top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hlusta á tíu orð í viðbót, koma svo!


Skúli Gautason, pistill, snjallsímar, samræður, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
Eitthvað í símanum hefur fangað athyglina. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Endar öll okkar menning í símanum? Stór hluti dægradvalar minnar fer fram í gegnum snjalltæki. Ég horfi á stuttar klippur og myndir sem vinir mínir deila og segi vá eða jahérna. En er rétt að kalla þessi tæki snjalltæki? Oft á tíðum finnst mér þau nefnilega alvarlega forheimskandi. Ég finn það allavega á sjálfum mér. Stundum tek ég dag eða dagspart sem ég vel að vera án síma og skil hann eftir heima. Þá finn ég iðulega fyrir einhverjum kippum, ég tek viðbragð með hendinni og ætla að seilast í símann og mér finnst þetta óþægilegt. Mér finnst ég vera eins og róni sem vill stöðugt seilast í pyttluna, fara höndum um fleyginn, af því að í rauninni á ég ekkert erindi við símann. Ég hef enga sérstaka ástæðu til að kíkja og gægjast. Þetta er eingöngu vani og er orðið ósjálfrátt viðbragð. Þetta er að verða einhverskonar fíkn sem ágerist fremur en hitt.


Síminn er svo auðveldur. Ég þarf ekki að vita hvers ég leita. Ég opna bara einhverja samfélagsmiðla og umsvifalaust er búið að freista mín með einhverju sem mér finnst ég ætti að hafa áhuga á.

Stundum er efnið vissulega áhugavert en oftar bara einver froða. Stundum og kannski oftast bara tímaeyðslu. Svo lít ég upp og átta mig á því að ég er búinn að eyða klukkutíma af lífi mínu í eitthvað sem ég ætlaði ekkert að gera. Dálítið eins og þegar ég fer í Costco til að kaupa mér tannbursta en kem út með fulla körfu af einhverju sem ég ætlaði mér alls ekki að kaupa. 

En samfélagsmiðlarnir þjálfa mig ekki í því að skiptast á skoðunum við aðra. Það geri ég með því að tala við fólk og þora að hafa mínar eigin skoðanir þó þær stangist á við skoðanir viðmælandans. Það er þjálfun í því að setja þær fram án þess að vera með upphrópanir og án þess að fordæma viðmælandann og skoðanir hans. Þannig æfi ég mig í því að hlusta á það sem aðrir hafa að segja og ég æfi mig í því að hugleiða hvort vera kunni að skoðanir hans eigi ef til vill rétt á sér. Auðvitað má fara út í öfgar í þessu eins og öðru. Þeir sem hafa búið í Danmörku kannast sjálfsagt flestir við það hvernig frændur vorir Danir geta rætt málin út í hið óendanlega og til baka - en ég er ekki frá því að við Íslendingar hefðum gott af því að æfa okkur í þessu. Reglulega. Allt er þetta jú spurning um þjálfun, hvort sem það er að lyfta lóðum, syngja sonnettur, kyssa konuna sína eða halda uppi samræðum.


Hugleiðum aðeins þetta orð: Samræður. Við erum að ræða saman. Við köllum þetta ekki mótræður heldur samræður og í því felst að við ætlum að halda áfram að ræða saman.

Við lifum á tímum þar sem leiðtogi eins áhrifamesta stórveldis heims beitir „bully“samskiptum við aðrar þjóðir. Svona eins og ég minnist úr sandkassanum frá því ég var lítill: Ef þú gerir ekki eins og ég vil þá lem ég þig og svo læt ég pabba minn lemja þig líka. Það að hefja samskipti með hótun getur varla talist uppbyggilegt upphaf að samskiptum. Samskipti, hér komum við að öðru orði. Að skiptast á einhverju sín á milli, orðum eða gjörðum.

Samfélagmiðlarnir eru þekktir fyrir að vera svokölluð bergmálsherbergi þar sem einhver algrím eru búin að greina hugsanalíf okkar og draga okkur í dilk með öðrum sem eru sama sinnis, með jábræðrum og -systrum. Öðrum heyrum við aldrei í og við getum sáralítið gert til að breyta því.

Þegar þetta fer saman, að við erum öll stödd í eigin bergmálshelli og þeir sem eiga að heita helstu fyrirmyndir okkar ganga fram með dólgslátum og hótunum þá er enn meira áríðandi að halda sér í þjálfun í því að tala saman. Það gerum við á hverju götuhorni, í hverri kaffistofu og síðast en ekki síst í heita pottinum sem er kannski síðasta vígi frjálsra samræðna. Þar er þó alla vega oftast enn hlustað á skoðanir annarra og allar skoðanir jafnréttháar.


Þetta er allt spurning um þjálfun og til að ná árangri í þjálfun er gott að setja sér markmið.  Kannski ættum við að setja okkur markmið eins og að hlusta á tvær nýjar skoðanir á dag án þess að fordæma, án þess að detta í skotgrafir, án þess að hætta að hlusta?


Texti: Skúli Gautason


bottom of page