Vestfirskir listamenn
Ísleifur Sesselíus Konráðsson
F. 5. febrúar 1889. D. 9. júní 1972
Öndvegisverk: Herðubreið drottning öræfanna, 1961, Hofgarður óðal landnámsmannsins, 1962, Skrímslið úr hafinu, 1971
„Listamannsferillinn er ekki langur. Ónei, bara síðan ég komst á ellilaun og hitti hann Jóhannes Kjarval á gangi í Bankastrætinu, manninn sem vísaði mér þann veg er gerði elliár mín bærileg.“ Þannig lýsti hinn einstaki vestfirski listamaður Ísleifur Konráðsson sínu listupphafi. Segið svo að listin komi ekki að gangi í lífshjólinu og hvað þá þegar hinu eiginlega brauðstriti líkur. Listastússið þarfnast tíma og loks þegar Ísleifur komst á eftirlaunin tók listin við. Þó seint hafi verið byrjað að flúra á strigann í þessu tilfelli lukkaðist það svo vel að Ísleifur er enn í dag einn af okkar fremstu einförum í íslenskri myndlist.
Einfarar eru þeir nefndir í myndheiminum sem eru ómenntaðir í list sinni og hafa varðveitt barnshugann í listverki og túlkun. Þannig var einmitt líðan Ísleifs þegar hann byrjaði að mála: „Mér var innanbrjósts eins og krakka sem fengið hefur lengi þráð leikfang.“ Þó listferilinn hafi verið stuttur þá voru afköstin gífurleg og það sem meira var það seldist nánast allt sem hinn aldni listamaður túlkaði með sínum barnshug. Sjálfur sagðist hann varla hafa tíma til að sofa því það væri svo mikið sem þyrfti að mála.
Hann fæddist í lausaleik einsog hann orðaði það sjálfur og bætti við: „En það verða margir miklir menn, þótt þeir séu þannig til komnir. Ekkert verri lausaleiksmenn.“ Foreldrarnir fátæk vinnuhjú á prestsetrinu Stað í Steingrímsfirði og nefndu króann í höfuðið á húsbændunum eða Ísleif Sesselíus Konráðsson. Miðjunafnið var sótt til húfreyjunnar og notaði piltur það lítt: „Ég er nú vanur að kalla mig bara Ísleif, læt maddömmuna eiga sig.“ Eigi var stundin löng í prestgarði því hann er fljótlega settur í fóstur til Ólafar Jörundsdóttur á Hafnarhólmi í sama firði. Segja má að hún hafi gengið Ísleifi í móðurstað og var mjög kært á millum þeirra. Það var því mikið áfall þegar hún féll frá þegar drengur var á hinum viðkvæmu unglingsárum. Eftir það flakkaði hann víða og vann fjölbreytt störf. Reyndar var hann víst ekki sérlega vinnugefinn og þótti lunkinn í að koma sér frá störfum er kröfðust mikils erfiðis. Loks fór hann útfyrir Vestfirðina og svo alla leið til Kaupmannahafnar. Þar líður fólki jafnan vel og sjálfur sagðist hann sjá eftir því að hafa flutt þaðan.
Hann hafði hinsvegar tekið að sér að fylgja leigusala sínum sem var öldruð íslensk ekkja aftur heim til Íslands því þar vildi hún enda sína lífdaga. Heimkominn var sjóðurinn tómur og Ísleifur starfaði allt sinna lífdaga í borginni. Ísleifur átti engin börn og kvæntist aldrei. Enda var hann lítið að pæla í þvílíku: „Nei, ég hef aldrei verið í neinu kvennastússi, a.m.k. ekki hér heima. Þar getur hver étið sitt án minnar íhlutunar.“
Meistari Kjarval var drjúgur að ferðast um landið og túlka ásjána í myndum sínum. Það var einmitt það sem Ísleifur gerði í sinni list. Hann naut þess að ferðast um landið og það greina líka verkin. Mikið landslagsmyndir allsstaðar að, allt frá Skriðuklaustri til Sjöundá. Hann sótti einnig í söguna, þjóðleg minni og ekki má gleyma álfunum.
Æskustöðvarnar voru einnig vinsælt myndefni þó erfitt hafi hann átt með að ferðast um hinar hrjóstrugu Strandir en þá var bara minningunni og ýmundaraflinu beitt og þar var af nógu að taka. Þannig má segja að hann hafi á áhrifaríkan hátt miðlað sögu ákveðins tíma til komandi kynslóða með myndlýsingum sínum. Ekki ónýtt að eiga slíkt í dag sérlega á þeim tímum þegar myndin er sífellt að verða vinsælli en lesefnið.
Myndir Ísleifs eru um margt sérstakar og ævintýralegar með góðu kruðerðíi af fantasíu. Einsog oft í heimi einfara þá eru stærðarhlutföllin oft öðruvísi en hjá hinum fullorðnum. Fuglar voru vinsælt myndefni og voru stundum stærri en skipin er sjóinn silgdu í sama myndverki. Víst var hann náttúrubarn, bar virðingu fyrir náttúrunni sem fuglum: „Fuglar fara ljómandi vel á myndum þeir eru virðulegir eins og embættismenn og kurteisir eins og þjónar ættu að vera. Við getum margt af þeim lært og fuglaskíturinn fer svo fjarskalega vel í björgunum.“
Ísleifur hélt sína fyrstu málverkasýningu 73 ára gamall árið 1962 í Bogasalnum í Reykjavík. Hann hélt sjö sýningar til áður en hann hélt sjálfur í hið eina sanna álfaland. Allajafnan seldist allt á sýningunum og þegar á leið ferilinn jókst áhugi erlendra listspegulanta á þessum einstöku verkum. Í íslensku spegulantadeildinni var það Björn Th. Björnsson, listfræðingur, sem fyrstur sýndi list Ísleifs áhuga. Var það upphafið af vinskap sem varði allt til enda og var svo sannur að listamaðurinn vildi gjarnan hafa þennan listelska vin sinn með sér í viðtölum við fjölmiðla. Þekktasta verk hans er líklega Herðubreið, drottning öræfanna sem rataði seinna í sérstaka frímerkja seríu sem var tileinkuð hinum íslensku einförum.
Texti: Elfar Logi Hannesson
Heimildir:
Áslaug Olga Heiðarsdóttir. Barnslegar myndir eða gamlar minningar.
Þorsteinn Matthíasson. Hrafnistumenn 2. 1971, Ægisútgáfan.
Kommentare