top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Samferða

Updated: Sep 16, 2020


Melkorka Mjöll Kristinsdóttir, pistill, samferða, landsbyggðin, bílfar, bílferð, úr vör, vefrit, Julie Gasiglia
„Það sást vel þegar ég brá mér út úr bílnum til að skila samloku í vegarkanti. Þá stökk hann einnig út, kraup við hliðina á mér og rétti mér tissjú.“ Ljósmynd Julie Gasiglia

,,Er einhver að fara til Reykjavíkur í dag eða á morgun? Tek að sjálfsögðu þátt í bensínkostnaði. Er með eina litla tösku.‘‘

,,Hæ, hæ, er að fara frá Akureyri til Reykjavíkur á mánudaginn með tóma kerru, endilega látið mig vita ef ykkur vantar að flytja eitthvað, einnig er pláss fyrir tvo rassa.‘‘

Svona auglýsingar óma allan daginn á fésbókarsíðum samferða fyrir landsbyggðina. Sem kona er ég svolítið vör um mig ef ökumaðurinn er karlmaður. Smelli þá gjarnan á myndina af honum til að geta í eyðurnar. ,,Hmm, opnumyndin hjá þessum er af þremur áhyggjulausum börnum í sandkassa. Ok, sendi honum skilaboð.‘‘

Stundum hitti ég ökumennina hjá Hofi.

Ég mæti þá snemma til að sjá þegar bíllinn kemur, reyni samt að horfa ekki of stíft á þá bíla sem renna upp að húsinu heldur virka svolítið afslöppuð, sveifla kannski aðeins ferðatöskunni til að vekja athygli á því að, já ég hlít að vera konan sem ætlar að fara með.

Svo er það fullkomið happdrætti hvernig þessi fimm klukkustunda sambúð gengur. Fyrst um sinn getur verið smá vandræðagangur. Eftir tvær til þrjár klukkustundir má gera ráð fyrir að snæða saman máltíð í bensínsjoppu. Um leið sér maður í fyrsta skiptið almennilega framan í samferðalanginn. Stundum er það ekki fyrr en þá sem flóðgáttir samræðnanna opnast.

Þetta happdrætti endar stundum á lottóvinningi fyrir alla hlutaðeigendur. Einu sinni komst ég til að mynda að því, með rækjusamloku í annarri, að ökumaðurinn var í vandræðum með að finna rafvirkja til að skipta um rafmagn í íbúðinni hans. Hann sagði að það hefði reynst honum erfitt að fá rafvirkja sem mætti ekki aðeins á svæðið heldur kláraði verkið. Maðurinn minn er rafvirki og okkur veitti ekki af smá auka peningi á þessum tíma. Til að gera langa sögu stutta var eiginmaðurinn mættur heim til þessa nýja vinar míns næsta föstudag og kláraði verkið þá um helgina.

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir, pistill, samferða, landsbyggðin, bílfar, bílferð, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Um leið sér maður í fyrsta skiptið almennilega framan í samferðalanginn. Stundum er það ekki fyrr en þá sem flóðgáttir samræðnanna opnast.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Núna í september átti ég leið til Reykjavíkur vegna blaðaviðtals og bókar sem ég er með í smíðum. Í aftursætinu hitti ég tónlistarmann sem var á leiðinni til Reykjavíkur til að taka upp lag með einni af þeim hljómsveitum sem hann spilar með. Ég sá að þarna var á ferðinni einn skemmtilegast maður landsins og bað hann því um viðtal. Hann hélt nú það. Í framhaldinu ætlar hann að kynna mig fyrir vinum sínum í bransanum.

Þrátt fyrir að hæfileikarnir rynnu af honum, var hann alveg laus við stjörnustæla. Það sást vel þegar ég brá mér út úr bílnum til að skila samloku í vegarkanti. Þá stökk hann einnig út, kraup við hliðina á mér og rétti mér tissjú.

Samferða fésbókarsíðurnar fela þannig í sér möguleika fyrir fólk á landsbyggðinni til að efla tengslanetið og komast á ódýran hátt á milli staða, en einnig til að afla sér efniviðar og innblásturs. Samferða stuðlar þannig að því að listafólk og aðrir geta frekar hugsað sér að halda áfram að búa á landsbyggðinni, jafnvel án þess að eiga bíl.

Sumir ökumenn taka með sér farþega til að sofna ekki á leiðinni, treysta þá á hressandi samræður. Aðrir eru að hugsa um bensínkostnað. Enn aðrir eru að reyna að sýna samfélagslega ábyrgð. Hafa hreinlega ekki samvisku til að keyra alla þessa leið prumpandi á einum rassi.

Ég hvet þig til að prófa, það er alltaf laust fyrir einn rass.Comments


bottom of page