top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Mjög bjartsýn á framhaldið“


Freyja Magnúsdóttir, Tungusilungur, Tálknafjörður, úr vör, vefrit
Freyja Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Tungusilungs. Ljósmynd Tungusilungur

Tungusilungur er fjölskyldufyrirtæki sem selur elur bleikju og regnbogasilung í Tálknafirði. Fyrirtækið selur vöru sína, reyktan og grafinn silung, að megninu til á erlendan markað. Mest megnis er um bleikju að ræða, en þó framleiða þau svokallað regnbogasilungs paté sem samkvæmt Freyju Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Tungusilungs, er eina framleiðslan á landinu af þeirri vöru. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til Freyju á dögunum og fékk að heyra um sögu fyrirtækisins og hvers eðlis starfsemin er.


Freyja segir að Tungusilungur sé búinn að vera til sem fyrirtæki síðan árið 2002 en að faðir hennar hafi byrað með fiskeldi árið 1985. „Hann var þá með lax og síðan regnbogasilung en við færðum okkur út í bleikju síðar.

Allt fiskeldið hjá okkur er á landi. Við fáum hrogn og seiði frá Hólaskóla, og erum með háskólamenntaða bleikju eins og við segjum. Framleiðslan er rúmlega 100 tonn á ári af flökum. Svo erum við með í kringum 15 tonn af regnbogasilung, hann fer bara á innanlandsmarkað. Bleikjan er að mestu leyti útflutningur og erum við stórir framleiðendur af bleikju á landinu.“ segir Freyja.
Tungusilungur, Tálknafjörður, fiskeldi, úr vör, vefrit
Alþjóðlegur bragur er á fyrirtækinu og vinna alls tíu manns þar. Ljósmynd Tungusilungur

Faðir hennar, Magnús Guðmundsson, hóf starfsemina líkt og Freyja segir og hófu dætur hans að taka þátt í starfseminni í kringum aldamótin. Að sögn Freyju hefur umfangið verið smám saman að stækka og eru starfsmenn orðnir sjö talsins í vinnslunni og er alþjóðlegur bragur á fyrirtækinu.

„Það eru fjórar konur sem eru inni að flaka, snyrta og pakka, fjórar íslenskar, tvær frá Kína og ein frá Kenía. Við vinnum frá klukkan 8:00 á morgnana til hádegis og þá er vinnslunni lokið yfir daginn. Svo eru þrír í fullri vinnu úti, við eldi og annað, tveir íslenskir karlmenn og einn frá Tékklandi.“ segir Freyja.

Samkvæmt Freyju hafa þau ekki verið mikið að kynna vörurnar sínar, þetta hafi meira spurst út. Þau selja vörurnar sínar í Melabúðinni, Fjarðakaup og Kolaportinu og eru með þær líka í nokkrum Nettó búðum á suðursvæðinu. Þau hafa ekki hingað til selt vörurnar fyrir norðan eða austan land en eru svo eins og gefur að skilja með sölu á Vestfjörðum. Hún segir að yfir sumartímann, þegar ferðafólkið komi vestur, þá taki veitingastaðir eftir því að staðbundnar vörur séu meira teknar.

Tálknafjörður, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Fyrirtækið er með aðsetur í Tálknafirði. Ljósmynd Julie Gasiglia.

„Við erum að læra inn á að vera með kynningar. Hingað til höfum við bara mætt á staðinn og tekið úr kössum og gefið fólki að smakka, höfum ekki verið með mikla markaðssetningu. En synir mínir tveir sem eru mest í þessu, þeir eru að koma inn með Facebook síðu, eitthvað sem ég hef ekki verið að sinna og þá fáum við pantanir allstaðar að, sem er mjög skemmtilegt.“ segir Freyja.

Freyja segir að samfélagsleg áhrif fyrirtækisins séu talsverð. Það að tíu manns vinni hjá þeim á ekki stærri stað en Tálknafjörður skiptir þetta verulega miklu máli að hennar sögn. „Svo höfum við verið með unglinga í vinnu hjá okkur á sumrin. Það er ekki mikið í boði fyrir þessa krakka, það er bara bæjarvinnan eða ekkert annað. En við getum boðið svona þremur til fjórum á hverju sumri að komast í fiskvinnslu.“

Tungusilungur, Tálknafjörður, fiskeldi, úr vör, vefrit
Allt hráefni er unnið á staðnum hjá fyrirtækinu. Ljósmynd Tungusilungur.

Að sögn Freyju hefur hún ekki sett sig mikið inn í umræðuna um fiskeldi á svæðinu að undanförnu. Hún segist eiga nóg með sig og sitt en viðurkennir að hún heyri allskyns sögur sem ýmislegt sé hægt að lesa úr. Hún segist þó vonast til þess að fólk sem vinnur í þessum geira viti hvað það er að gera.

„Við fáum mikið af spurningum og fólk heldur að við séum í sama pakka og þessi stóru eldisfyrirtæki. Við erum mjög lítið fyrirtæki miðað við Arctic Fish og Arnarlax og þetta er allt annað batterí. Bæði hvað varðar við erum ekki með starfsemina út í sjó og líka varðandi smæðina á fyrirtækinu. En það skiptir miklu máli að fiskeldi gangi, bara fyrir svæðið.

„Ég veit ekki hvort hin fyrirtækin eru að selja ferskar vörur á innanlandsmarkað en að megninu til er þetta sent heilt út og unnið þar. Ef við værum að gera það sama þá værum við ekki að vinna nema í mesta lagi þrjú hér, þannig að þetta er allt annað. Hjá okkur vinnum við allt hráefnið á staðnum, þá er komin fullunnin vara sem er tilbúin á markað.“ segir Freyja.

Tálknafjörður, Julie Gasiglia, úr vör vefrit
Það er fagurt í Tálknafirði. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Faðir Freyju var skipstjóri alla sína tíð og var kominn yfir fimmtugt og fannst þetta tækifæri til að vinna við fisk og vera meira heima að hennar sögn. Hún segir að fyrirtæki hans hafi orðið gjaldþrota með laxeldið og fór hann þá af stað með regnboga í minna mæli til að láta reykja og þá bara á innanlandsmarkað. „Hann fór svo að taka bleikjuna inn og var að senda vörur frá sér einu sinni í viku. Þá var hann bara einn og við tvær systurnar með honum einu sinni í viku.

Svo rúllaði þetta áfram og hefur verið að stækka ár frá ári. Ég hef mikla trú á að þetta eigi eftir að dafna. Við rekum okkur reglulega á ýmsa þröskulda og við höfum komist yfir þá og nú er yngra fólk að taka við. Við viljum stækka eldisstöðina og koma starfseminni undir þak, en það gerist ekki einn tveir og þrír með lítið fjölskyldufyrirtæki. Ég er að verða sextug og verð ekkert lengi hér en það er kraftur í unga fólkinu sem er komið inn og er ég því mjög bjartsýn á framhaldið.“ segir Freyja að lokum.Comments


bottom of page