Trú von og kærleikur, þegar við heyrum þessi orð saman setjum við okkur í mjög hátíðlegar stellingar og verðum hástemmd. Hinsvegar eru þessi orð mjög innihaldsrík og eiga við okkar daglega líf og endurspegla helstu þætti hversdagsins.
Á Íslandi er spurt „ertu trúaður?“ Það þýðir í raun trúir þú mikið og iðkar þú kristna trú en ekki hvort þú sért einhverrar trúar. Allir sem hafa einhverja trú eru trúaðir og sumir trúa mikið og aðrir minna.
Ef þú svo svarar að þú trúir þá er umræðunum lokið því það er alls ekki viðeigandi að fara nánar inn í umræður um trú og í raun álíka vandræðalegt mál og ef spurt væri um kynlíf fólks.
Í nútímasamfélagi ætti spurningin að vera „hverrar trúar ert þú? Í kjölfarið kæmi svo svar um hverrar trúar viðkomandi væri og í fjölþjóðlegu samfélagi er þetta í raun mjög sjálfsögð spurning. En afhverju þessar vangaveltur um trú? Það er auðvitað trú sem hefur bætt öll samfélög heimsins með því að setja ákveðnar leikreglur um samskipti manna sem allir í samfélaginu læra og fylgja. Það er sama hvaða trúarbrögð eru skoðuð þau ganga út á að bæta fólk og hjálpa því að takast á við lífið með öllum þeim krókaleiðum sem lífshlaupið getur boðið upp á.
Í flestum samfélögum er ein ríkjandi trú og þeir sem tilheyra henni líta önnur trúarbrögð hornauga en hugsa minna út í að ef þeir hefðu fæðst í öðru samfélagi hefðu þeir ekki haft aðgengi að öðrum trúarbrögðum en þeim sem þar eru stunduð. Það er mikilvægt að hafa í huga að helsta markmið allra trúarbragða er að bæta okkur og hjálpa við að takast á við lífið.
Dæmisögurnar í öllum trúarbrögðum eru keimlíkar þegar vel er að gáð en það er ef til vill kominn tími til að poppa þær aðeins upp svo að við tengjum betur við þær og jafnvel í alþjóðavæðingu heimsins kominn tími á ein trúarbrögð fyrir alla.
Allstaðar í heiminum bera foreldrar þá von í brjósti að börnin þeirra verði hamingjusöm og eigi gott líf. Í flestum tilfellum miða foreldrar við sínar aðstæður og vilja eitthvað aðeins betra fyrir börnin sín svo væntingarnar eru yfirleitt miðaðar við að allt verði aðeins betra fyrir næstu kynslóð. Tíðarandinn ræður líka miklu um hver skilgreiningin á betra lífi er og því er það áleitin spurning fyrir okkur í allsnægtasamfélaginu Íslandi hver von okkar er fyrir næstu kynslóðir?
Þegar við höldum á litlu barni getum við leyft okkur að láta hugann reika og sjá fyrir okkur bjarta framtíð þessa nýja einstaklings.
Fljótlega koma svo karaktereinkenni barnsins fram og framtíðarbrautin fer að mótast. Það er svo undir foreldrunum og samfélaginu komið að gefa börnunum von um að verða það sem þau dreymir um.
Kærleikur er hugtak sem við förum sparlega með en viljum öll verða fyrir í miklum mæli og njóta við öll tækifæri. Ást er meira en kærleikur og vináttan rúmast innan kærleikans, hver er þá munurinn á kærleika og væntumþykju? Hvernig skilgreinum við kærleikann, berum við aðeins kærleika til nánustu fjölskyldu, eða allra ættingja, vina, vinnufélaga, nágranna, samborgara eða getum við borið kærleika til allra í heiminum?
Þá vaknar spurningin hvort kærleikurinn sé takmörkuð auðlind sem við verðum að skipta bróðurlega á milli okkar eða er kærleikurinn óþrjótandi auðlind sem við getum borið til allrar heimsbyggðarinnar? Þegar við fylgjumst með heimsfréttunum og hörmungum víða um heiminn gæti hvarflað að okkur að kærleikurinn væri takmörkuð auðlind.
En ef við horfum fram hjá fréttunum og sjáum fólkið á bak við þær sem leggur allt á sig til að vernda börnin sín alveg sama hverjar aðstæðurnar eru og halda alltaf í vonina um að hlutirnir muni lagast, þá er ljóst að heimurinn er fullur af kærleika.
Það dýrmætasta sem við gefum afkomendum okkar er trú á sig og framtíðina, von um gott líf og kærleika sem grunn til að byggja á þegar haldið er út í lífið. Allir einstaklingar heimsins eru jafn mikilvægir, trú hjálpar þeim að finna réttu leiðina , vonin tendrar baráttuandann og kærleikurinn gerir allt betra. Það er því vel við hæfi að nota þessi fallegu orð hversdags.
Texti: Guðrún Anna Finnbogadóttir
Commentaires