top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Rassinn leitar heim


Eiríkur Örn Norðdahl, pistilll, rassinn leitar heim, Coronavirus, Covid19, úr vör, vefrit
„Matarboðin voru siðlaus hedónismi og ferðalögin voru að gera út af við jörðina. Lífið einsog við þekktum það var lygi. Við vorum sæl – en bara vegna þess að við vorum einföld.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þú leggur frá þér veiðistöngina, stendur á fætur í árabátnum, kannski búinn að fá þér einn, gyrðir niðrum þig og mígur yfir borðstokkinn. Þegar báturinn byrjar að rugga er þitt fyrsta viðbragð að skella þér aftur í sætið eins hratt og þú getur. Skítt með það þótt þú mígir aðeins á skálmina eða þótt báturinn fái á sig slink við höggið. Þú ætlar ekki að drukkna.

Þegar gefur á bátinn leitar rassinn alltaf aftur heim.

Í vikunni hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem einn stjórnenda sagði flissandi frá því að faðir sinn, bandarískur íþróttaáhugamaður, væri farinn að fylgjast með kórónatölunum einsog þær væru íþróttafréttir. Hvað dóu margir á Ítalíu samanborið við Tyrkland? Hversu mörg gjörgæslurúm voru í Hollandi miðað við Belgíu? Hvað var dánarhlutfallið hátt meðal fólks á fertugsaldri samanborið við dánarhlutfall fólks á fimmtugsaldri? Maðurinn var sviptur hafnaboltaleikjunum sínum og lagðist í þennan óþreytandi samanburð í staðinn – til þess að fullnægja þörf sinni fyrir tölfræði.


Þegar þáttarstjórnendur voru búin að flissa svolítið að þessu hófst þátturinn fyrir alvöru. Og einhvern veginn speglaði framkvæmd þáttarins söguna af þessum pabba. Þarna fór hópur fólks sem ríghélt í gamla rútínu– kunnuglega og fyrirsjáanlega frásagnartækni, sama vinalega en alvarlega húmorinn, sömu festuna og sömu mýktina, þetta ameríska efri-millistéttar yfirbragð sem einkennir núorðið nær öll poddköst. Ofsalega heilir einstaklingar, sennilega aldir upp við mjög gott atlæti, að segja ofsalega fyrirsjáanlegar sögur sem koma mjög passlega á óvart en eru aðallega bara þægilegar. Eftir hléið heyrum við svo hvernig fór / þú trúir því aldrei hvað gerðist næst. Nema bara að í þetta sinn var fyllt upp í formið með kórónavírus í staðinn fyrir einhverja (aðra) skemmtilega furðusögu.

Nýtt vín á gömlum belgjum.

Í dag er allt nýtt vín á gömlum belgjum.

En hvar lýkur gömlum raunveruleika og hvar tekur nýr við? Hvenær er raunveruleikinn orðinn svo óstýrilátur að við missum áhugann, getuna og viljann til þess að snúa aftur til þeirrar veraldar sem var og byrjum að búa í haginn fyrir nýja?


Við þekkjum öll dæmi úr eigin lífi – höfum öll hlaupið á vegg í ofsafenginni leit að því örugga, því venjulega, því sem huggar okkur á síðkvöldum þegar annars gnauðar úti. Hugsað: nei, ég held þessu stormasama hjónabandi gangandi af því óvissan er verri. Nei, ég segi ekki upp þessari mannskemmandi vinnu af því óvissan er verri. Nei, ég breyti ekki venjum mínum eða legg af ósiði mína af því óvissan er verri. Heldur sænga ég með þeim djöfli sem ég þekki en ég leggst með nýjum sem ég veit ekkert hvað gerir mér.


Og svo hlaupum við á vegg – gamlir djöflar eru ekki lengur í boði og þá eru góð ráð dýr.

Í krísum gerum við það sem við kunnum. Við leggjumst ekki öll á sömu árina heldur hver á sína. Ef við kunnum að syngja erum við líklegri til að halda stofutónleika en að leggjast í rannsóknir á bóluefnum. Sá sem er vanur að þétta raðirnar þéttir raðirnar og sá sem er vanur að synda gegn straumnum gerir það. Sá sem er vanur að öskra á vandamálin til að þau hverfi gerir það bara líka. Sá sem er vanur að knúsa þau er kannski í verri málum en dreifir sennilega ást sinni eftir bestu getu. Við lesum Gunnar Gunnarsson, prjónum lopapeysur og ofeldum páskalambið, ef það er það sem við gerum – það sem við erum.


Kannski verðum við jafnvel enn meira við sjálf á krísutímum en við hefðbundnar aðstæður. Ýktari útgáfur. Og kannski leggjum við það á okkur vegna þess að við trúum því innst inni að ef maurabúið sem við lifum í starfi á 120% yfirsnúningi gangi þetta allt 120% hraðar yfir og rassinn á okkur hlunkist fyrr niður í bátinn aftur.


Óvissan er alltaf verri þar til hún er óhjákvæmileg. Við viljum gamla lífið okkar aftur – með sínum kostum og kenjum, sínum kunnuglega ójöfnuði, umhverfisvá og óumdeildu ofbeldisverkum, sínum drykklöngu matarboðum, ferðalögum og fjölskylduheimsóknum. Alveg þangað til það er ekki í boði lengur. Þar til berin eru skyndilega súr – makinn í þrúgandi sambandinu elskaði okkur aldrei, vinnan var ekki hið minnsta fullnægjandi og ósiðirnir ekki til annars en að varpa síðbúnu ljósi á allt sem hélt aftur af okkur í lífinu. Matarboðin voru siðlaus hedónismi og ferðalögin voru að gera út af við jörðina. Lífið einsog við þekktum það var lygi. Við vorum sæl – en bara vegna þess að við vorum einföld.


Og svo verðum við kannski sæl og einföld á nýjan leik, þótt síðar verði. En í millitíðinni þurfum við sennilega öll að ákveða nákvæmlega hvernig við ætlum að haga lífinu nú þegar það er aftur alveg nýtt.



Comments


bottom of page