top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Vantar svokallað þolinmæðisfé“

Updated: Apr 1, 2019


Bjarki M. Jónsson, Skógarafurðir, Fljótsdalur, úr vör, vefrit
Bjarki M. Jónsson, stofnandi Skógarafurða. Ljósmynd Skógarafurðir.

Fjölskyldufyrirtækið Skógarafurðir var stofnað árið 2014. Eigendurnir eru feðgarnir Bjarki M. Jónsson og Jón Ólafur Sigurðsson. Sexhundruð lögbýli á Íslandi rækta skóg á sínum jörðum og býr fyrirtækið grundvöll til að fá verð fyrir þá afurð. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til Bjarka og fékk að heyra hvernig hugmyndin kviknaði og hvernig gengur.


Bjarki segir að hann hafi orðið fyrir kulnun í starfi og fannst tilvalið að gerast aðili sem skógarbændur gætu leitað til, til að selja timbrið sitt. Hann segir að fyrirtæki sitt 

búi til verðmæti úr skógunum, þau kaupi hráefni af skógarbændum, sama hversu mikið það er og sæki hvert á land sem er.

„Áður var enginn kaupandi af timbri sem skógarbændur gátu leitað til. Skógræktin sér bara um þann hluta sem þau eiga og má segja að við séum því í samkeppni við þau. En þetta skaust upp í kollinn á manni og fór ég að skoða jarðarverð og bauð að gamni í eina jörð. Þannig að við erum líka að rækta skóg sjálf.“ segir Bjarki.

Bjarki ásamt fjölskyldu sinni keypti landið Ytri Víðivellir II í Fljótsdal, en þar er einn elsti nytjaskógur landsins sem gróðursettur var í kringum árið 1970. Hrafnsgerði í Fellum er einnig fjölskyldusetrið en Bjarki er þaðan og er fjórða kynslóð af skógarbændum Þar er eldri nytjaskógur, að öllum líkindum sá elsti á landi, þar var byrjað að gróðursetja í kringum árið 1930. „Skógar sem voru gróðursettir í kringum 1991 til 1994, þegar gróðursetning byrjaði af einhverju viti, þeir fara að verða tilbúnir eftir fimm til tíu ár. Við erum byrjaðir að tína tré úr þeim skógum, en eftir þennan árafjölda, þá byrjar það af alvöru. Þá þarf að vera búið að koma upp úrvinnslustöð, markaðshópi og tækjum og tólum til að sinna eftirspurninni. Þannig að við þurfum að undirbúa okkur undir þá vertíð.“ segir Bjarki.

Skógarafurðir, Fljótsdalur, úr vör, vefrit
Það fer eftir veðri og vindum hvað gert er hvern dag hjá fyrirtækinu. Ljósmynd Skógarafurðir

Að sögn Bjarka skiptast trjátegundir svolítið eftir landsfjórðungum. Hann segir að á Austurlandi sé megnið af skógi lerki, á Suðurlandi sé öspin öflugust og vaxi hún hraðar en aðrar tegundur, á Vesturlandi er greni og fura ríkjandi, og á Norðurlandi sé birki, fura og greni, svolítið blandað þar. Hann segir að starfsemin hingað til hafi snúist um undirbúning og að koma sér upp tækjum til að geta tekist á við verkefni.

„Það eru miklir fjármunir í þessu og hefur kostað mikið, eða yfir 200 milljónir nú þegar. Þetta hefur kostað líka blóð, svita og tár og allir hafa lagt sitt af mörkum, öll fjölskyldan. Þetta er svakalega erfitt, við erum með mikla vaxtaverki núna og erum að óska eftir meiri pening. Markaðirnir hafa þrýst á okkur að stækka hraðar og þá vantar okkur meira fjármagn til þess. En það er erfitt og má segja að við séum búin að klessa á alla veggi og hindranir sem hafa þvælst fyrir okkur.“ segir Bjarki.
Skógarafurðir, Fljótsdalur, úr vör, vefrit
Starfsstöðvar fyrirtækisins eru sex talsins. Ljósmynd Skógarafurðir

Það er erfitt að fá styrki í verkefni sem þetta samkvæmt Bjarka. Hann segir að hægt sé að fá styrki í hugmynda-og hönnunarvinnu en þegar á að hefja framkvæmdir þá sé lítið um styrki að fá. Til dæmis séu enga styrki að fá varðandi tækjakaup og engir styrkir sem bjóða upp á rekstrarfé.

„Okkur vantar meira rekstrarfé í dag, það er ekki nóg að fá hugmynd, þarf að koma þessu í framkvæmd. Að mínu mati vantar eitthvað sem kalla mætti þolinmæðisfé, að fólk gefi fyritækjum tíma til að fá afrakstur erfiðisins. Eins og núna, þá erum við byrjuð að borga af tækjum áður en þau komu hingað til lands.“ segir Bjarki.

Annar vandi segir Bjarki vera að afurðin sem þau eru að vinna með er ekki viðurkennd og þar með ekki mögulegt að taka veð í henni. Hann segir að erlendis séu það lífeyrissjóðirnir sem eigi timbrið, en að það þekkist ekki hér á landi. „Ég sé fyrir mér að einhverjir fjárfestar koma að þessu til að kaupa hráefni. Svo verði það flokkað og sett í mismunandi verðflokka, þannig fái þeir sína fjárfestingu úr þessu. Það er starfshópur frá Skógræktinni og Landsambands skógareiganda (LSE) að vinna í þessu og þetta breytist vonandi í kjölfarið. Það auðveldar líka ráðunautum Skógræktarinnar sem vinna með skógarbændum til að verðmeta skóginn fyrir grisjun.

„Við erum svolítið langt eftir á hvað þetta varðar en það er rangt að bera okkur saman við Norðulöndin samt, við ættum að bera okkur saman við Skota og Íra, þeir eru nær okkur hvað skógrækt varðar.“ segir Bjarki.
Skógarafurðir, Fljótsdalur, úr vör, vefrit
Fyrirtækið sækir efnivið hvert á land sem er. Ljósmynd Skógarafurðir.

Bjarki segir alla framleiðsluna fara á innlendan markað til fyrirtækja og einstaklinga. Hann segir þetta bæði vera stærri verkefni fyrir fyrirtæki sem eru að byggja hús og líka mjög mikið af minni verkefnum þar sem aðilar séu að fá hráefni frá þeim. Að sögn Bjarka liggur enginn lager fyrir, þau sérvinni efni fyrir fólk og hann bætir við að hönnuðir í dag séu mikið í að panta fyrir sérvinnu. Að hans mati kom fyrirtækið inn á þennan markað á réttum tíma, á tíma þegar fólk sé farið að hugsa út í kolefnissporið og að í dag sé gerð talsverð krafa um íslenska vöru. meiri kröfu um íslenska vöru. Að sögn Bjarka er eftirspurnin meiri en framboð og segist hann ekki geta sinnt henni af fullum krafti sem stendur.

„Framleiðslan í dag hjá okkur er bara brot af því sem hún kemur til með að vera. En til að stækka þarf ég fleiri starfsmenn, meira hráefni og það kostar pening. Núna er líka óvissa varðandi kjaramál, þannig að það er að mörgu að huga. Við erum með þrjá starfsmenn í dag í fullri vinnu en við gætum haft tíu starfsmenn miðað við eftirspurnina. Að auki gætum við verið með sex starfstöðvar í gangi, en erum aðallega að keyra tvær á hverjum tíma eins og er.“ segir Bjarki.
Skógarafurðir, Fljótsdalur, úr vör, vefrit
Bjarki segir það skemmtilegasta við starfið sé að enginn dagur sé eins. Ljósmynd Skógarafurðir.

Það er augljóst að Bjarki hefur gaman af vinnu sinni og ekki er útlit fyrir að hann upplifi kulnun í þessu starfi.

„Það skemmtilegasta er að enginn dagur er eins. Við erum núna út í skógi að grysja og svo fer svolítið eftir veðri hvað við erum að brasa. Við þurfum auðvitað að klára ýmislegt til að eiga fyrir launum og svo er hægt að vinna sér í haginn. Þetta fer þó nánast allt jafnóðum, það er kannski hægt hagræða þessu betur en það kallar líka á fleiri starfsmenn, meira hráefni og meira rekstrarfé.“ segir Bjarki að lokum.


Comments


bottom of page