Stelpur rokka! eru sjálfboðaliðarekin samtök sem starfa af femínískri hugsjón við að efla ungar stelpur, trans stráka, kynsegin og intersex ungmennni í gegnum tónlistarsköpun og jafnréttisstarf. Kjarninn í starfinu eru rokksumarbúðir, þar sem þátttakendur læra á hljóðfæri, spila saman í hljómsveit, kynnast farsælum tónlistarfólki, fræðast um ýmsar hliðar tónlistar og jafnréttissbaráttu og koma fram á lokatónleikum fyrir framan fullan sal vina og fjölskyldu.
Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Guðrúnu Veturliðadóttur á dögunum sem hefur stýrt rokkbúðum á vegum samtakanna í um fimm ár. Hún segir að markmiðið sé að jafna kynjahalla í tónlist, sem sé svo mikill, sérstaklega hvað varðar hljóðfæraleik. Samkvæmt henni eru þekktar kvenkyns hljóðfæraleikarar ekki eins sýnilegir og karlkyns og reyna samtökin að koma á móts við það. „Við erum alin upp á mismunandi vegu og oftast eru færri hindranir fyrir stráka til að stofna bílskúrsbönd og að prófa sig áfram.
„Stelpur hafa þurft að vera þægar og stilltar og vanda sig. Það kemur í ljós í tónlistarsköpun að það er fullkomnunar árátta hjá stelpum og ekki eins mikið keyrt áfram. Í rauninni er hugmyndin að verkefninu að koma til móts við þetta og skapa rými þar sem stelpur geta verið eins og þær eru, sama hvernig þær eru aldar upp og búa til vettvang þar sem þær geta allar gert það sem þær langar að gera.“ segir Guðrún.
Rokkbúðirnar eru fyrir stelpur sem eru 10 til 12 ára og 13-16 ára. Stelpurnar hittast, þurfa ekki að kunna á hljóðfæri fyrir, stofna hljómsveit og semja lag á fjórum eða fimm dögum. Samtökin eru svo einnig að víkka út starfsemina og eru farin að vera með rokkbúðir fyrir 16-20 ára og kvennarokk fyrir 18 ára og eldri. Einnig er í vinnslu að gera hinsegin búðir og allir viðburðir opnir fyrir transstelpum og transstrákum. „Þannig að við erum líka að ræða kynvitund í þessum búðum.
„Svo höfum við verið í samstarfi við Rauða Krossinn og höfum boðið stelpum sem eru nýfluttar til Íslands að koma til okkar. Stelpur sem koma úr flóttafjölskyldum fá frítt í búðirnar og það hefur skapast góð stemning í kringum þetta, það hefur líka verið gaman fyrir íslensku stelpurnar að kynnast stelpum frá öðrum löndum og annarri menningu, eins og frá t.d. Sýrlandi.“ segir Guðrún.
Guðrún segir að samtökin hafi sprungið svolítið út síðasta ár hvað varðar starfsemi á landsbyggðinni. Þau höfðu verið með starfsemi á norðurlandi í nokkur ár, en voru með rokkbúðir á Patreksfirði í fyrrasumar og stigu þar með inn á Vestfirði. Í kjölfarið stofnaði Guðrún rokkbúðir á Austurlandi og gekk það ótrúlega vel að hennar sögn.
„Svo vel að ég stækkaði það verkefni og er núna líka með kvennarokkið sem flakkar á milli staða. Við erum stundum með það í Reykjavík, förum til Akureyrar og erum núna á Egilstöðum. Svo erum við með rokkbúðir fyrir 10 til 12 ára þar líka á næstunni og einnig fyrir 13 til 16 ára þannig að það eru þrennar rokkbúðir fyrir austan núna, sem er náttúrulega frábært.“ segir Guðrún.
Guðrún var sjálf í tónlist frá því að hún var 12 eða 13 ára og þeggar hún var 15 ára þá stofnaði hún ásamt nokkrum vinkonum sínum rokkhljómsveit sem hét „Without the Balls“ og spiluðu þær út um allt á Austurlandi í þrú ár. Samkvæmt Guðrúnu voru engar kvenfyrirmyndir fyrir þær sem ungar stelpur í tónlist og hjálpuðu eldri strákar þeim með hitt og þetta. „Þegar stelpur sjá ekki aðrar stelpur gera þessa hluti þá pikkar undirmeðvitundin ekki upp að þær geti gert það, heldur fá þær tilfinningu um að þetta sé bara fyrir stráka. Þannig að þetta snýst líka um að peppa þær.
„Við erum alltaf t.d. með öskurhring á morgnana, sem getur verið vandræðalegt fyrsta daginn fyrir stelpurnar. Þær öskra þar hver og ein og svo allar saman og það er svo mikill munur bara á nokkrum dögum, hvað það verða mikil læti. Það hefur hjálpað mér mjög mikið að taka sjálfa mig ekki of alvarlega og það væri hræsni ef ég væri sjálf í einhverjum keng, en væri svo að prédika svona lagað.“ segir Guðrún.
Að sögn Guðrúnar er gaman að sjá sjálfstraust stúlknanna aukast. Hún segir starfið vera mjög fræðslutengt og að rætt sé um forréttindi, mismunandi kynvitund, kynhneigðir og þær breytingar sem gerast í líkamanum á þessum aldri. „Við reynum að dekka hluti sem þær ná ekki að tala um við aðra. Svo er í vinnslu núna að setja upp félagsmiðstöð á vegum verkefnisins. Þá verða þetta ekki lengur bara sumarbúðir heldur starf sem er í gangi allan ársins hring.
„Gallinn á starfinu núna er að ef hljómsveitir vilja halda áfram eftir sumarið að þá hafa þær engan til að leita til. En með miðstöðinni þá munu hljómsveitir getað pantað stað til að æfa á og fengið stúdíó rými til að taka upp og komast í vinnusmiðjur og fá fræðslu líka. Þetta er allt í bígerð og mundi setja okkur í svolítið annan gír, þannig að það er mjög spennandi.“ segir Guðrún að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments