top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Það þarf að vernda þessa perlu“


Westfjords Adventures, ferðaþjónusta, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Gunnþórunn Bender, einn af stofnendum Westfjords Adventures. Ljósmynd Westfjords Adventures

Ferðaþjónustufyrirtækið Westfjords Adventures var stofnað árið 2012. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði á dögunum í Gunnþórunni Bender, einum af stofnendum fyrirtækisins, og fékk að vita hvað fyrirtækið býður upp á og hvernig starfsemin hefur þróast í gegnum árin.

Gunnþórunn segir að í upphafi hafi hugmyndin verið að bjóða upp á nýja möguleika varðandi afþreyingu á svæðinu því lítið sem ekkert hafi verið boði á þeim tíma. Einhver afþreying hafi þó verið á Bíldudal varðandi göngu ferðir og sjóstangaveiði en það hafi verið allt of sumt.

Gunnþórunn ásamt tveimur öðrum aðilum settu því á fót fyrirtækið og hófu að bjóða upp á afþreyingarpakka sem innihéldu gönguferðir, hjólaferðir og útsýnisferðir. Auk þess var líka boðið upp á sjóstangaveiði þar sem veitt var og aflinn svo borðaður á veitingastað í bænum síðar um kvöldið.
Westfjords Adventures, ferðaþjónusta, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Selaskoðunarferðir fyrirtækisins vekja jafnan mikla lukku. Ljósmynd Westfjords Adventures

Árið 2015 voru svo kaflaskipti hjá fyrirtækinu en þá urðu eigendaskipti. Að sögn Gunnþórunnar þá hafði ekki gengið alveg nógu vel og úr varð að hún ásamt tveimur öðrum aðilum keyptu vörumerki fyrirtækisins og hófu saman rekstur. Hún segir að þau hafi haldið áfram með svipaðar áherslur en hafi jafnframt aukið framboðið og bjóði í dag upp á tuttuguogátta ferðir allt í allt. Um er að ræða fyrrnefndar ferðir auk þess sem við hafa bæst selaskoðunarferðir og jeppatúrar. Að auki selur fyrirtækið einnig ferðir frá öðrum aðilum, aðallega ferðaþjónustuaðilum sem eru með afþreyingu á Ísafirði og norðanverðum Vestfjörðum, eins og t.d. Hornstrandir.

„Svo hefur aukist að undanförnu bókanir fyrir hópa til að fara erlendis og er mikið að gera í því hjá okkur núna. Við erum að bóka ferðir um allan heim og stundum erum við að senda út fararstjóra en ekki alltaf. Þetta eru hópar, fyrirtæki og einstaklingar á svæðinu sem vilja losna við umstangið við að bóka ferðir og skipuleggja ferðalögin.“ segir Gunnþórunn.

Hún segir að fjöldi starfsmanna sé misjafn eftir tímabilum, en yfir vetrartímann starfa tveir á skrifstofunni og svo yfir sumartímann eru fjórir fastir starfsmenn í leiðsögn og akstri og áfram tveir á skrifstofunni. „Svo á stóru dögunum þegar skipin koma þá eru aðilar á svæðinu sem við getum fengið að hóa í til að koma í akstur, þannig að þetta er mjög breytilegt.“ segir Gunnþórunn.

Westfjords Adventures, ferðaþjónusta, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Í boði eru fjölbreyttar gönguferðir víða á Vestfjörðum. Ljósmynd Westfjords Adventures.

Samkvæmt Gunnþórunni hefur líka verið aukning varðandi komu skemmtiferðaskipa á svæðið. Hún segir að eigendur fyrirtækisins hafi strax farið að huga að komu þeirra árin 2012 til 2013 í samstarfi við sveitarfélagið Vesturbyggð. „Við efldum þáttöku þeirra hjá Cruise Iceland, sem eru regnhlífarsamtökin fyrir hafnir og þjónustuaðila fyrir skipin og höfum verið að sækja sýningar fyrir fyrir fulltrúa skipafélaga og ađila sem þá þjónusta, auk þess að útbúa kynningarefni fyrir höfnina, líkt og bæklinga og heimasíđur. Þetta hefur gengið ágætlega, en það hefur tekið fjögur til fimm ár að koma þessu á.

„Við erum með ferðapakka fyrir skipafarþegana og fólk sækist mikið í þessar perlur hér í kring eins og á Látrabjarg, Rauðasand og Dynjanda. Svo stoppum við í söfnunum á svæðinu og erum með fisksmökkunarferðir og gönguferðir, þannig að það má segja að við séum með fjölbreytta afþreyingu fyrir þessa farþega.“ segir Gunnþórunn.
Westfjords Adventures, ferðaþjónusta, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Ferðamenn við Selvogaveg sem er ein af jeppaferðunum sem í boði eru. Ljósmynd Westfjords Adventures

Að sögn Gunnþórunnar skiptir það miklu máli að hafa fjölbreytta afþreyingu á svæðinu, það geri það að verkum að fólk komi frekar á svæðið og staldri lengur við. „Við hér á Vestfjörðum fáum miklu minni hluta af heildarkökunni en aðrir. En það hefur gert það að verkum að núna þegar það er niðursveifla í ferðaþjónustunni þá erum við ekki farin að finna fyrir því eins mikið og aðrir landshlutar, það hefur ekki verið eins mikið uppsveifla hér eins og annarsstaðar.

„En ég tel að horfurnar séu góðar, ég er bjartsýn og jákvæð og sumarið leggst vel í mig. Við eigum mikið inni miðað við aðra, það eru margir ferðamenn sem eru að koma til Íslands í annað skipti og koma þá til Vestfjarða. Svo er líka fólk sem vill koma aftur og aftur, margir af þeim sem koma hingað heillast af Vestfjörðum.“ segir Gunnþórunn.

Gunnþórunn segir að mikið sé um að náttúruunnendur sæki Vestfirði heim. Hún segir að þeir sæki í fámennið og hina ósnortnu náttúru. Aðspurð segir hún að það mest gefandi í starfinu sé að finna ánægju ferðamanna. „Yfir höfuð er fólk mjög ánægt og upprifið yfir íslenskri náttúru og þeim náttúruperlum sem við höfum hér á svæðinu. Svo skiptir líka miklu máli fyrir okkur að vera í góðu samstarfi við heimafólk og önnur ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu og leggjum við mikla áherslu á að hafa það samstarf gott.“ segir Gunnþórunn.


Westfjords Adventures, ferðaþjónusta, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Gunnþórunn vill að tekin séu upp gjald á hvern ferðamann sem hægt væri að nýta í að vernda náttúruna. Ljósmynd Westfjords Adventures.

Að lokum berst talið að horfunum í ferðaþjónustu á Íslandi. Að mati Gunnþórunnar er sú aukning sem verið hefur undanfarin ár óeðlilega mikil og að ekki hafi verið hægt að búast við að slík aukning yrði endalaus, ef svo væri þá myndi henni hætta að lítast á blikuna.

„Eins og staðan er núna þá erum við að fá mikinn fjölda ferðamanna til landsins og mér finnst mikilvægara að það sé haldið rétt á spöðunum, það þarf að vernda þessa perlu sem við höfum upp á að bjóða. Umgengnin er að mínu viti ábótavön á mörgum stöðum á landinu og kannski er nærtækast að vísa á okkar svæði og tala um Látrabjarg. Það þarf að gera mikið fyrir það svæði til að það hljóti ekki skaða af vegna fjölda ferðamanna.

„Mér finnst að við eigum að vera harðari og taka inn gjöld á hvern ferðamenn sem kemur til landsins. Það gjald þarf ekkert að vera hátt, kannski tvö til þrjú þúsund krónur á mann og sá peningur getur farið í að vernda náttúruna til að þessi svæði sem við bjóðum upp á geti verið sjálfbær.“ segir Gunnþórunn að lokum.

Westfjords Adventures, Vestfirðir, ferðaþjónusta, úr vör, vefrit
Hópur á vegum Westfjords Adventures í göngu á Rauðasandi. Ljósmynd Westfjords AdventuresCommentaires


bottom of page