top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Glaumur nútímans á gnægtarborði jarðar


Umhverfismál, Guðrún Anna Finnbogadóttir, náttúra, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Náttúra Íslands er viðkvæm og fögur. Ljósmynd Julie Gasiglia

Neysla á Íslandi er slík að á fáum stöðum mælist hún meiri á hvern einstakling en hinsvegar komum við vel út í ýmsum mælingum þegar við deilum neyslunni á ferkílómetra. Það er helsti kosturinn við að búa í stóru strjálbýlu landi þegar reiknistokkarnir eru dregnir fram og við berum okkur saman við umheiminn.


Að kveikja á Bylgjunni á laugardegi veldur mér þvílíkri vanlíðan yfir öllu því sem ég er að missa af þar sem ég stend yfir skúringarfötunni, allt þetta dót sem mig vantar og allt sem er að gerast ýmist í Kringlunni eða Smáralind.

Spennan er slík yfir nýjum tilboðum verslana að þáttastjórnandinn nær varla andanum af ákafa. Á sömu útvarpsstöð eru svo þættir alla virka daga um gildi þess að fara vel með vera umhverfisvænn og jafnvel að hætta að kaupa föt, nema notuð.
Umhverfismál, Guðrún Anna Finnbogadóttir, náttúra, Haukur Sigurðsson, úr vör, vefrit
Hægt er að nýta fjölmargt úr náttúrunni ef vilji er fyrir hendi. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

Förum aðeins í saumana á þessum notuðu fötum sem við erum að tala um. Notuð föt voru einu sinni keypt, sá sem keypti þau, keypti þau ný, notaði þau aldrei eða sjaldan og þau urðu föt fyrir þig neytandi góður. Eiga þá aðrir héðan í frá að velja fötin á mig?

Þessi bolti lyktar af stéttarskiptingu og helst á þann hátt að ég kaupi grimmt og af mikilli áfergju en ef mér mislíkar get ég þvegið samvisku mína á einu vettvangi, gefið í fatasafnanir, og keypt nýtt og spennandi sem hentar mér betur það augnablikið.

Ef umhverfið er það sem í alvöru skiptir mig máli eru til nokkur góð ráð. Kaupa vönduð föt sem eru framleidd af framleiðendum sem hugsa um náttúruvernd við ræktun plantnanna og fatagerðina. Fólkið sem vann á akrinum, óf, og að lokum saumaði fötin fái mannsæmandi laun fyrir vinnuna sína og geti átt heimili og menntað börnin sín. Mikilvægast er að velja vel og nota fötin sem eru keypt.

Umhverfismál, Guðrún Anna Finnbogadóttir, kolefnisspor, Haukur Sigurðsson, úr vör, vefrit
Blábankinn á Þingeyri hugar að kolefnissporum og ræktar innanhúss. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

Ég er slök fyrirmynd í neyslumálum og á minningar um það þegar líf mitt var hreinlega í rúst á unglingsárunum þegar allir fengu Millet úlpu nema ég, þar sem móðir mín í sakleysi sínu hafði keypt "fína skólaúlpu" fyrir mig. FÍNA SKÓLAÚLPU!! Hver getur notað slíkan varning, ég bara spyr?

Í Danaveldi var mikið frelsi falið í því að ekki voru þessu hröðu skipti á tískustraumum og hægt að senda börnin í skóla í hentugum fötum með hvaða vörumerki sem var án þess að það truflaði nokkurn mann.

Fullorðnir notuð fötin þar til þau voru orðin slitin eða að vaxtarlag hafði breyst með þeim hætti að ekki var lengur við unað að þrýsta kroppnum í þau. Það var ákveðin frelsun að vera námsmaður í Danmörku og nýta það sem til var eins lengi og hægt var.
Umhverfismál, Guðrún Anna Finnbogadóttir, náttúra, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Gómsæt krækiber, tilvalin í hvert nestisbox. Ljósmynd Julie Gasiglia

Fresli fyrir hverju? Frelsi fyrir eigin hugsunum, fordómum eða samfélagsímynd? Samfélagsímynd mín er mér mjög óljós, þetta bara seyttlar inn úr umhverfinu, frá samferðafólkinu og stöðugum auglýsingum og tískuþáttum sem uppfylla einhverja gleði fyrir sálina sem ég get ekki skilgreint þó ég vilji vera yfir þetta allt hafin. Staðreyndin er að ég krauma með í samfélagspottinum eins og ofsoðið grænmeti og enginn getur séð hver er hvað í þessum potti.


Og að nestismálum, húsfrúin er komin í umhverfisgírinn og smyr nesti fyrir fjölskylduna áður en lagt er af stað út á þjóðveginn. Smurt með kærleika að sjálfsögðu og sett í bréfpoka því tími plastpokanna er liðinni. Plastið er að valda okkur miklum vandræðum og allt umbúðafarganið sem er að drekkja okkur á þessari jörð.

Lagt er af stað og nestið sett á gólfið hjá húsfrúnni svo hægt sé að miðla því á leiðinni ef upp kæmi skyndilegt hungur eins og oft vill verða í stórum fjölskyldum. Á miðri leið finnst áningastaður sem er vel til þess fallinn að snæða nestið og húsfrúin kippir í pokann, sem hafði sogað í sig raka af gólfinu og allt innihaldið valt út um allt.
Boomerang Bags, umhverfismál, Guðrún Anna Finnbogadóttir, náttúra, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Víða um land hafa verið saumaðir taupokar úr notuðu efni, um er að ræða samstarfsverkefni með alþjóðlegu samtökunum Boomerang Bags. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Hér koma taupokarnir sterkir inn hvað allt varðar nema að þeir þola illa raka og bleytu. Í Vesturbyggð hefur hópur kvenna setið við saumavélarnar og saumað taupoka í búðirnar af miklum móð og sá árangur hefur náðst að þegar ég gleymi taupokanum heima hellist yfir mig samviskubit og ég lít flóttalega í kringum mig í búðinni og gái hvort ekki séu enn taupokar á henginu fyrir almenning. Ef ekki roðna ég upp í hársrætur halla mér að afgreiðslumanninum og hvísla, "ég ætla að fá einn poka".

Það er ótrúlega skammarlegt að geta ekki munað eftir taupoka þegar ég fer í búð hvað skyldi fólkið hugsa? Enn og aftur er það eigin hégómi sem rekur mig áfram, þegar hugsunin ætti að vera „enn eitt umhverfisslysið sem ég er að valda með því að auka eftirspurn eftir pokum í heiminum“.


Það er vandrataður stígurinn að gera allt eins og tískustraumarnir bjóða en mikilvægt að vera meðvitaður og finna umhverfisvænar lausnir án þess að vera keyrður áfram af ímynd sem er í raun kapítalísk og hvetur til enn meiri neyslu bara nú á „umhverfisvænum“ varningi.


Umhverfismál, Guðrún Anna Finnbogadóttir, náttúra, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Fátt er fallegra en ósnortin náttúra og erum Ísland ríkt af henni. Ljósmynd Julie Gasiglia

Í stuttu máli er það sem ég vildi segja með þessu öllu saman að allt er best í hófi og göngum hægt um gleðinnar dyr á gnægtarborði jarðar grænmetissúpan þarf ekki að vera alveg mauksoðin við megum gjarnan skera okkur úr hópnum.

bottom of page