top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Vísindi áramótaheita


Guðrún Anna Finnbogadóttir, vísindi áramótaheita, pistill, landsbyggð, Vestfirðir, Patreksfjörður, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
„Vorið bíður upp á páska, sumardaginn fyrsta og fleiri hátíðisdaga en öll þessi göt í skipulaginu ná einhvernveginn að koma enn meira losi á einbeittan vilja til að halda út hinn fulkomna lífsstíl.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þegar fylgst er með fjölmiðlum er áhugavert að reyna að meta hvernig áramótaheitin ættu að hljóma fyrir árið 2020 og taka saman hvernig þetta myndi þá líta út með tölulegri nálgun. Þegar það svo liggur fyrir er einhver von að dæmið gangi upp?


Áramótin eru liðin og tími til kominn að bretta upp ermar og vinna að áramótaheitunum. Það mikilvægasta er að vera meðvitaður og það er predikað á báða vegu í öllum miðlum, annarsvegar hversu mikilvægt sé að setja sér ármótaheit og hinsvegar hversu óþarft það sé að setja sér áramótaheit, því við eigum að vera í takti og núvitund allt árið um kring.

Boltinn er byrjaður að rúlla og þá er það mataræðið sem er það allra mikilvægasta en mig grunar að maturinn í janúar sé á flestum heimilum með allra hollasta móti. Bæði er nú ekki hundi út sigandi í þessum lægðum sem leggjast yfir landið hver á fætur annari og því engin hvati að fara út að borða.

Bankareikningar frekar þunnskipaðir eftir neysluna í aðdraganda jólanna og um hátíðirnar og því tilvalið að klára úr frystikistunni. Gæðastundum fjölskyldunnar fjölgar einnig því enginn kemst neitt svo að heildarmyndin er með besta móti.

Guðrún Anna Finnbogadóttir, vísindi áramótaheita, pistill, Arnarfjörður, landsbyggð, Vestfirðir, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
„Hvort sem líffstíllinn er minimalískur, klassískur, ofgnóttar eða þetta allt í bland þá er gott að vita að það eru 1 klukkustund og 47 mínútur eftir til að gera allt það sem hugurinn girnist þegar öllum öðrum skyldum er lokið og lífsstíllin eins og best verður á kosið.“ Ljósmynd Julie Gasiglia

Meistaramánuður í febrúar kemur í kjölfarið með enn fleiri átaksverkefni og gamla drauma sem hafa verið hummaðir fram af sér svo mánuðum jafnvel árum skiptir og nú er kominn tími til að láta þetta rætast. Þegar meistaramánuði er lokið og þeir sem enn hafa haldið sínu striki fer oft þrekið þverrandi í öllum stöðugleikanum og hugurinn fer að plata fólk með að nú hafi það staðið sig svo vel að það eigi ýmislegt gott skilið. Vorið bíður upp á páska, sumardaginn fyrsta og fleiri hátíðisdaga en öll þessi göt í skipulaginu ná einhvernveginn að koma enn meira losi á einbeittan vilja til að halda út hinn fulkomna lífsstíl.

Þá er komið að sumrinu sem við hlökkum nú einna mest til en þá koma sumarleyfin, tónleikar, ferðalög, sorphreinsiátök, bæjarhátíðir, sumarbústaðaferðir, fjölskylduhittingar, vinahittingar, skógræktarverkefni, garðyrkja, fúaverjun palla, húsamálun, grindverksviðgerðir og geymslutiltekt.

Listinn er langur yfir það sem á að framkvæma og þarna kemur stærsta villan upp í mannsheilaforritinu ár eftir ár. Í fyrsta lagi rúmast öll þessi verkefni til framkvæmda ekki yfir sumartímann, við vitum það öll en neitum að trúa því. Í öðru lagi gleymum við að allt þetta vanalega sofa, borða, elda, þrífa, þvo þvott og hreyfa sig þarf líka að gera á sumrin og tekur sama tíma og um veturinn.

Guðrún Anna Finnbogadóttir, vísindi áramótaheita, pistill, landsbyggðin, Vestfirðir, Patreksfjörður, Brellur, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
„Það er greinilega ekki mikið svigrúm fyrir kósídaga, letidaga, yfirvinnu eða aðrar óvæntar uppákomur en það má ekki gleyma því að hið óvænta er oft á tíðum kryddið í tilverunni.“ Ljósmynd Julie Gasiglia

Til að setja þetta allt í tölulegt samhengi hef ég reiknað út hvað “rútínan” um heilbrigt og gott líferni tekur langan tíma og síðan hversu mikill tími er þá eftir til að gera allt það sem hugurinn girnist. Taflan sem kemur hér fyrir neðan tekur á öllu því sem gerist á hefðbundnu heimili. Taflan sýnir þær klukkustundir sem við höfum á þessu ári, 8.784 klukkustundir því það er hlaupár í ár.

Hvort sem líffstíllinn er minimalískur, klassískur, ofgnóttar eða þetta allt í bland þá er gott að vita að það eru 1 klukkustund og 47 mínútur eftir til að gera allt það sem hugurinn girnist þegar öllum öðrum skyldum er lokið og lífsstíllin eins og best verður á kosið.

Það er greinilega ekki mikið svigrúm fyrir kósídaga, letidaga, yfirvinnu eða aðrar óvæntar uppákomur en það má ekki gleyma því að hið óvænta er oft á tíðum kryddið í tilverunni. Höfum öll þessi góðu ráð í huga en þegar upp er staðið þá er hinn gullni meðalvegur líka ansi góður.

Guðrún Anna Finnbogadóttir, vísindi áramótaheita, pistill, landsbyggð, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Allt sem gerist á venjulegu heimili að mati greinarhöfundar. Gerð töflu Guðrún Anna Finnbogadóttir


Comments


bottom of page