top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Það kemur blik í augu fólks“


Sætt og Salt, súkkulaði, Súðavík, frumkvöðlar, úr vör, vefrit
Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir, stofnandi Sætt og Salt ehf. Ljósmynd Sætt og Salt

Í Súðavík er framleitt súkkulaði. Við erum ekki að búa þetta til, þótt þetta hljómi eins og lína úr hinu besta ljóði, stuðlað í þokkabót. Já, fyrirtækið Sætt og Salt ehf. framleiðir gómsætt súkkulaði í Súðavík og mun gera það um ókomna framtíð samkvæmt stofnanda og eiganda, hennar Elsu Guðbjargar Borgarsdóttur. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í dögunum í Elsu og forvitnaðist um hennar ljúffengu uppskriftir og ástæðu þess að hún auglýsir ekki vöruna.


Elsa segir að fimm tegundir súkkulaðis séu framleiddar allt árið í kring, auk árstíðarbundna vara. Með því á hún við jólasúkkulaði, páskasúkkulaði sem farið er að tengjast tónlistarhátíðinni „Aldrei fór ég suður“ órjúfanlegum böndum og svo berjasúkkulaði á haustin.

Framboð þeirrar tegundar fer þó eftir veðri og vindum og hvort berjauppskera standi undir framleiðslu hvert ár. Um er að ræða hvítt súkkulaði með ferskum aðalbláberjum. Á þessum tímapunkti viðtalsins fær blaðamaður vatn í munninn, en hvernig kviknaði hugmyndin að því að fara út í súkkulaðiframleiðslu?
Sætt og Salt, súkkulaði, Súðavík, úr vör, vefrit
Hráefni úr náttúrunni er nýtt í framleiðsluna. Ljósmynd Sætt og Salt

„Hugmyndin að baki dökka súkkulaðinu sem við erum þekkt fyrir, verður til árið 1984, eða fyrir 35 árum. Ég var að vinna í bakaríi fyrir norðan frá 1983, og var þar í 27 ár. Ég átti það bakarí ásamt fyrrum eiginmanni mínum og á fyrstu dögunum þar fór ég að stúdera súkkulaðið og þá kynnist ég betur þessu hráefni sem ég var að nota og þá varð þetta til. Svo setti ég þetta á bið eins og gengur og gerist í lífi manns og gerði ekkert með þetta í ákveðinn tíma“ segir Elsa.


Það var svo þegar Elsa flutti til Súðavíkur og var fengin til að endurvekja rekstur kaupfélagins, að henni fannst vanta stórlega eitthvað til að bjóða með kaffinu.

„Þetta var mikið til félagsmiðstöð, fólk hittist og tengdist, spjallaði og fékk sér kaffi. Þannig að ég fór að búa þetta til, til að gefa með kaffinu, svo fór fólk að vilja kaupa þetta, þannig að ég setti í sellafón. Svo vatt þetta upp á sig og fólk fór að vilja kaupa plötur.“ segir Elsa.
Sætt og Salt, súkkulaði, Súðavík, Elsa Guðbjörg Borgardóttir, úr vör, vefrit
Elsa Guðbjörg hefur lumað á uppskriftinni í rúm 35 ár. Ljósmynd Sætt og Salt

Eftir að leiðir skildu við kaupfélagið fór Elsa í ímyndarsköpun í tengslum við grafískan hönnuð tengt vörunni. Húsnæði var standsett, hafist var handa með framleiðsluna í átján fermetra bílskúr og sprengdi starfsemina það húsnæði utan af sér á nokkrum mánuðum. Á annað ár tók að finna hentugra húsnæði og úr varð að keypt var húsnæði með 63 fermetra gólfleti. Áætlunin snérist um að vera þar í þrú ár, en í þessum töluðu orðum hefur starfsemin verið í eitt ár þar og er nú þegar búin að sprengja utan af sér húsnæðið, þannig að nú er Elsa að hugsa um næsta skref.


Að sögn Elsu hafa þau ekki látið glepjast með að vera með vöruna til sölu á mörgum stöðum. Hún segir að ekki sé um fjöldaframleiðslu að ræða. Ímyndarsköpun fyrirtækisins og aðferðir hafa skilað sér í því að varan er orðin mjög eftirsóknarverð og vekur athygli.

„Við höfum aldrei auglýst, varan sjálf hefur markaðsett sig. Nú er framleiðslugetan í hámarki og erum við með tillögur að því vandamáli, en þetta er lúxusvandamál skilst mér. Gott dæmi um aukna eftirspurn er að við gerðum 7.000 mola af konfekti fyrir þar síðustu jól. Við enduðum svo í 47.000 molum fyrir síðustu jól. Þar spilaði inn í að fyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu höfðu samband og vildu fá gjafapakkningar í tengslum við jólagjafir. Þannig að það má segja að þetta sé búið að vera algjört ævintýri.“ segir Elsa.

Sætt og Salt, súkkulaði, Súðavík, konfekt, úr vör, vefrit
Konfekt framleiðsla fyrirtækisins hefur aukist undanfarin misseri. Ljósmynd Sætt og Salt

Ásamt Elsu starfar einn starfsmaður við framleiðsluna og þrátt fyrir gylliboð þá er hún mjög ákveðin með það að súkkulaðið er og verði framleitt í Súðavík. Elsa er fædd og uppalin á Ísafirði, en flutti norður á Húsvík og bjó þar í tæp 30 ár. Frá norðurlandinu fóru þau í fyrstu á heimaslóðirnar á Ísafjörð og að lokum enduðu þau í Súðavík. „Ég var með tengingu hingað sem barn, þekki fólk og umhverfið og þetta er algjör paradís að vera hér. Fólkið hér í bænum tekur þátt í þróun vörunnar, smakkar hana og þetta er svo mikið okkar allra segi ég alltaf.

Mér finnst að Vestfirðingar séu sér þjóðflokkur og markmið okkar er að það verði samansem merki milli Súðavíkur og súkkulaðsins. Ég vil það frekar en að Súðavík verði alltaf tengt við þær náttúruhörmungar sem dundu yfir um árið. Þótt það muni aldrei gleymast, þá er gott að tengja okkur við eitthvað sem við gerum að mínu mati.“ segir Elsa.

Samkvæmt Elsu er umhverfið varðandi að hefja starfsemi líkt og hennar fyrirtækis erfitt á Vestfjörðum. Hún segir að margt spili þar inn í og að vera kona hafi ekki hjálpað til. Hún segir það vera erfitt að fara af stað með hugmynd í litlu þorpi á Vestfjörðum sem sé einangrað. Að sögn Elsu þarft þú að sanna þig tíu sinnum meira ef þú ert úti á landi með starfsemi.

Súðavík, vetrarfærð, snjóþungt, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
Vegurinn til Súðavíkur getur verið erfiður viðureignar yfir vetrartímann. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

„Ég segi alltaf að þetta er svipað og ef þú kaupir bát og ferð að róa. Þú fjárfestir og þú rærð en færð ekki einn fisk. En þú hefur ekki val, þú verður að halda áfram og þú veist að það kemur að því að þú veiðir. Þú verður að halda áfram og mátt ekki missa tökin, mátt ekki láta neikvæðni hafa áhrif, eins og ef þú færð höfnun varðandi styrk t.d, þá snýst þetta um að gefast ekki upp.“ segir Elsa.

Elsa segir að samfélagsleg áhrif fyrirtækisins séu góð. Hún segir að fólk fylgist vel með starfseminni og vonast hún til þess að þeirra reynsla verði til þess að fólk láti drauma sína rætast, sér í lagi þegar það sér að þetta sé framkvæmanlegt og að allt hægt. Aðspurð segir Elsa að mest gefandi í starfseminni sé að sjá gleðina sem fylgir starfinu.

Sætt og Salt, súkkulaði, konfekt, Súðavík, úr vör, vefrit
Gómsætu konfektmolarnir eru vinsæl jólagjöf fyrirtækja. Ljósmynd Sætt og Salt.

„Það er alltaf jafn gaman að sjá svipbrigðin þegar einhver smakkar fyrst. Það kemur blik í augu fólks og það verður hissa. Það er viðurkenningin sem ég þarf og veitir mér mestu gleðina. Það er svo skemmtilegt að standa í þessu og þetta gefur manni kraft til að halda áfram.“ segir Elsa að lokum.


Comments


bottom of page