Sjoppan Vöruhús er sennilega eina og minnsta hönnunarsjoppan á Íslandi, en húsnæði verslunarinnar er 3,5 fermetrar og er mottó forsvarsmanna „Svona bland í poka“. Vöruúrval Sjoppunnar er fjölbreytt og síbreytilegt og er boðið upp á vandaðar vörur, bæði innlendar sem erlendar. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í forsprakka Sjoppunnar, honum Almari Alfreðssyni og fékk að heyra hvernig hugmyndin kveiknaði og hvernig viðtökurnar hafa verið.
Eftir að Almar og konan hans, Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, höfðu keypt sér íbúð í Listagilinu á Akureyri og voru að taka húsnæðið í gegn þá datt þeim í hug að vera með litla verslun í anddyrinu, sem telur rúma þrjá fermetra. Þau settu lúgu á útihurðina og hönnuðu litla rýmið sem verslunarrými. Að sögn Almars hefði verið lítið mál að breyta rýminu í venjulegt anddyri ef verslunarhugmyndin hefði ekki gengið upp, þannig að áhættan var í raun lítil.
Hugmyndin á bakvið Sjoppuna er að líkja eftir gamaldags hverfisverslun, eða sjoppum, sem voru algengari áður fyrr víða í bæjum landsins.
„Ég man eftir slíkri verslun hér á Akureyri þegar ég ólst upp. Þar var hægt að fá allt frá mjólk yfir í nærbuxur. Það er sterk minning frá æskunni þegar maður eignaðist pening eftir vikuna, að þá fór maður og keypti sér bland í poka í þessari tilteknu verslun. Maður valdi sér eitthvað í borðinu og eigandinn var hress og spjallaði við mann.
„Það var þessi persónulega tenging, þessi smæð, allt milli himins og jarðar var til og þetta var eins og ákveðinn ævintýraheimur. Ég hafði hugann við þetta þegar við settum Sjoppuna á fót, vildi grípa þennan anda, því þetta er svo lítið rými.“ segir Almar.
Að sögn Almars komast aldrei fleiri en fimm manneskjur í búðina á sama tíma og er andrúmsloftið náið og persónulegt. Hann segir þetta fyrirkomulag vera mikinn kost, því hann geti gefið þessar auka upplýsingar sem getur verið dýrmætt, gefið viðskiptavininum auka mínútur til að segja frá vörunni og selt hana betur. Um sé að ræða annað fyrirkomulag heldur en ef um stóra verslun sé að ræða þar sem fólk hleypur inn til að kippa einhverju með sér.
Verslunin opnaði formlega árið 2014 og þrátt fyrir smæðina þá eru í boði yfir 50 vöruflokkar og yfir 400 vörur sem verður að teljast mikið miðað við þetta pínulitla pláss og er nafnið Sjoppan Vöruhús einmitt tilkomið vegna þessa mikla vöruúrvals. Breytilegur opnunartími er í versluninni og er hann yfirleitt auglýstur á samfélagsmiðlunum.
Samkvæmt Almari er fyrirkomulagið samt ansi heimilislegt og fólk sendir þeim hjónum skilaboð eða hringir og athugar hvort að það sé opið og opna þau hjón oft dyrnar utan opnunartímans, sér í lagi ef einhver er að fara í boð og það hefur gleymst að kaupa gjöf áður. Almar bætir við að það sé ansi hentugt að kíkja til þeirra vegna staðsetningarinnar, nánast sé um að ræða bílalúguverslun.
„Við vissum ekkert hvað við vorum að fara útí þegar við byrjuðum á sínum tíma, við fórum að auglýsa okkur og eiga samstarf við hönnuðu og fólk var fljótt að pikka þetta upp, sérstaklega útlendingar, þeim líkar þessi persónulega nánd og þetta spurðist út. Við höfum nánast eingöngu látið orðið berast mann frá manni og hefur þannig markaðssetning gengið mjög vel. Greinar um Sjoppuna hafa birst í bókum yfir það sem sniðugt er að gera á Íslandi og vorum við valin hluti af 101 áhugaverðustu stöðum á Íslandi til að heimsækja. Það er án efa upplifun að koma hingað, að hringja bjöllunni og vita ekkert við hverju á að búast. En þetta virkar í dag, þegar það er svona mikið framboð þá er einmitt eitthvað svona einstakt sem virkar.“ segir Almar.
Almar segir að málið snúist um að prufa og þora, hann segir það ekkert mál að hætta þá bara ef hlutirnir ganga ekki upp. „Sjoppan er orðin að ákveðnu vörumerki og það er skemmtilegt hvað þessi litla verslun er orðin stór þannig séð. Við erum svo núna að fara að setja í loftið vefverslun, erlendu gestir okkar gefa sér tíma til að skoða þegar þau koma til okkar, en tala stundum um að vilja kíkja betur þegar þau koma heim og panta jafnvel þá. Við höfum oft fengið símhringingar með pöntunum, þannig að það er skemmtilegt stökk fyrir okkur að byrja með vefverslunina.“ segir Almar.
Að sögn Almars er markaðssetning lykilatriði þegar farið er af stað með eitthvað svona og ef maður ætli sér að gera eitthvað vel og ná árangri, þá þurfi að vinna í því og vera á tánum, finna réttu vörurnar, læra á hvernig viðskiptavinurinn hagar sér hér í versluninni og sjá hvað virkar og hvað ekki.
„Það hefur gengið vel hingað til og fólk þekkir verslunina. Það er mjög vinsælt að fá að taka mynd af sér í lúgunni eða með okkur hér inni, ég veit ekki hvað ég er á mörgum túristamyndum, með fjölskyldum eða tek mynd af þeim í lúgunni, þetta er skemmtilegt líka. Svo er maður kvaddur með handabandi og þökkum, sem er ekki algengt í verslunarbransanum, það er gaman að hafa þetta svona persónulegt og það er greinilegt að fólki líkar það.“
segir Almar að lokum og greinilegt er að þeim hafi tekist að grípa hverfisverslunarandann með sér í Sjoppuna.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments