top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Undir smásjá framtíðarinnar


Nýsköpun, covid19, fjarfundir, tækni, ný heimsýn, Guðrún Anna Finnbogadóttir, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Ráðstefnur og fundir milli landshluta og út um allan heim eru nú haldnar á netinu og þáttakendur frá öllum heimshornum sitja hver á sínum stað og miðla fróðleik.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Það hefur sjaldan verið auðveldara að loka sig af í búbblu eigin hugarheims, kveikja á kerti og láta heiminn fram hjá sér fara. Breytt staða í heiminum hefur aftur á móti ýtt öllum á vit tækninnar og það spyr enginn lengur hvort hægt sé að halda fundi á netinu og allar gerðir funda fara þar fram. Í raun hefur heimurinn opnast í kjölfar heimsfaraldurs þrátt fyrir að við séum öll innilokuð.


Landsbyggðin hefur lengi kallað eftir að stofnanir og fyrirtæki nýttu sér tæknina betur til að fækka ferðalögum á fundi sem afskaplega mikilvægt að halda í raunheimum. Við höfum lært það á síðustu mánuðum að tæknin var þegar til staðar og komin á það stig að vel var hægt að nýta sér hana við mjög fjölbreytt fundarhöld en það skorti viljann í kerfinu til að tileinka sér hana.

Tæknin læðist svolítið aftan að manni og er orðinn dyggur þjónn áður en við vitum af og engin leið að átta sig á hversu háð við erum henni fyrr en hana vantar. Þá er spurningin, eru fleiri tækninýjungar sem lúra allt í kringum okkur en við nýtum ekki því að við þorum ekki, viljum ekki eða kunnum ekki að nýta okkur þær eða hreinlega trúum ekki á að tæknin virki?

Hvað vantar okkur? Vantar okkur eitthvað til að gera vinnuna léttari? Hvað myndi gera lífið léttara? Og hvað græði ég á því? Við höfum flóknar þarfir en þær skiptast nokkurnveginn í þrjá flokka nauðþurftir, þarfir sem gera lífið léttara og það sem okkar langar að hafa en er algerlega ónauðsynlegt. Þessi síðasti flokkur verður stöðugt umdeildari þegar ljóst er að við erum að ganga á auðlindir jarðarinnar en ætlum við eða langar okkur að gera eitthvað í því?


Flugferðir hafa lagst af á árinu sem er til mikilla bóta fyrir loftlagsmálin en það slær samt ekkert á tilhlökkunina að fara til útlanda um leið og það er raunhæfur kostur. Sólarlandaferðir heyra nánast sögunni til og þeir sem láta sig hafa það að fara, passa að setja það ekki á samfélagsmiðla af nokkru tagi því enginn vill vera óþreyjufullur á þessum tímum þrautseigju.

Það er hægt að sjá heiminn með “heimabúbblugleraugunum” og þá er lítið að gerast nema ný sjónvarpssería, nýlagað kaffi á könnunni og að fara yfir grímu og sprittbirgðirnar.

Það er líka hægt að sjá heiminn með “netgleraugunum” og þá fyrst er allt að gerast.

Nýsköpun, covid19, fjarfundir, tækni, ný heimsýn, Guðrún Anna Finnbogadóttir, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Unga fólkið er mjög meðvitað um framtíðina og að við þurfum að breyta um lífsstíl ef sjálbærni er leiðarljósið, en hindranirnar eru margar.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Ráðstefnur og fundir milli landshluta og út um allan heim eru nú haldnar á netinu og þáttakendur frá öllum heimshornum sitja hver á sínum stað og miðla fróðleik. Þessir fundir hafa víkkað sjóndeildarhring okkar því að það hefði ekki verið mögulegt að hittast á öllum þessum viðburðum fyrir Covid. En með einu “klikki” í tölvunni höfum við aðgang að færustu sérfræðingum, hverjum á sínu sviði.

Nýsköpun er svarið við öllum okkar spurningum þessa dagana og það verður að segjast að árið 2020 hefur opnað augu margra fyrir nýjum tækifærum. Tækifærin eru á ólíkum sviðum og við erum búin að gera nýtt bólefni á einu ári af því að opinberir aðilar og fyrirtæki lögðust á eitt.

Þetta ár hefur kennt okkur að skoða betur okkar nærumhverfi og að náttúran er sú auðlind sem við þurfum að hlúa vel að og nýta á sjálfbæran hátt til framtíðar til að geta notið hennar. Það er mikil gróska á öllum sviðum og komnar hugmyndir um hvernig við getum ræktað jarðarber í gróðurhúsum, ræktað þara til manneldis og ræktað litlu samfélögin okkar ef við leggjumst öll á eitt. Þetta hefur allt verið gert áður en nú ætlum við að gera það betur og á sjálfbæran hátt.


Unga fólkið er mjög meðvitað um framtíðina og að við þurfum að breyta um lífsstíl ef sjálbærni er leiðarljósið, en hindranirnar eru margar. Nýsköpun verður framtíðar sinfónían og unga fólkið mun lifa í þeirri framtíð og því er mikilvægt að fyrirmyndirnar, fullorðna fólkið, setji sig inn í þann heim sem bíður og skoði hverju má breyta strax, hvað þarf að gera til að breyta því sem þarf að breyta og tekur lengri tíma að framkvæma og hvernig sjáum við þessa framtíð fyrir okkur.

Við erum “undir smásjá framtíðarinnar” og þegar myndin stækkar blasir við framtíð nýsköpunar, umhverfisvænni lausna og réttlátara samfélags. Heimabúbblan hefur krafið okkur um að líta inn á við en á sama tíma vakið okkur upp af værum blundi um það hversu mikilvægur hlekkur við erum öll í heimsbúbblunni. Nú er tækifærið að láta lærdóm þessa árs vísa okkur veginn til framtíðar.


Comentarios


bottom of page