top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

3D lausnir

3D lausnir, þrívíddarprentun, hringrásarsteypa, þrívídd, byggingariðnaðurinn, Jón Þór Sigurðsson, Arnar Þór Hansen, norðurland, landsbyggðin, Startup Stormur, Norðanátt, hönnun, úr vör, vefrit
Félagarnir Arnar Þór Hansen (t.v.) og Jón Þór Sigurðsson (f.miðju) taka við verðlaunum á lokakvöldi viðskiptahraðalsins Startup Stormur í nóvember mánuði síðastliðnum. Ljósmynd aðsend.

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.

Fyrirtækið 3D lausnir, sem félagarnir Jón Þór Sigurðsson og Arnar Þór Hansen standa að baki, var hlutskarpast á lokakvöldi viðskiptahraðalsins Startup Stormur sem haldið var á vegum Norðanáttar í lok nóvember mánaðar síðastliðins. Á lokakvöldi hraðalsins fengu dómnefnd og gestir í sal að kjósa um besta verkefnið og bar 3D lausnir sigur úr býtum og vann verðlaunafé, auk þess sem verkefnið fékk líka styrk líkt og önnur verkefni sem tóku þátt í hraðlinum.


Jón Þór segir að styrkurinn, auk verðlaunanna, sé góð viðurkenning og mun það koma sér afar vel í þeirri rannsóknarvinnu sem þeir leggja stund á þessa dagana.

Rannsóknarvinnan gengur út á að þróa steypu útfrá hringrásar- og náttúrulegum efnum til að notast við í þrívíddarprentun. „Til lengri tíma vonast maður til að þetta geti verið nýtt til dæmis í byggingariðnaðinum. Hringrásarpælingin kom til því við erum í óformlegu samstarfi við PCC BakkiSilikon verksmiðjuna á Húsavík og við höfum verið að skoða möguleika á að nýta affallsefni frá þeim í steypuna, þannig notum við aftur efni sem annars færi til spillis og er þetta því umhverfisvæn aðferð.

Fyrsta skrefið í þessu verkefni okkar er að þróa steypuna, því maður getur ekki notað venjulega steypu í þrívíddarprentun og skref númer tvö væri að prufakeyra svo umrædda steypu með því að prenta með henni“ segir Jón Þór.


Að sögn Jóns kviknaði hugmynd þeirra Arnars eftir að hafa fylgst með velgengni fyrirtækisins 4D Print í Tékklandi, en fyrrverandi skólabróðir Jóns á og rekur það. „Félagi minn, Luai Kurdi, sem ég gerði lokaverkefni mitt með í mastersnámi í Barcelona, rekur þetta fyrirtæki í Tékklandi og hefur verið að þróa sinn búnað í mörg ár. Þetta lítur virkilega spennandi út og svona þrívíddarprentun er í stórri sókn í Evrópu og er nánast komið út um allan heim. Luai Kurdi byrjaði að þjónusta önnur fyrirtæki en er með sitt eigið núna og sérhæfir sig aðallega í dag í að setja upp slíkan búnað fyrir aðra. Ég hef verið í sambandi við hann um að koma að því verkefni, sem væri afar gott fyrir okkur til þess að losna við auka fimm ára rannsóknarferli, en með því að vera með honum í liði þá gætum við náð þessu fljótt.

3D lausnir, þrívíddarprentun, hringrásarsteypa, Luai Kurdi, Tékkland,þrívídd, byggingariðnaðurinn, Jón Þór Sigurðsson, Arnar Þór Hansen, norðurland, landsbyggðin, Startup Stormur, Norðanátt, hönnun, úr vör, vefrit
Þrívíddarprentaður veggur sem fyrirtæki Luai Kurdi, sem er félagi þeirra Jóns og Arnars, prentaði í Tékklandi. Ljósmynd aðsend.
En fyrsta skrefið er að búa til stóra útgáfu af þrívíddarprentara til að gera tilraunir með steypuna og búnaðinn, prentara sem væri um það bil 1,5 metrar á breidd. Það væri reyndar gaman að nota búnaðinn sem Luai Kurdi notar í Tékkland, en hann notar véltjakk til að stjórna prenthreyfingunum, notast við stóra og mikla græju og hefur til að mynda þrívíddarprentað heilt hús í Dubai. En hans búnaður kostar svona 30 til 40 milljónir króna þannig að það er ekki alveg raunhæft, við munum bara fara hægt af stað.“ segir Jón Þór og hlær. 

Þeir Jón Þór og Arnar Þór eru báðir búsettir á Norðurlandi og mynda gott teymi, en Jón kláraði mastersnám í stafrænum arkitektúr og framsækinni hönnun og Arnar lærði málmtækni og hefur unnið með vélbúnað upp á síðkastið. Þeir vonast eftir að fá styrk næst frá Rannís og eru að vinna í þeirri umsókn, en það myndi hleypa þeim vel af stað í þeirra rannsóknarferli. Það ríkir ákveðin bjartsýni hjá þeim að koma hugmyndinni af stað og segir Jón að áhugi sé fyrir þessari hugmynd hérlendis, en enginn annar hafi verið að gera þetta markvisst, þó tilraunir hafi verið gerðar í einhverjum nýsköpunarmiðstöðum.


„Það þarf bara að sýna fram á að þetta sé hægt og gera tilraunir með þetta. Stóri parturinn varðandi þetta, ef maður ber saman venjulegan vegg, þá getur maður prentað með 55% minna magni af steypu en með hefbundinni steypuaðferð. Maður getur skilið eftir holrými og sett einangrun þar inn í til dæmis. Við höfum verið í sambandi við ýmis fyrirtæki í byggingariðnaðinum og með tímanum gæti þetta verið nýtt þar með ákveðnum reglugerðum. En svo er líka hægt að nota þetta í ýmsa vörugerð og einnig í listageiranum, til dæmis í skúlptúrgerð og ýmislegt.

Við erum alls ekki að huga að því að búa til byggingarfyrirtæki, heldur að þjónusta sérhæfðar lausnir. Tökum sem dæmi að við værum að þjónusta fyrirtæki sem væri að byggja verslun, þá myndum við auðvitað ekki taka að okkur að þrívíddarprenta heila verslun, heldur bara taka einn vegg fyrir í einu. Möguleikarnir eru miklir og við erum virkilega spenntir fyrir framhaldinu.“ segir Jón Þór að lokum og heyra má tilhlökkunina fyrir verkefninu í rödd hans.

Comentários


bottom of page