top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Þurfum við ekki frystikistu?“


Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Þingeyri, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Undir lok árs var byrjað að minnast á frystikistu.“ Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir

„Frystikistu! Af hverju ætlarðu að skrifa um frystikistu, er nokkuð hægt að segja um þær?“


Nú, ég skal segja þér það. Einu sinni þegar ég bjó í Reykjavík áttum við ekki bíl en bjuggum í göngufæri við matvörubúð. Þegar ég fór í búðina verslaði ég um það bil það magn sem komst fyrir í tveimur matvörupokum og þægilegt var að bera heim. „Þú ert alltaf í búðinni“ sagði vinkona mín oft við mig og það var rétt. Ég var alltaf í búðinni. Enda þegar maður býr í göngufæri er óþarfi að versla mikið og auðvelt að skreppa eftir einhverju. Á þessum tímapunkti áttum við ekki frystikistu heldur tvöfaldan ísskáp með tveimur frystihólfum sem var prýðilegt geymslupláss.

 

Þegar við fluttum á Þingeyri var ljóst að kaupmynstrið þyrfti að breytast, enda 50 km í næsta stórmarkað.

Í aðdraganda flutninganna hugsaði ég oft „þurfum við ekki frystikistu?“ en svo þegar á hólminn var komið og ég stóð frammi fyrir einni slíkri í raftækjaverslun og horfði á flúorljósin glampa iðnaðarlega á lakkinu, fannst mér hún svo stór og framandi að ég efaðist. Ég ákvað að frystihólfin á tvískipta ísskápnum skyldu bara duga.

Fyrsta árið gekk ágætlega í frystimálunum. Gott skipulag í frystinum er fyrir öllu, vera duglegur að nýta úr honum og raða. Raða betur, nýta og endurraða. Stöku sinnum lentum við í vandræðum líkt og þessum: „Ó, komstu með ís í eftirrétt! Leyfðu mér aðeins að hagræða hérna í frystinum…“ En heilt yfir gekk bara vel og frystirinn var í góðum takti við heimilislífið. Sko, við þurftum ekkert frystikistu.

Arnhildur Lilý Karlsdótir, Þingeyri, Vestfirðir, landsbyggðin, pistill, úr vör, vefrit
„Þegar við fluttum á Þingeyri var ljóst að kaupmynstrið þyrfti að breytast, enda 50 km í næsta stórmarkað.“ Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Svo kom annað árið. Í frystinum var framan af ágætis „rennerí“. Já, það þarf bara að vera duglegur að nota úr frystinum og auðvitað hafa ágæta yfirsýn yfir hvað er til. Við fjölskyldan erum svo lánsöm að vera umkringd góðu fólki sem stundum gaukar að okkur góðmeti í frystinn, svo þegar líða tók á árið fór ástand frystisins sífellt að verða verra, erfiðara varð að koma hlutum fyrir og ef vinir komu með ís var hann bara geymdur úti. Undir lok árs var byrjað að minnast á frystikistu. 

Svo kom þriðja árið. Það var árið sem við ákváðum að gera eins og flestir ef ekki allir aðrir í sveitinni og kaupa skrokk í haustslátruninni. Skynsamlegt og skemmtilegt. Hvernig það atvikaðist að við enduðum með að kaupa fimm skrokka er önnur saga, en þá var orðið ljóst að það var aðeins eitt sem vantaði til að sagan gæti endað vel. Skemmst er frá því að segja að nú erum við stoltir eigendur frystiskáps.

Fyrsti frístandandi frystiskápurinn sem við eignumst. Hann í meðalstærð og með mörgum skúffum, sem við erum reyndar strax næstum búin að fylla. 

Arnhildur Lilý Karlsdóttir, pistill, Þingeyri, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Hvernig það atvikaðist að við enduðum með að kaupa fimm skrokka er önnur saga“ Ljósmynd Arnhildur Lilý Karlsdóttir

Frystir er þarfaþing. Raftæki sem varðveitir matvæli í djúpkældu ástandi. Passar að við verðum ekki svöng og veitir öryggiskennd og vellíðan. Grænlensk kunningjakona mín sagði mér í sumar þegar við ræddum saman að „ef grænlendingar eiga auka mat gefa þeir með sér, en ef íslendingar eiga auka mat kaupa þeir sér aðra frystikistu“. 


Ég held að þetta sé satt.Comments


bottom of page