Jamie að hún er ástríðufull gagnvart náttúrunni og sínum hugmyndum. Hana langar að vera hluti af samélagi sem nýtir sér þekkingu frá hvort öðru svo allir geti gagnast af, í stað þess að stofna eitt fyrirtæki sem framleiðir mikið magn. Meðal vara sem Jamie framleiðir og selur er sjávargróðrablanda, súpukraftur og skemmtileg blanda af harðfiski og sjávarþangi. Í dag stundar Jamie ræktunina aðallega í Steingrímsfirði og notar ekki lengur kræklingslínur heldur aðrar línur fyrir ræktunina. Hún heldur þó áfram af og til að nota kræklingslínur Bergsveins í Breiðafirði af og til fyrir sína starfsemi.

„Önnur hugmynd með fyrirtæki mínu var að rækta sjávarþang á sjálfbæran hátt. Við þurfum að hugsa hvaða áhrif við höfum á umhverfið, eins og t.d. þegar við setjum fræ á línurnar, þá þarf það að sjálfsögðu að vera tegundir sem eru þegar til staðar á svæðinu, en ekki framandi tegundir sem hafa áhrif á jafnvægið í náttúrunni.

Þetta er mikið ævintýri, fræðandi og skemmtilegt í senn og nú fer ég á puttanum um firðina í vinnu minni, með Bergsveini og fleiri sjómönnum sem eru á ferðinni. Þetta eru samt skipulagðar ferðir þar sem við spáum í veðri og vindum, straumum og aðferðum varðandi ræktunina. Og já, stundum syndi ég út að línunum, það er skemmtileg leið til að athuga með þarabörnin mín ef sjórinn er ekki of kaldur!

Ég hef lært svo mikið á þessum tíma og síðan eru allir svo hjálpsamir, ég er mjög spennt fyrir því hvað tíminn leiðir í ljós varðandi þessa starfsemi og frekari verkefni tengt þessu.“ segir Jamie að lokum.

Hægt er að kynna sér allt um ævintýri Jamie og fyrirtæki hennar á heimasíðunni: www.finefoods.is sem og á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.


Comments


bottom of page