Blaðamaður ÚR VÖR hitti Torfa Þrastarson, þrjátíu og þriggja ára Akureyring og rafeindavirkja á verkstæði sem hann kom sér upp við höfnina nú í október síðastliðnum. Þar þróar hann skart í íslenska þjóðbúninginn á nýstárlegan hátt. Í einlægu spjalli lýsir hann hvernig það að ná loks tökum á kvíða sem hafði hrjáð hann varð til þess að hann fór af stað í þetta verkefni og hvernig verkefnið er hluti af stærri draumi sem hefur blundað í honum frá því hann var í barnaskóla.
„Systir mín er gullsmiður og sérhæfir sig í víravirki, en íslenski þjóðbúningurinn er níutíu og níu prósent víravirki. Ég hef verið að hjálpa henni töluvert í gegnum tíðina en við erum búin að tala um það í mörg ár að ég hjálpi henni meira.
Í október sá bróðir minn til sölu þrjár vélar á góðu verði sem hann vissi að væru akkúrat það sem ég þyrfti til að geta byrjað að vinna meira með henni. Þá bara ákvað fólkið í kringum mig að núna skyldi ég slá til og fara í þetta. Ég leigði svo þetta verkstæði undir vélarnar.“ segir Torfi.
Þjóðbúningar eru engin nýlunda. Nýsköpunin í framleiðslu Torfa er meðal annars fólgin í því að framleiða skartið úr pjátri, sem er mikið ódýrari og léttari málmur heldur en silfur. „Með íblöndunarefni verður efnið silfrað og fallegt. Pjátur er örlítið mýkra en silfur en það góða er að það er miklu einfaldara að vinna úr þessu efni, vegna þess að það þarf ekki nema 250 gráðu hita til að bræða það, sem þýðir að ég get brætt málminn í silíkon mót, á meðan þú þarft 900 gráðu hita til að bræða silfur. Þú þarft sérhannaðan vélbúnað fyrir slíka framleiðslu. Skart í þjóðbúning kostar venjulega tæpa milljón en planið hjá okkur er að geta boðið upp á það á miklu lægra verði, þannig að fólk geti verið með punt útgáfu og svo svona meira hversdagslegri útgáfu.“ segir Torfi.
Það er stórt skref að fara út í eigin rekstur og blaðamanni lék því forvitni á að vita nánar um ævi og störf Torfa. „Eins og margir sem koma út úr skyldunáminu með góðar einkunnir, fór ég fyrst í bóknám í Menntaskólanum á Akureyri og skráði mig á náttúrufræðibraut. Ég hafði þó alltaf meiri áhuga á verklegum greinum og fór loks í rafeindavirkjun í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Ég tók sex mánaða lærlinginn í Slippnum á Akureyri. Svo var það svo fyndið að rétt eftir að ég var orðinn full menntaður, en þá hækka launin hjá manni um svolítinn slatta, þá allt í einu var mér sagt upp, ég veit ekkert hvort það var akkúrat út af hærri launum eða hvað.“
Torfi sótti um vinnu á fimm til sex stöðum í hverjum mánuði. Svona gekk þetta í tvö ár. Á þessum tíma var hann stöðugt stressaður og kvíðinn og fannst erfitt að geta ekki breytt aðstæðum sínum. Kvíðinn þróaðist loks í þunglyndi.
„Ég meina, að fá ekki vinnu í tvö ár, þó maður væri stanslaust að senda fimm til sex umsóknir í mánuði, það fer í mann. Ég fékk ekki einu sinni starfsviðtal, ekki einu sinni svar. Að lokum var mér slétt sama um allt. Ég missti meira að segja áhugann á að fá vinnu.
Ég vildi ekki gera neitt. Það erfiðasta var eiginlega áhugaleysið. Á tímabili nennti ég ekki einu sinni að fara í tölvuna. Þegar svo var komið vissi ég að það var eitthvað að, vegna þess að ég hafði alltaf getað farið í ákveðna tölvuleiki.“
Torfi fór loks í starfsendurhæfingu hjá Virk sem losaði um þá hnúta sem höfðu verið að halda aftur af honum. „Virk hjálpaði mér aðallega í sambandi við hvernig ég hugsaði hlutina. Ég fór til dæmis í HAM (hugræn atferlismeðferð). Það hjálpaði mér við að slaka betur á og að sjá að vandamálin, þau voru bara. Það var ekkert sem ég gat gert öðruvísi, til að leysa þau og þess vegna var heldur engin ástæða til að stressa sig. Uppáhalds útskýringin mín um stress kerfið í líkamanum er að það er hannað til að taka á mjög snöggum og stuttum stress tímabilum. Til dæmis ef það er tígrisdýr að laumast við hlið þér í frumskóginum.
„En nú til dags er ekkert tígrisdýr að laumast við hlið þér heldur er tígrisdýrið svona tíu kílómetra fyrir aftan þig og þar er það allan daginn, alla daga, og það fer ekkert. En það gerist ekkert í alvörunni. Þannig að margir eru alltaf pínu stressaðir. Núna líður mér mikið betur. Endurhæfingin frá Virk hefur hjálpað helling, þó allt hafi verið í klessu út af Covid.“ segir Torfi.
Torfi segir að það að losna við stress hafi hjálpað honum að koma upp verkstæði. Að sögn hans hefi hann annars reiknað með því að hann næði þessu ekki. Næði ekki að halda þessu við, kæmi þessu aldrei upp, þetta væri tímasóun, og hann hefði ekki áhuga á þessu. Hann segir að það séu spennandi hlutir framundan hjá sér. „Ég er að fara að steypa málmteninga. Það er orðið voða vinsælt núna, hjá þeim sem spila hlutverkaspil (roleplay) að kaupa svona málmteninga. Svo þegar ég verð kominn með þrívíddar prentara þá ætla ég líka að prenta fígúrur fyrir hlutverkaspil og síðan steypa þær úr málmi.“
Torfi er með skýra framtíðarsýn fyrir reksturinn. „Þær vélar sem ég er með núna eru til þess að geta startað. Planið er svo að komast í að geta steypt silfur og gull. Það eru fáir sem gera það á Íslandi. Ég get gert það fyrir systur mína og ef það gengur þá get ég farið að gera það fyrir aðra gullsmiði.
En áhugamálið mitt er samt ekki þetta. Áhugamálið mitt er járnsmíði. Að gera hnífa og sverð. Þegar ég er komin með vél sem getur brætt silfur, þá get ég farið að bræða stálið líka og brons. Þannig að ég er bara að finna mér leið til þess að hjálpa mér að nálgast áhugamálið.“ segir Torfi að lokum.
Comments