top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Mörg vinasambönd hafa myndast“


Westfjords Residency, Janne Kristensen, gestavinnustofa, residency, Þingeyri, Simbahöllin, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Janne Kristensen með hópnum sem nýlega lauk dvöl í gestavinnustofu á vegum Simbahallarinnar. Ljósmynd Westfjords Residency

Nýlega dvaldi hópur listafólks á Þingeyri og tók þar þátt í gestavinnustofu sem Simbahöllin hefur staðið fyrir síðan árið 2015 og ber nafnið Westfjords Residency. Blaðamaður ÚR VÖR tók Janne Kristensen tali og spurði hana spjörunum úr hvað gestavinnustofurnar varðar.


Janne segir að hugmyndin að gestavinnustofunum hafi kviknað í ráðstefnu sem haldin var á Þingeyri um skapandi hugmyndir og samfélagsþróun í Dýrafirði. Hún segir að hugmyndin hafi svo þróast í gegnum árin og að þörfin fyrir að færa líf í bæinn yfir vetrarmánuðina hafi verið aðal kveikurinn að verkefninu. Einnig segir Janne að hún og Wouter maðurinn hennar hafi viljað deila Þingeyri og þessum landshluta með fólki annarsstaðar frá, hvort sem um erlenda gesti væri að ræða eða fólk frá öðrum stöðum á landinu. Vinnustofurnar eru ekki einungis fyrir listafólk að sögn Janne, heldur einnig fyrir fólk sem vill komast í burtu frá borgarlífinu og vinna að einhverskonar skapandi verkefnum.


„Við reynum að velja fólk sem getur fært bænum eitthvað og haft áhrif á samfélagið. Það er svona megin munurinn á t.d. ferðaiðnaðinum og það sem við erum að reyna að gera með þessu.

Við höfum staðið fyrir ýmsum verkefnum í gegnum tíðina, í fyrra var t.d. hjá okkur fjölskylda frá Belgíu sem dvaldi á Þingeyri í eitt ár, þau eru miklar félagsverur, mjög skapandi og settu þau m.a. á fót vinnustofur og leikhús fyrir börn í bænum.“ segir Janne.

Að sögn Janne bjóða þau bæði upp á gestavinnustofur fyrir einstaklinga sem og hópa. Fólk sem tekur þátt í hópadvölinni borða saman, kynnast og jafnvel vinna saman, þótt það sé ekki skilyrði. Í lok dvalarinnar setja þau svo upp samsýningu í Simbahöllinni. Gestavinnustofunni sem var að ljúka hjá Janne og Wouter var með aðeins öðruvísi sniði en áður, en áhersla var lögð á jóga og hugleiðslu og segir hún að þau munu klárlega bjóða upp á þannig vinnustofu aftur, útkoman hafi verið virkilega góð.

Westfjords Residency, Simbahöllin, Þingeyri, gestavinnustofa, residency, list, menning, Dýrafjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Settar eru upp sýningar með verkum gestanna í lok hverrar gestavinnustofu. Ljósmynd Westfjords Residency

„Þegar um hópa ræðir þá getum við tekið á móti tíu manns í einu, í einstaklingsdvölinni geta verið fjórir í einu, þar sem lögð er áhersla á að upplifa sig einangraðan í firðinum yfir vetrartímann. Flestir sem hafa komið eru erlendir gestir, en það hafa þó komið hingað íslenskir gestir einnig.

Það er gaman að sjá hvernig gestirnir eiga í samtali og samskiptum við bæjarbúa á meðan á dvöl þeirra stendur. Fólk hittist í sundlauginni og mörg vinasambönd hafa myndast, einum gestanna var t.d. boðið að baka rúgbrauð með heimafólki. Svoleiðis upplifun skilur svo mikið eftir og gerir það að verkum að fólk vill koma aftur og aftur.“

Janne segir að heimafólk sé meira opið fyrir heimsóknum listafólks í dag en það var þegar þau byrjuðu fyrst með vinnustofurnar. Hún segir að heimamenn sjái að fólk hafi áhuga á bænum þeirra, vilji heimsækja hann og jafnvel flytja þangað. Samkvæmt Janne er einu af markmiðinu með vinnustofunum náð, að gefa fólki sýnishorn af lífinu á Þingeyri. Gestirnir eru yfirleitt yfir sig hrifnir og hafa skilið eftir sig verk, líkt og nokkur vegglistaverk sem setja svip sinn á bæinn. Janne segir það vera mest gefandi að deila þessum fallega stað sem Þingeyri er með öðrum og að kynnast fólki, verkum þeirra, fá innblástur og eignast nýja vini. Hún viðurkennir að það sé mikil vinna að standa fyrir vinnustofunum, en segir að reynslan hjálpi og að það verði auðveldara með árunum.

Westfjords Residency, Dýrafjörður, Þingeyri, Vestfirðir, gestavinnustofa, list, menning, residency, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Náttúrufegurðin er mikið í kringum Þingeyri og auðvelt að fá innblástur. Ljósmynd Westfjords Residency

Janne og Wouter festu kaup á Simbahöllinni á Þingeyri og opnuðu þar kaffihús árið 2009 og bjóða einnig upp á hjóla og hestaleigu. Samkvæmt Janne hafa þau fengið stuðning frá bæjaryfirvöldum og öðrum í formi styrkja á síðustu árum en hún segir að í fyrstu hafi henni fundist eins og fólk hafi ekki séð kosti þess að fá listafólk í heimsókn í bæ eins og Þingeyri. Hún segist halda og vona að það hafi þó breyst til hins betra en bætir við að það sé erfitt að meta áhrif gestavinnustofa, þó hún efist ekki um mikilvægi þeirra.

„Stjórnmálafólk þarf að vakna og átta sig á kraftinum sem list getur komið með að borðinu varðandi að lífga bæi við! Það er áhugaverð orka í kringum grasrótar hreyfingar, frá fólki sem hefur mikinn drifkraft og hugsjón um hvernig og hvað þau gera. Fyrir okkur Wouter snýst þetta um að hafa áhrif til langs tíma, að skapa menningarlegt umhverfi gæti maður sagt.

Við teljum að það verði alltaf mikilvægt að geta komið á stað eins og Þingeyri, að finna friðinn og finna sjálfan sig aftur, að komast frá ys og þys stórborganna. Að heimsækja kjarnann í sjálfum sér og komast nálægt honum, en ég held að náttúran hér á Vestfjörðum sé einmitt góð áminning um það og hjálpi mikið til.“ segir Janne að lokum.

Westfjords Residency, Simbahöllin, Þingeyri, Dýrafjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, gestavinnustofa, list, menning, residency, úr vör, vefrit
Eitt af markmiðum með einstaklings vinnustofunum er að fólk upplifi það að vera eitt og einangrað í firðinum. Ljósmynd Westfjords Residency


Comentários


bottom of page