top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Barist með Sturlungum


1238 Baráttan um Ísland, Sturlungar, Sturlungaöld, sýning, Sauðarkrókur, landsbyggðin, norðurland, úr vör, vefrit
Helgi Sæmundur Guðmundsson, tæknistjóri sýningarinnar 1238 Baráttan um Ísland. Ljósmynd Helgi Sæmundur Guðmundsson

1238 Baráttan um Ísland er sýning sem fjallar um þau miklu átök sem áttu sér stað hér á landi á árunum 1220-1262 á tímabili sem kennt er við Sturlunga, en þá logaði landið í illdeilum sem brutust fram í bardögum sem flestir fóru fram í Skagafirði. Nafnið 1238 vísar til ártalsins þegar Örlygsstaðabardagi átti sér stað.


Auk hefðbundinnar miðlunnar nýtir sýningin nýjustu tækni til að skapa upplifun fyrir gesti sína, en 1238 er stærsta sýndarveruleika (VR) og viðbótarveruleikasýning (AR) sinnar tegundar í heiminum, auk þess sem sýningin er fyrst allra í Evrópu til að nýta sér 360° Ultra HD skjá til miðlunar, sem var fluttur var sérstaklega hingað til lands fyrir sýninguna.

Sýningin byggir á sögum frá Sturlungaöldinni og í henni er sagt frá átökum milli höfðingjaætta Íslands og stríðinu sem markaði upphafið að endalokum sjálfstæðis Íslands, sjálfum Örlygsstaðabardaga.

Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í tæknistjóra sýningarinnar, honum Helga Sæmundi Guðmundssyni og forvitnaðist um sýninguna.

Óli Arnar Brynjarsson, 1238 Baráttan um Ísland, Sturlungar, Sturlungaöld, Örlygsstaðir, landsbyggðin, Sauðarkrókur, úr vör, vefrit
1238 er stærsta sýndarveruleika (VR) og viðbótarveruleikasýning (AR) sinnar tegundar í heiminum. Ljósmynd Óli Arnar Brynjarssonynd

Helgi segir að opið sé á sýninguna frá 8:00 til 18:00 nánast alla daga ársins og að sýningin sé skemmtilega uppsett. Þegar inn er komið er gengið inn á kaffihús að nafninu Grána sem ber sama nafn og búð í bænum bar áður fyrr. Eftir kaffihúsið er gengið inn í sal þar sem hægt er að lesa allt um Sturlunga tímabilið og þar er sýning frá Húnaflóabardaga, sem er eina sjóorrustan sem háð var við Ísland. Hægt er að taka þátt í bardaganum í gegnum Ipad að sögn Helga.

„Svo er hægt að skoða vopn sem voru sérsmíðuð í Hafnarfirði, vopn eins og notuð voru á sínum tíma. Í sal þar fyrir innan er svo gengið inn í ákveðinn sýndarveruleika. Þar geturðu tekið þátt í Örlygsstaðabardaga og þú færð söguna beint í æð og kynnist aðal körlunum sem voru uppi á þessum tíma.

Eigandinn Ingvi Jökull Logason, hefur haft mikinn áhuga á þessum Örlygsstaðabardaga frá því að hann var lítill drengur og þannig fæddist hugmyndin.“ segir Helgi.

Sturlungaöld, Sturlungar, 1238 Baráttan um Ísland, landsbyggðin, Sauðarkrókur, Óli Arnar Brynjarsson, úr vör, vefrit
Sýningin byggir á sögum frá Sturlungaöldinni. Ljósmynd Óli Arnar Brynjarsson

Líkt og kom fram er Helgi tæknistjóri sýningarinnar og sér því um tæknimálin á staðnum. Hann segir þetta vera einu sýninguna með þessum hætti á Íslandi og segir að um sé ræða mikið að dýrum og flóknum búnaði sem flytja þurfti á staðinn. „Það þurfti að taka mörg símtöl og margt þurfti að smella, en þetta tókst að lokum! Ég sé um uppsetningu og að þetta gangi, en ég tók ekki þátt í að búa þetta til.

Þetta hefur verið krefjandi ferli, ég hef ekki unnið við svona áður og maður prufar sig áfram og lærir. Svo hefur maður ófáum sinnum þurft að reiða sig á Google! Nú getur maður einbeitt sér að því að taka á móti fólki, í staðinn fyrir að vera að sökkva sér niður í takka á tölvum og leita að snúrum.“ segir Helgi og hlær.

Að sögn Helga er hópurinn sem stendur að baki sýningarinnar bjartsýnn og að hugmyndin hafi verið afar stórtæk á sínum tíma. „Ég held að margir hafi svitnað við tilhugsunina og mér finnst magnað að þeir sem voru með frá byrjun hafi keyrt þetta áfram og trúað á þetta. Það kom aldrei hik í neinn og það þarf þrautseigju varðandi svona lagað. Núna þurfum við að byggja upp sýnileika á netinu og það tekur tíma. Þessa fyrstu daga var þetta mikið til fólk sem var að keyra framhjá og sá fánann sem komu eða þeir sem höfðu heyrt af þessu með einhverjum hætti.“

1238 Baráttan um Ísland, Sturlungaöld, Sturlungar, Óli Arnar Brynjarsson, Sauðarkrókur, landsbyggðin, norðurland, úr vör, vefrit
Hægt að skoða vopn eins og notuð voru á Sturlungaöld. Ljósmynd Óli Arnar Brynjarsson

Helgi er uppalinn á Sauðarkróki og bjó þar með smá hléum til tvítugs. Hann er nýfluttur tilbaka eftir að hafa búið í Reykjavík síðastliðin 15 ár og líður afar vel að vera kominn aftur í heimahaga. „Ég er að verða faðir og langar að ala upp barnið hér á Sauðarkróki. Það er gaman að geta tekið þátt í að byggja eitthvað svona upp, eins og þessa sýningu, á sínu svæði.

Ég tek eftir að fólk í kringum mig er að leita eftir því að fara frá borg í sveit, það eru margir úr vinahópnum farnir að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið. Einu sinni snéri þetta um að búa í 101, en nú vill maður bara losna af Hringbrautinni og koma sér eitthvað annað, það er líka nóg um að vera annarsstaðar!“ segir Helgi að lokum fullur tilhlökkunar.
1238 Baráttan um Ísland, Sturlungar, Sturlungaöld, Sauðarkrókur, landsbyggðin, norðurland, Óli Arnar Brynjarsson, úr vör, vefrit
Hægt er að taka þátt í Örlygsstaðabardaganum í gegnum Ipad. Ljósmynd Óli Arnar Brynjarsson


bottom of page