Landið hafði um allnokkurt skeið verið skrýtt perlufesti lægðanna. Lægðir sem gáfu snjó eða vætu á víxl og sterka vinda, lægðir sem tóku rafmagn og eignir, tíma frá fjölskyldulífi björgunarsveitarfólks, og tóku líka mannslíf, nokkur. Og þegar allur vindur var úr lægðunum, og líka fólkinu, þá gerðist það, því það gerist alltaf, að sólin kom. Eftir langa fjarveru hennar hér á 66 breiddargráðu kíkti hún eitt augnablik upp á milli fjallanna og gaf fyrirheit áður en hún hvarf aftur sjónum. En hún skildi eftir blik í augum og svolitla hlýju sem smaug inn í köld vetrarhjörtun.
Við sem búum hér og höfum alltaf búið hér og upplifað myrkrið og ljósið á þennan hátt ár eftir ár, verðum alltaf að hafa orð á þessum breytingum. Í röddinni má heyra vott af undrun í bland við staðhæfingu „það er nú bara farið að dimma ansi mikið!“ má heyra á haustin og eftir áramótin, svona u.þ.b. núna í febrúar förum við að taka eftir vaxandi birtu og endum á því að segja: „jahérna, það er bara að verða bjart!“.
Það er eins og við séum bundin í álög og getum ekki annað en tönglast á þessu hvert við annað, og aftur og aftur, uns tímabilið hefur runnið sitt skeið, líkt og þetta séu töfraorð sem raungeri ástandið.
Sólin skein í gær inn um gluggana í húsunum hér í kring. Eftir því var tekið og sólarpönnukökur auglýstar. Sólarpönnukökur sem skyldan segir að skuli bakast daginn sem fyrstu sólargeislar teygja sig inn um gluggann þinn. Pönnukökur, svo þjóðlegar, svo rótgrónar, hversdagslegar jafnt sem hátíðlegar. Það er raunverulegt fagnaðarefni þegar sólin kemur því við finnum marktæka breytingu innra með okkur. Eftir heilan vetur af D vítamín inntöku, tvær töflur, þrjár jafnvel fjórar extra sterkar, þá kemur sólin, elsku sólin. Og það verður bara að segjast að þetta sólskin í glasi á bara ekki roð í hana.
Tilfinningin fyrst á vorin að finna sólargeislana skína í augun er undursamleg. Með fyrstu sólargeislunum kviknar eitthvað til lífsins sem legið hefur í dvala yfir vetrartíman. Það er þráin eftir sumrinu sem liggur í dvala yfir veturinn því við vitum að öll tímabil hafa eitthvað til síns ágætis og verða að fá að renna sitt skeið. Svo má heldur ekki þrá sumarið í vetrarlægðunum því það gerir lægðirnar svo miklu krappari. En með fyrstu sólargeislunum má byrja að hugsa til sumars og ég gerði það í gær þar sem ég lá í myrkrinu. Ég hugsaði um hvað það væri sem gerði íslenska sumarið svona sérstakt.
Sumrin okkar eru dyntótt með eindæmum en þó er ein ákveðin mynd sem kemur upp í huga mér þegar ég hugsa um sumarið. Það er ekki rigning eða rok heldur skín sólin svo skært, andvarinn blæs, og það er einhver ferskleiki í loftinu. Eins og nýútsprungið blóm, viðkvæmt en samt svo töfrandi, og birtan er eins og annars heims. Kannski er það bara það, birtan sem gerir allt svo gott.
Sól úti,
sól inni,
sól í hjarta,
sól í sinni,
sól í sálu minni.
Texti: Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Comments