Árið 2012 hófst tilraunaverkefni á Raufarhöfn að frumkvæði Byggðastofnunar, með það í huga að leita lausna á bráðum vanda vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undangenginna ára. Verkefnið hlaut heitið „Brothættar byggðir“. Fjárveiting fékkst til verkefnisins árið eftir og var þá byggðarlögum fjölgað í fjögur og náði verkefnið þar með til Bíldudals, Breiðdalshrepps og Skaftárhrepps, auk Raufarhafnar. Með aukinni fjárveitingu og nýju skipulagi verkefnisins var ákveðið að bæta við þremur byggðarlögum árið 2015, en það eru: Öxarfjarðarhérað (Kópasker og nærsveitir), Hrísey og Grímsey. Árið 2017 bættist Árneshreppur í hópinn og Borgarfjörður eystri og Þingeyri árið 2018. Verkefnið nær því til átta byggðarlaga eins og er, en verkefninu á Bíldudal og Raufarhöfn er lokið.
ÚR VÖR heyrði í Agnesi Arnardóttir verkefnisstjóra Brothættra byggða á Þingeyri, en verkefnið þar fékk yfirskriftina „Öll vötn til Dýrafjarðar“. Samkvæmt Agnesi hófst verkefnið á Þingeyri með íbúafundi í mars mánuði fyrir ári síðan. Verkefnið nær yfir þrjú ár, með möguleika á fjórða árinu. Verkefninu fylgir fjármagn, það eru sjö milljónir í pottinum og hægt er að úthluta styrkja til verkefna sem styrkja samfélagið og byggðalagið.
Þann 12. mars síðastliðinn var fyrsta úthlutun styrkja á Þingeyri og bárust metfjöldi umsókna til verkefnisins, eða 39 talsins. Metið fyrir þann tíma varðandi verkefni fyrir Brothættar byggðir var 18 umsóknir, þannig að um er að ræða meira en tvöföldun á fyrra meti.
Að sögn Agnesar voru línurnar lagðar á íbúafundinum og mesta áherslan var á aukin atvinnutækifæri. „Ég kom til starfa 1. september síðastliðinn sem verkefnisstjóri og útbjó greiningu á stöðunni og markmiðssetningu. Það verk var klárað fyrir áramótin, og í kjölfarið boðað til nýs íbúaþings þar sem farið var í gegnum þessa markmiðasetningu. Aðgerðaáætlun var svo gerð um hvernig væri hægt að nálgast þau fjögur meginmarkmið sem urðu fyrir valinu. Auk þess voru ákveðnir ábyrgðaraðilar kosnir en íbúasamtök, Ísafjarðarbær og Blábankinn hafa komið að þessum verkefnum. Blábankinn var byrjaður á undan þessu og fólk var farið að sjá fyrir sér einhverskonar breytingar.“ segir Agnes. Hún segir að skiptar skoðanir séu á því hvernig nýju atvinnutækifærin eiga að líta út. Að hennar sögn kemur ferðamennskan sterk inn, svo þekkir fólk sjávarútveginn sem það hefur lifað á lengi, og við bætast störf án staðsetningar og störf tengd nýsköpun og tækni.
Aðspurð segir Agnes að ekki hafi verið gefið út nákvæm greining á árangri verkefnisins á landsvísu en að það verði gert fljótt. Hún segir að margt gott hafi komið fram tengt verkefninu á Raufarhöfn og að Skaftárhreppur sé að klára fljótlega. „Þar er talað um að verkefnastyrkir hafi veitt nýju blóði í samfélagið, svona má start hafi hjálpað fólki áfram. Skaftárhreppur er fjölsótt ferðamannaleið, tengist ferðaþjónustu og eru mörg tækifæri í þeim geira. En þau hafa líka lagt áherslu á þriggja fasa rafmagn og betri vegasamgöngur. Það er margt í farvatninu sem hægt er að rekja til þessa verkefnis.“ segir Agnes.
Agnes segir að sé leið sem íbúarnir geta nýtt sér og séu klárlega að gera það. Hún segir þennan sjóð vera minna skilyrtan en margur annar og að þetta snúist mikið um að setja hugmyndina niður á blað úr kollinum og gera þetta að raunhæfu markmiði. Auk þess sé lykilatriði að íbúarnir séu hafðir með í þessu því þegar verkefninu lýkur á það ekki að detta niður dautt heldur að lifa áfram.
„Það tekur svolitla stund að treysta þessu. Þessum bæjarfélögum hafa verið lofað gull og grænum skógum í gegnum tíðina og því vill fólk sjá aðeins hvernig þetta virkar áður en það hleypur af stað.“
„Mér heyrist á fólki að þetta verkefni eigi heima víðar en það gerir nú þegar. En það þarf að sækja um í verkefnið til Byggðastofnunnar og það eru skilyrði til að komast að í verkefninu, sveitarfélögin þurfa að sækja um þetta.“
Að mati Agnesar hefur verið talsvert óöryggi í kringum fiskeldið að undanförnu, sem sé orðin fyrirferðamikil atvinnugrein á svæðinu.
„En það sem hægt er að læra af því sem átt hefur sér stað að undanförnu varðandi fiskeldið er að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni. Það er sniðugra að vera með minni einingar og meiri fjölbreytni sem styrkir hvort annað, heldur en að vera með risa fyrirtæki.
Hún segir að góður gangur sé í verkefninu en leggur áherslu á að það sé ekkert kraftaverk að fara gerast, þetta sé eitthvað sem þurfi að vinna að og hugsa til lengri tíma. „Þetta er ekki spretthlaup heldur langhlaup.Við erum heppin hér á Þingeyri að það eru margir samfélagshugsandi einstaklingar, sem hafa mikla orku, eru drífandi og hafa verið að gera mjög góða hluti hér.“ segir Agnes að lokum.
Comments