top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Tólf mánuðir í dúkristum


Hjónin Sébastien Biet og Claire-Marie Thiry búa alla jafna í lítilli smábæjaþyrpingu í Belgíu. Claire-Marie er verkefnastjóri hjá frjálsum félagasamtökum og Sébastien, eða Séba eins og hann er stundum kallaður, starfar sem grafískur hönnuður einnig hjá félagasamtökum.


Strákarnir þeirra Zephire og Hélie eru 7 og 5 ára, kraftmiklir strákar sem elska að hjóla, segja sögur, fara í ævintýraleiki og leika við vini sína. Húsið sem þau búa í keyptu þau fyrir 12 árum síðan. Þá ung og barnlaus gerðu þau húsið upp og björguðu frá niðurníðslu. Nú hýsir þetta reisulega hús fjölskylduna ásamt nokkrum dýrum; hænum, kanínum og hundum. Einn daginn hugsa þau með sér að þau langi til að prófa eitthvað annað. Ævintýri. Eitthvað sem er ekki þriggja vikna ferð á sólarströnd, heldur eitthvað sem er öðruvísi og varir lengur, bæði í tíma og í minningum.


Tengingar

Óvenjulegir fundarstaðir í okkar augum. Sundlaugin meira en laug, spjall í heitapottinum er nauðsynlegur partur af félagslífinu. Öll kirkjan er að syngja, kóræfingar er önnur leið til að tengja okkur við takt samfélagsins og hefðir þess.


Og þá er einmitt auglýst eftir fjölskyldu. Litla belgíska fjölskyldan ákveður að taka sér árs leyfi frá störfum, gerir ráðstafanir og pakkar í bílinn. Brauðvélin góða fylgir með. Eitt brauð á dag kemur skapinu í lag. Sumum venjum er óþarfi að raska. Svo keyra þau af stað til Þingeyrar.

Þingeyri, úr vör, vefrit
Hjónin Sébastien Biet og Claire-Marie Thiry ásamt börnum sínum

Titill sýningarinnar er Eitt ár í 12 engravings. Tólf mánuðir markaðir með tólf ristum. Dúkristur jafnt sem minningar greyptar í huga. Titillinn sjálfur orðaleikur sem hefur táknrænt gildi í sjálfu sér. Sérhvert verkanna stendur fyrir ólíka þætti samfélagsins sem vakið hafa athygli gestsaugans. Samband og samskipti, tengingar, náttúran og frjálsræðið. Allt fær sinn sess og er sett fram á myndrænan hátt, hvert og eitt í gegnum einn lítinn ramma og ljóð sem hnitar í kringum tilfinningar og upplifanir. Sébastien er listamaðurinn á bak við dúkristurnar, Claire-Marie á ljóðræna textann, en upplifunin er þeirra allra. Listasýningin er bæjarbúum bæði óvænt og einlæg.


Á Þingeyri hafa þau látið til sín taka. Drengirnir hafa eignast vini í skólanum og leikskólanum. Nú ræða þeir við bæjarbúa á íslensku. Hjónin eru ekki aðeins sjálfboðaliðar hjá fyrirtæki í bænum heldur hafa þau lagt sig fram um að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Sébastien hefur boðið uppá námskeið í grafískri hönnun fyrir byrjendur og Claire-Marie syngur með kirkjukórnum. Á Harmonikkudaginn voru þau með þeim allra fyrstu sem fóru út á dansgólfið og stigu dans. Dvöl þeirra í bænum hefur snert við mörgum.


Augliti til auglitis

Bíddu þar til landslagið birtist okkur. Mikilfenglegir tindar, einstakir í þessum hluta fjarðanna, sökkva niður í hafið undir gríðarstórum himni. Fyrsti snjórinn, brothættur þar til fram undir miðjan vetur, gerir landslagið síbreytilegt. Vottar að því sem ekki er fortíð, þurrkhjallar standa nú til móts við laxeldisstöðvar. Þessi miklu fljótandi búr með vistfræðileg áhrif sem vekja spurningar tryggja íbúum þorpsins vinnu. Hefð og nútími augliti til auglitis á hjara veraldar.


Ársdvöl fjölskyldunnar er senn að ljúka. Bíllinn að verða tilbúinn fyrir flutninginn til baka. Norræna bíður. Bæjarbúar kveðja og vita að þessi kynni hafa verið markverð. Margir óska eftir endurfundi, aðrir vita að endurfundir munu raungerast. En fleiri vita að allt getur gerst, sérstaklega þegar haldið er af stað í ævintýri.

Sébastien Biet



Comments


bottom of page