top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Það er alltaf fyrsta skrefið

Updated: Mar 26, 2019


Frumkvöðull, athafnamaður, uppfinningamaður, vitleysingur, glæpamaður, dugnaðarforkur, kannist þið við gripinn? Það þarf að skilgreina þetta fólk sem fer út fyrir rammann, stígur út í einhverja óvissu og út úr örygginu, verður eigin herra, ekkert minna en það. Eða leggur af stað með metnaðarfullt menningarverkefni, vill breyta heiminum, bæta umhverfið eða jafnvel aðbúnað barna.


Og svo sannarlega eru ekki allar ferðir til fjár og þá eru orðin vitleysingur og glæpamaður tekin til kostanna, ef vel gengur má nýta frumkvöðulinn og dugnaðarforkinn. Frumkvöðullinn er mikils metinn, hann fetar nýja slóð og tiplar ekki í kjölfar annara en ef hann villist breytist hann stundum í vitleysing.

Bryndís Sigurðardóttir, frumkvöðull, Haukur Sigurðsson, úr vör, vefrit
Frumkvöðullinn er mikils metinn. Ljósmynd Haukur Sigurðsson.

Allar ferðir hefjast á fyrsta skrefinu og leiða má að því líkum að ef búið er að kortleggja leiðina og ákveða hvert förinni er heitið er líklegt að ferðin lukkist þokkalega en það er þó alls ekki öruggt. Á leiðinni geta verið ófærir hálsar, gönguskór bilað, lekir bátar, pólitískar hindranir, ofbeldi og áfangastaðurinn var kannski aldrei til.

Ný tækifæri geta dúkkað upp og orðið til breytinga á leiðinni og nýr áfangastaður ákveðinn, upphaflegi áfangastaðurinn reyndist kannski þegar allt kom til alls, ekkert spennandi. Óvissuferðir eru frábærar, til síns brúks, en ef byggja á upp haldbæra hugmynd, jafnvel arðbæra atvinnu er betra að undirbúa sig. Það er einmitt fyrsta skrefið, velja áfangastaðinn og bestu leiðina þangað.

Er hugmyndin góð? Það er gott að spyrja sig að því og fá álit annara á hugmyndinni, skapandi hugur er byrjunin en getur lokast inni ef ekki er tekist á við rýni. Stundum virðast þó engin vitræn rök fyrir því að hugmynd slær í gegn eða árangur næst, hvers vegna hefur til dæmis ekki gengið að markaðssetja sjálfvirka skóreimara en langar gervineglur eru á mörgum bæjum taldar eðlilegasti hlutur. Hugmynd þarf sinn stað og stund rétt eins sandurinn í Sahara og galdurinn er að hitta rétt og vera fylgin sér. Þetta er flókið, hlusta eftir rýni en hlusta ekki endilega, úrtöluraddir hafa nefnilega ekki alltaf rétt fyrir sér. Það er alls ekki víst þetta klikki.

Bryndís Sigurðardóttir, úr vör, vefrit, Haukur Sigurðsson
Þegar allt kemur til alls skiptir mestu máli að þora. Ljósmynd Haukur Sigurðsson.

Að skapa er lífsorka og hugur sem sífellt leitar nýrra leiða og „fattar uppá nýjum hlutum“ er fjársjóður samfélaga og ber að varðveita og virða sem slíkt. Þó mörgum henti að hafa allt í sömu skorðum og sjaldnast sé raunveruleg stemning fyrir breytingum þá er það frumkvöðullinn sem flytur okkur áfram, stundum með fífldirsku en alltaf með gleði og bjartsýni. En þegar allt kemur til alls skiptir mestu máli að þora.


Comments


bottom of page