Málþing um verkefnið Tungumálatöfra og framtíð þess verður haldið á Hrafnseyri laugardaginn 8. júní næstkomandi. Málþingið er styrkt af prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar og er haldið í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Fjölmenningarsetur. Tungumálatöfrar, sem haldið verður dagana 5. til 11. ágúst í sumar, er haldið með stuðningi Ísafjarðarbæjar, Uppbyggingarsjóðs og Barnamenningarsjóðs.
Efniviður málþingsins er máltaka barna, glötun tungumáls og mikilvægi þess að eiga sameiginlegt tungumál.
Kynntar verða þær kennsluaðferðir sem beitt er á Tungumálatöfrum og skoðuð tengsl við önnur verkefni sem snúa að íslenskukennslu fyrir fjöltyngd börn og unglinga. Þá verður skoðað mikilvægi námskeiða sem þessa þegar kemur að aðlögun innflytjenda með tilliti til aukins lýðræðis- og menningarlæsis.
Eliza Reid, forsetafrú Íslands, opnar málþingið og síðan taka til máls leiknir og lærðir á sviði fjölmenningar og fjöltyngis.
Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Vaidu Bražiūnaitė sem er verkefnastjóri námskeiðsins og skipuleggjandi málstofunnar. Samkvæmt Vaidu hafa Tungumálatöfrar verið haldnir árlega frá árinu 2017. Hún segir að sérstök áhersla sé lögð á íslensk börn sem að hafa fæðst eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna sem sest hafa að hér á landi. Kennsluaðferðir á námskeiðinu hafa virkað vel samkvæmt Vaidu og vakið athygli.
Lögð er áhersla á að örva og hvetja börnin í gegnum leik og listir og nota tungumál og tjáningu samhliða. Í kennarahópnum eru myndlistarmenn, tónlistarmenn og leikarar sem þróa kennsluaðferðirnar saman á hverju ári og taka mið af þeim einstaklingum sem eru á námskeiðinu hverju sinni.
Námskeiðið er ætlað 5 – 11 ára börnum með það að markmiði að efla íslensku kunnáttu þeirra. Kennarar leiða börnin í gegnum æfingar sem sem efla málvitund þeirra og styrkja sjálfsmynd þeirra. Vaida segir að markmið námskeiðsins sé tvíþætt. Annarsvegar að innflytjendur sem búa á Íslandi geti styrkt stöðu sína og verið hluti af samfélaginu með góðri samþáttun og menningarlæsi. Og hinsvegar að börn íslenskra innflytjenda í útlöndum eigi aðgang að skipulagðri tungumálaörvun sem styrkir íslenskugetu þeirra og um leið valmöguleika þeirra ef þau kjósa að búa á Íslandi í framtíðinni.
Vaida segir að það sé mikilvægt að rækta skilning í gegnum tungumálið. Um leið verður til mikilvægt samtal um hvað innflytjendur eiga sameiginlegt, bæði íslenskir innflytendur í útlöndum og útlenskir innflytjendur á Íslandi. „Það er gaman að segja frá því að í ár tala krakkar sem eru búin að skrá sig á námskeiðiðtala átta mismunandi tungumál. Það væri gaman að sjá námskeiðið víðar um landið.
„Sem innflytjandi og tveggja barna móðir veit ég að þetta er mikilvægt. Mér finnst mikilvægt að börnin mín geti sagt með stolti að þau eru bæði frá Litháen og Íslandi, en þau tala bæði tungumálin vel, eins og móðurmál. Svo finnst mér líka gaman að sjá þegar þjóðfélagshópar blandast,” segir Vaida.
Að sögn Vaidu var það áskorun að stýra verkefninu í ár og að skipuleggja málþingið. „Það er erfitt fyrir mig að skipuleggja þetta allt á íslensku og taka viðtöl á íslensku, þetta er mjög stórt skref fyrir mig. Anna Hildur Hildibrandsdottir formaður og Matthildur Helgadóttir Jónudóttir fjármálastjóri verkefnisins stýra þessu og treysta mér í því hlutverki að vera verkefnastjóri. Ég óttaðist þetta fyrst, það tekur langan tíma fyrir mig að skrifa póst t.d., tekur tíu sinnum lengri tíma en fyrir Íslendinga, en þetta gengur allt samt að lokum og er góð íslenskuþjálfun fyrir mig!“ segir Vaida.
Vaida segir að lokadagur Tungumálatöfra sé alltaf skemmtilegur. Þá er svokölluð Töfraganga sem endar með bæjarhátíð í Suðurtanga þar sem bæjarbúar af ólíkum uppruna standa fyrir fjölskylduskemmtun með leikjum, sögum, myndlist og matarupplifun. Þessi skemmtun er opin öllum og eiga unglingar í Ísafjarðarbæ frumkvæði að bjóða upp á henna tattú, andlitsmálun, fuglafit og alls kyns leiki sem þau stýra með og fyrir börnin sem taka þátt í skemmtuninni.
Samkvæmt Vaidu er viðburðurinn gott dæmi um það hversu valdeflandi svona verkefni getur verið. Blöndun samfélagshópa heppnast vel ef allir fá hlutverk í undirbúningi og framkvæmd og finna tilgang.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentários