top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hugleiðing um menningu

Updated: Apr 3, 2019


Það eru mikil tíðindi að nú er að hefja göngu sína nýtt vefrit um menningu, listir, nýsköpun og frumkvöðlastarf, veftímaritið „Úr vör“ sem mun helga sig þessum málaflokkum á landsbyggðinni en hafa bækistöðvar á Patreksfirði.

Hversu mikilvægt er að hafa öflugt menningarlíf og hvað felst í því. Menning er í raun allt það sem maðurinn gerir eða eins og stendur í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs menning er „þroski mannlegra (andlegra) eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf, sameiginlegur arfur“. Í þorpum landsins býr fólk sem hefur ólíkan bakgrunn en skapar sína menningu og sinn sameiginlega arf og það getur verið mikill menningarmunur milli þorpanna.


Tónlist er magnað listform. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Menningin gefur okkur mikið og hvað er dásamlegra en að opna góða bók og skyndilega ertu komin í torfbæ inní dal í afskektri sveit og finnur ylinn frá eldinum sem kyndir bæinn og finnur lyktina af ullargarninu sem heimilisfólkið er að prjóna úr í baðstofunni. Kvöldið eftir ertu komin til miðausturlanda, í nýrri bók, þar sem hitinn er lamandi og þú finnur hættuna sem stafar af ljónum eða snákum. Bækur eru óþrjótandi brunnur upplifana sem hver og einn upplifir á sinn einstaka hátt byggðan á eigin reynslu sem þó stundum er að miklu leyti byggður á lestri bóka.

Sjálf er ég til dæmis ansi vel að mér í lífi enskra hefðarmeyja og hvernig kjóla þær dreymir helst um að eignast fyrir skemmtanatímabilið svo ekki sé talað um alla myndarlegu hertogana sem spígspora um hverja bókina á fætur annari.

Hughrifin sem bækur geta valdið og skemmtilegar fléttur tungumálsins veita okkur lífsfyllingu. Þetta blandas svo allt okkar hversdagslegu lífsbaráttu.


Bækur eru óþrjótandi brunnur upplifanna. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Þá er ónefnt enn magnaðra listform sem er tónlistin. Það er fátt sem getur endurlífgað tilfinningar, tímabil og upplifanir í lífinu eins og tónlist. Lög gera minningar ljóslifandi og skyndilega er hugurinn kominn á fullt og er algerlega á nýjum stað og stund. Að hlusta á góða tónlist getur verið dásamlegt tímaflakk.


Ég gerði eitt sinn óvísindalega könnun og það er alveg magnað að geta greint aldur fólks á tónlistinni.

Það er aðeins ákveðinn tiltekinn aldurshópur sem getur engan vegin hamið sig á dansgólfinu þegar „Wake me up before you go-go“ með Wham er sett á fóninn eða segjum „Summer holliday“ með Cliff Richard þegar líkaminn fer allur á ið og minningar unglingsáranna hellast yfir er erfitt að þykjast vera mikið yngri en raunin er.


Menningarlífið á landsbyggðinni er mjög öflugt og allstaðar eru listamenn sem efla það og bæta. Bæði rótgrónir heimamenn, þeir sem fóru og komu svo aftur búnir að mennta sig í sinni list og svo allir þeir sem hreinlega laðast að þessum lífsstíl landsbyggðarinnar að hafa meiri tíma til að sinna mannræktinni og stunda sitt listform í ró og næði.

Þetta í ró og næði á reyndar ekki við rök að styðjast því það eru allir svo mikilvægir í mannlífinu á landsbyggðinni að alltaf er nóg að gera. Menningin getur verið allt frá rabbi yfir kaffibolla upp í stórkostlega listviðburði sem fólk tekur sig til og hristir fram úr erminni. Þessi nýji vettvangur sem nú er að leggja úr vör er kærkomin viðbót í flóru skoðanaskipta og miðlunar upplýsingum um menn og málefni.

Nýjar upplifanir vekja okkur til umhugsunar. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Menning er allt um kring og tilvist okkar og samskipti eru grunnþátturinn í menningunni. Við leitum þó víða fanga og finnst fátt skemmtilegra en að hitta fólk frá öðrum menningarheimum sem speglar persónu okkar á nýjan hátt þannig að það sem við áður töldum að væri „ég, ég sjálf“ speglast ekki eins og í því samfélagi þar sem við höfum vaxið og dafnað. Nýjar upplifanir vekja okkur til umhugsunar og þroskar okkur á nýjan hátt að þurfa að leita að nýju spegilmyndinni af mér, mér sjálfri. Það er þessi ögrun sem gerir menningu og listir svo spennandi og lífið kemur alltaf á óvart og við þurfum sífelt að fínstilla sjálfið út frá mannlífsspeglunum í gegnum allt lífið.

Menning teygir því anga sína víða og nær til allra kima mannlífsins í sveitum, þorpum og bæjum landsins. Frumkvæði og kraftur er það sem til þarf til að menningarlífið blómstri og þessi nýji miðill er því góð viðbót til að miðla menningarlífinu á landsbyggðinni en eins og H.C. Andersen sagði eitt sinn „það er ekki nóg bara að lifa, við þurfum öll sólskin, frelsi og svolítið af blómum.“


Comments


bottom of page