top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Íslenskir hafrar vinsælir


Sandhóll, hafrar, bygg, ræktun, suðurland, úr vör, vefrit
Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli (t.h.) Ljósmynd Sandhóll

Á bænum Sandhóli í Vestur-Skaftafellssýslu stunda hjónin Örn Karlsson og Hellen Gunnarsdóttir búskap. Þar rækta þau hafra, bygg og repja auk þess sem þar er stundað nautgripaeldi. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Erni á dögnum og forvitnaðist um framleiðsluna hjá þeim hjónum.


Örn segir að hafrarnir fari eingöngu til manneldis og að byggið fari bæði í nautaeldið sem og í sölu til bruggverksmiðja sem bruggi íslenskt viský.

Þau hjón hafa ræktað hafrana í mörg ár sem skeppnufóður en eru nýfarin að rækta það til manneldis að sögn Arnar og eru honum vitanlega engir aðrir að gera slíkt, en hafrar þó ræktaðir sem fóður víða. Samkvæmt Erni þurfa hafrarnir aðeins lengri vaxtatíma en bygg og því hafi þau verið í efa um hægt væri að ná höfrunum í fullan þroska öll árin.

„En þegar við vorum búin að ná þessu í fullan þroska í níu ár í röð þrátt fyrir mismunandi sumur, vor og haust, þá ákváðum við að keyra á þetta og selja til manneldis. Það sem latti okkur að gera þetta var að við vorum efins um að við næðum þessu varðandi fullan þroska, að það væri bara hægt sum ár og önnur ekki.

Sandhóll, hafrar, bygg, Suðurland, úr vör, vefrit,
Þau hjón hafa ræktað hafrana í mörg ár sem skeppnufóður en eru nýfarin að rækta það til manneldis. Ljósmynd Sandhóll

„Svo fórum við að rýna í innflutning á höfrum og ég sá það að það er umtalsverð neysla á höfrum og mikið selt af því. Og okkur datt í hug að það væru einhverjir sem vildu prófa íslenska hafra ef þeir væru í boði og það má segja að viðtökurnar hafi verið framar öllum vonum.“ segir Örn.

Að sögn Arnar fóru hafrarnir fyrst á markað síðastliðið haust og hafa þau verið að selja flesta mánuði hafra í tonnavís en samt ekki náð að anna eftirspurn. Hann segir að þau séu því núna að gefa svolítið í og eru að tvöfalda ræktunina og ætla að sjá hvað það dugar. Örn segir að svona ræktun gangi sennilega ekki nema á syðstu hlutum landsins. „Þetta þarf það marga vaxtadaga, þetta þarf alveg góðar tvær vikur lengur en byggið. En á svæðu þar sem byggrækt gengur og er trygg, þar má gera þetta, þ.e. þar sem þetta er rætktað til fulls þroska.

„Fyrir norðan í mjög góðum sumrum væri þetta mögulegt, en það er ekki nógu tryggt samt. Það er ekki hægt að setja niður og haft þá hættu uppi á borði að þetta misheppnist.“ segir Örn.
Sandhóll, nautgriparækt, Suðurland, úr vör, vefrit
Yfir 300 naut eru alin að Sandhóli og er lagt uppúr því að þeim líði vel. Ljósmynd Sandhóll

Notuð eru sömu tæki og notuð eru hvað varðar byggræktunina að sögn Arnar, þannig að það þarf engar auka fjárfestingar hvað þetta varðar. Reynt er að setja niður uppúr miðjum apríl mánuði og fæst uppskeran í lok september mánaðar. Örn segir uppskerutölur vera mjög mismunandi eftir árferði.

„Við erum með þetta núna í 130 hekturum og líkt og í fyrra þá vorum við með þetta í mjög frjóum jarðvegi, gömlum túnum sem við plægðum upp, tún sem höfðu fengið skít í áratugi. Þar fengum við upp í 7 tonn á hektara og alveg niður í 2,5 tonn á hektara þar sem er nýræktað land.

„Það er þetta erfiðasta í þessu, það er erfitt að segja hvað ég fæ mikið útúr þessu, það kemur ekki í ljós fyrr en í haust. En þetta fer allavega mjög vel af stað.“ segir Örn.

Sandhóll, hafrar, bygg, Suðurland, ræktun, úr vör, vefrit
Sandhóll hefur framleitt og selt hafra í tonnavís en samt ekki náð að anna eftirspurn. Ljósmynd Sandhóll

Framleiðan er fyrir íslenskan markað en Örn segir að það hafi komið fyrirspurn fyrir stuttu síðan frá fyrirtæki í New York sem selji íslenskt skyr. Það fyrirtæki vildi kaupa hafra hjá Sandhóli, en voru með kröfu um lífræna vottun, sem Sandhóll er ekki, þannig að það varð ekkert úr því. „Við erum að setja þetta mikið í nýtt land, þannig að við verðum að nota tilbúinn áburð, en við notum engin varnarefni, erum ekki með nein skordýraeitur eða annað slíkt. Það yrði erfitt að rækta þetta til fulls þroska án þess að nota tilbúinn áburð. Ég hef ekki heyrt um að aðrir ætli að fara út í þetta, en það væri gaman ef fleiri kæmu inn á þennan markað. Markaðurinn er til staðar og þetta eru engin geimvísindi.

„Þeir sem smakka þetta þeir kaupa þetta aftur. Hafrarnir sem koma úr þessari ræktun eru bragðmeiri en þeir sem koma erlendis frá. Þetta vex hægar eins og grænmetið sem ræktað er hér og verður bragðmeira fyrir vikið. Hvet bændur til að reyna að fullgera vörur og prófa eitthvað slíkt, ég er allavega bjartsýnn á framhaldið!“ segir Örn að lokum.

Sandhóll, hafrar, Suðurland, ræktun, úr vör, vefrit
„Þeir sem smakka þetta þeir kaupa þetta aftur“ segir Örn. Ljósmynd Sandhóll



bottom of page