top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Svarið er í náttúrunni“

Updated: Mar 26, 2019


Villimey, Tálknafjörður, úr vör, vefrit, nýsköpun
Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi Villimeyjar. Ljósmynd Villimey.

Frá árinu 2005 hefur Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi Villimeyjar, framleitt heilsuvörur úr íslenskum jurtum undir merkjum fyrirtækisins. Um er að ræða fjölskyldufyrirtæki frá Tálknafirði og taka fjórar dætur Aðalbjargar þátt í að handtýna jurtirnar og líma miða á pakkningarnar. Blaðamanni ÚR VÖR lék forvitni á að vita hvernig þetta byrjaði og hvernig gengur.


Vörurnar frá Villimey fóru sem fyrr segir fyrst á markað árið 2005 en áður var Aðalbjörg búin að vera að framleiða smyrsl og annað í 15 ár fyrir fjölskylduna. Hún segir að hlutirnir hafi þróast en í fyrstu átti þetta bara að vera fyrir þá nánustu. Eftirspurn varanna var orðin mikil því það spurðist fljótt út hversu góð virkni var í vörunum. Það fór svo að vörurnar fóru á markað árið 2005. „Um það leyti sem ég byrjaði var ég með mikla vöðvabólgu í öxlunum. Ég hafði keypt allar olíur og krem sem ég fann en fannst ekkert virka, en ég vildi ekki nota lyf. Ég fór að þróa þetta sjálf áfram, nota þær jurtir sem eru fyrir bólgum og verkjum og það hjálpaði mér mjög mikið og hefur gert alla tíð síðan þá. Svo þróaðist þetta bara út í það sem þurfti í hvert skipti.

Mig vantaði olíu eða krem á magann á mér þegar ég var ólétt, á fjórar stelpur og er ekki með eitt slit og það segir sitt. Svo vantaði mig krem til að bera á bleijusvæðið á þeim, því það er alltaf eitthvað rotvarnarefni í þannig vörum eða þá stíft að bera það á, og þannig kom Bossagaldurinn. Þannig að þetta var allt eftir þörfum okkar og svo fór eftirspurnin að aukast út fyrir stórfjölskylduna.“ segir Aðalbjörg.

Aðalbjörg segir að það hafi verið ákveðið með semingi að setja þetta á markað. Að hennar sögn hafi hún ekki ætlað að þora því, en svo hafi komið í ljós hvað þetta hjálpað fólki mikið og hjálpað fólki að hjálpa sér sjálft, sem hún segir að hafi verið lykilatriði. Hún segir að þetta hafi á stundum verið erfiður róður en hún hafi fengið reglulega símtöl frá ókunnugu fólki um vörurnar hafi hjálpað þeim og að það hafi gefið henni kraft til að halda áfram. „Fullt af fólki hefur sagt mér ótrúlegustu sögur. Það er gott að heyra þegar fólk hefur verið með hina og þessa kvilla sem ekkert hefur virkað á, en svo hefur svarið verið í náttúrunni.“ segir Aðalbjörg.



Villimey, Tálknafjörður, úr vör, vefrit, Julie Gasiglia
Jurtirnar eru týndar í Tálknafirði og Arnarfirði. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Samkvæmt Aðalbjörgu skiptir miklu máli að nota hreinar vörur því allt sem þú berð á þig fer inn í húðina og inn í blóðrásina. En allir mega bera á sig vörurnar frá Villimey, líka óléttar konur, þar sem þetta sé alveg náttúrulegt og hreint efni. „Við erum með lífrænt vottaðar vörur úr íslenskum jurtum, við sækjum kraftinn í jurtirnar. Þetta eru snyrtivörur og líka vörur við ýmsum kvillum. Eins og t.d. við vöðvabólgu og liðverkum, sárum, exem og sveppasýkingu. Svo erum við með andlitsolíu og varasalva og svo edik líka sem er til drykkjar, með hvönn og með birki. Hvönnin er ein hvað mest rannsakaða jurtin á Íslandi, hún styrkir ónæmiskerfið og er slímlosandi. Þannig að þetta er allt til heilsubótar.“ segir Aðalbjörg.


Að sögn Aðalbjargar notast Villimey við mismunandi jurtir, blóm eða rætur, plöntuhluta, blöð, njóla og ýmislegt. Hún segir að það skiptir miklu máli á hvaða vaxtarstigi jurtin er týnd. Auk þess leggur hún áherslu á að það sé ekki óendanlegt magn til af jurtunum og segir að þurfi að passa sig að raska ekki tegundasamsetningu í náttúrunni.

„Það þarf að passa sig að týna ekki of mikið á ákveðnum stöðum, þetta er ekki auðlind sem er óendanleg. Ef það er týnt of mikið þá gæti sú tegund farið að hopa. Þetta er allt tekið með í reikninginn og svo endurnýtum við og búum til moltu. Það þarf að passa þetta vel, erum með lífrænt vottuð svæði í Tálknafirði og Arnarfirði og hugum vel að þessum þætti.“ segir Aðalbjörg.

Aðalbjörg segir að það sé alltaf eitthvað um vefsölu til aðila erlendis frá og að það hafi verið reglulegur áhugi að utan. „Það hafa verið þreifingar hjá erlendum aðilum en svo hefur ekkert orðið úr því það hefur ekki verið nógu tryggt á bakvið þá aðila. en ferðamenn kaupa þetta mikið og panta svo eftir að þeir koma heim til sinna landa. Varan hefur klárlega sannað sig sjálf, hún væri ekki á markaði nema að hún virkaði. Ef þú þarft að finna bót og mun á þér, þá gerirðu það með okkar vörum, ég gæti ekki án þeirra verið. Ég myndi alltaf halda áfram að nota þær fyrir sjálfan mig ef ég hætti í framleiðslu.“ segir Aðalbjörg.



Villimey, Vestfirðir, úr vör, vefrit, Julie Gasiglia
Aðalbjörg segir að ákveðnar mosategundir séu útdauðar á Suðurlandi Íslands vegna loftmengunar. Ljósmynd Julie Gasiglia.


Aðalbjörg segir að Matís rannsaki vörur fyrirtækisins. Búið sé að finna út að hátt hlutfall af kollagen séu í andlitsolíunni frá Villimey, en kollagen er eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans. Hún segir að Matís hafi einnig fundið út að vörurnar Vöðva og Liðagaldur séu bólgueyðandi og Sáragaldurinn sé græðandi. Að hennar sögn hefur orðið mikil vakning meðal Íslendinga síðustu ár varðandi lífrænt vottaðar vörur og um ósk að vita uppruna vara.

Það hefur orðið mikil vakning. Íslendingar hafa áttað sig, sérstaklega á síðustu tveimur árum að það er tvennt ólíkt að hafa lífræna vöru eða lífrænt vottað vöru. Það er hægt að kalla allt lífrænt í dag, en með vottun þá er búið að skoða alla ferla og uppruna vörunnar. Einnig er skoðað hvort einhverjum aukaefnum er bætt við framleiðsluferlið og þar frameftir götunum.

„Við erum með vottun frá vottunarstöðinni Tún. Þar er góð eftirfylgni og skýrslugerð. Þau koma og taka okkur út og skoða allt sem við höfum keypt inn og þannig er tryggt að þetta sé það sem við erum að nota. Við lögðum upp með að hafa þetta svona frá upphafi.“ segir Aðalbjörg.

Villimey, úr vör, vefrit, Tálknafjörður, nýsköpun.
Einungis íslenskar jurtir eru notaðar í framleiðsluna hjá Villimey. Ljósmynd Villimey.

Að sögn Aðalbjargar væri framleiðslan ekki möguleg án þess að fá hinn mikla stuðning frá landeigendum sem fyrirtækið fær. Að hennar sögn hafa þau stutt hana virkilega vel frá upphafi og segist hún vera mjög þakklát fyrir það enda þurfi þetta þarf allt allt að haldast í hendur. Að lokum dásamar Aðalbjörg náttúrufegurðina á Vestfjörðum og segir að það sé lykilatriði í framleiðslunni. „Ég get aldrei sagt það of oft hvað náttúran er dásamleg á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er hreinlega ómetanlegt að geta notið þess að geta verið í svona umhverfi og hreinleika, ég er heilluð í hvert einasta skipti sem ég kem út í þessa fallegu náttúru.

Það er lykilatriði að vera með þessa framleiðslu hér á Vestfjörðum. Hér er annað loftslag og mér var sagt fyrir nokkrum árum að það væri minnsta loftmengun á Íslandi á sunnanverðum Vestfjörðum. Sumstaðar fyrir sunnan eru heilu tegundirnar af mosa útdauðar vegna loftmengunnar. Að hafa fyrirtæki sem gerir út á hreinleika og náttúrulega vöru gengur því einungis upp í svona umhverfi“ segir Aðalbjörg að lokum.


Comments


bottom of page