top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Í takt við veðrið


Arnhildur Lilý Karlsdóttir, veður, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson.
„Ég kem ef það verður fært!“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson.

Í dag er brjálað veður. Ég ætti núna að vera á leiðinni til Reykjavíkur til að komast á mikilvægan fund, en það er ofsaveður eða það sem Vegagerðin og Veðurstofa Íslands kalla „ekkert ferðaveður“. Líklega verður veðrið öðruvísi þegar þú lest þetta, en þessi orð eru skrifuð í ófærð.


Vestfirðirnir skarta bæði einstakri og stórbrotinni náttúrufegurð en einnig hnignandi atvinnuþróun og fólksfækkun. Eitt af því sem liggur þeirri þróun til grundvallar er hversu erfitt er að komast á milli.

Vestfirðirnir hafa löngum verið afskekktir og enn í dag hefur ekki tekist að klára að malbika hringveginn. Fyrir borgarbarn eins og mig var það því ákaflega opinberandi og lærdómstríkt að flytja á Vestfirðina.Reykvíkingar sem aldrei hafa búið á landsbyggðinni fara þannig svolítið á mis við nokkuð sem er einstaklega þroskandi: Að finna í hinu daglega lífi svo áþreifanlega fyrir smæð sinni gagnvart landinu og náttúrunni.
Arnhildur Lilý Karlsdóttir, veður, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
Við svona aðstæður er auðvelt að finna fyrir smæð sinni. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson.

En það er ekki aðeins fjarlægðin sem skiptir máli heldur kemur þar fleira til. Þegar komast þarf á milli staða eða landshluta fylgir ávallt eitt EF. Þetta EF hefur einstaklega stórt vægi og allt að því sjálfstætt líf: „Ég kem ef það verður fært“, „Við sjáumst um helgina ef það verður flogið“, „Já, ef veður leyfir“. Þetta stóra EF stendur, eins og þú líklega veist, fyrir veðrið.

Mörgum kann að þykja rómantíkst að sitja inni með kertaljós og láta veður og vinda bylja á gluggum, og það þykir mér líka, en rómantíkin er fljót að hverfa þegar sækja þarf þjónustu yfir í næsta fjörð, yfir heiðar eða til höfuðborgarinnar. Þá hefur veðrið allt dagskrárvald.
Arnhildur Lilý Karlsdóttir, veður, úr vör, vefrit
Vindurinn bylur á gluggunum og kertaljósið logar inni í hlýjunni. Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Veðrinu er ekki hægt að mæta öðruvísi en með auðmýkt. Það er hægt að ærast yfir glötuðum tækifærum, fundum eða plönum, en á endanum breytir það engu. Veðrið bara hefur sinn gang og lítið við því að gera annað en lifa í takt við það. Að vera svona á valdi veðursins dregur fram djúpstæðari skilning á náttúrunni og samspili hennar við fólk og samfélög fyrri alda. Það minnir okkur einnig á hversu smá við erum í heildarsamhenginu.

Okkur hættir nefnilega til að finnast við ósigrandi, alveg þangað til hressileg vindhviða feykir fílabeinsturni hrokans um koll og kyrrsetur okkur.
Arnhildur Lilý Karlsdóttir, veður, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
Ekkert ferðaveður. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Að vera veðurtepptur er svolítið sérstakt ástand. Við það að vera kyrrsettur á þennan hátt myndast nokkurskonar tímabundið holrými í lífinu. Allt er klárt, búið að pakka og ganga frá öllu, en tannhjól plana og framkvæmda staðnæmast. Það er líkt og tíminn standi í stað og um stundarsakir hætta öll plön að skipta máli. Við neyðumst þá til að játa okkur sigruð, gefa eftir inn í ástandið og stoppa.

Og það er einmitt þá, þegar við tökum þetta skref til baka og gefum eftir gagnvart ytri aðstæðum að eitthvað merkilegt getur gerst. Eitthvað óvænt eða fagurt. Ástandið er einmitt tækifæri, eins og lítil gjöf frá náttúrunni, fyrir þig til að staldra við og fá andrými og njóta stundarinnar, fá innblástur og uppljómun til að vera skapandi eða njóta hvíldar. Því þrátt fyrir allt getur einstakt frelsi búið í ófærðinni.
Arnhildur Lilý Karlsdóttir, veður, úr vör, vefrit, Julie Gasiglia
Að vera veðurtepptur er sérstakt ástand. Ljósmynd Julie Gasiglia.


bottom of page