top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Pyngja full af peningum


List á landsbyggð, list, menning, Elfar Logi Hannesson, landsbyggð, úr vör, vefrit
„Þarf að borga fyrir list? Þarf að borga listamönnum?“

Ég vil pyngju fulla af peningum

já, peninga í tonnum unz ég dey,

hei, annað ei.


Svo orti eitt afkastamesta textaskáld þjóðar, Þorsteinn Eggertsson í dægurkvæðinu Peningar. Það var vitanlega hin hljómfagra grúbba Hljómar er flutti. Hefur nokkuð breyst? Viljum við ekki endalaust og alveg þar til við yfirgefum þetta jarðlíf fulla pyngju fjár? Svari nú hvur fyrir sig.


Fyrir mánuði var ritari einmitt að rita um peninga í ÚR VÖR eða öllu heldur stefna að því að rita um krónur í málaflokknum list á landsbyggð. Bíðið nú aðeins við list og peningar. Hvað er það fyrir nokkuð? Þarf að borga fyrir list? Þarf að borga listamönnum? Já, já, já, er svarið svo vindum okkur í þetta stóra reikningsdæmi. Það er mörg fleyg sagan í listinni einsog að leikhús sé ekki hús heldur fólkið sem þar starfi. Það er alveg rétt en leikhús þarf samt hús eða allavega leikaðstöðu og það er aldrei ókeypis, nema kannski einu sinni, ok kannski tvisvar. Allt kostar og allt þarf að reka sig líka hús.

Víst er peningahlið listarinnar líkt og algebra, alveg óskiljanleg. Listin er krefjandi og um leið tímamikil. Það þarf í raun bara þann tíma sem til þarf til að búa til list og sá tími getur verið mjög breytilegur eftir viðfangsefninu. Þú kemst hingvegar ekkert upp með neitt minna en þann tíma sem verkefnið krefst.

Ef við tökum dæmi um uppsetningu á leikriti hjá áhugaleikfélagi, í fullri lengd þá er æfingaferlið sjálft sjaldan styttra en 6 vikur. Þá er ótalinn tíminn sem fer í að undirbúa sjálft verkefnið kynna það, fjármagna og svo ótal margt fleira. Sex vikur það er slatti af tíma og til að þetta sé gert að einhverju viti þá þarf allavega að hafa leikstjóra á launum. Enda er þetta nú einu sinni hans lífsbrauð. Nú svo þarf að æfa einhversstaðar og þá vantar húsnæði, það kostar. Peningaútstreymið fer svo að aukast sem á líður æfingaferlið og nær dregur frumsýningu. Það þarf að kaupa efni í búninga, efni í leikmynd, farða fyrir leikarana, gera kynningarefni, auglýsa, leigja sýningarhúsnæði og svo óvænti kostnaðurinn hann er í listinni sem öðrum stöðum atvinnulífsins, já list er sannlega atvinna svo höfum hana í atvinnulífshjólinu. Enda á hún þátt í að það snúist þrátt fyrir allt. Það er óhætt að segja að þessi nefndi uppsetningakostnaður sé orðinn að monnípeningaglás.

Einsog með peninginn sjálfan þá eru tvær hliðar á dæminu og nú kemur að, debethliðinni. Eitthvað kemur inn af beinhörðum monníngum, einkum aðgangseyrir. Einnig af seldum auglýsingum í kynningarefni. Svo er sótt í sjóði bæði opinbera og fyrirtækja. Stóra markmið listframleiðandans er svo að verkefnið nái núlli. Allt annað er plús einsog segir sig sjálft. Það tekst nú ekki alltaf en ef það tekst þá er vanalega bara farið strax af stað í að undirbúa næsta verkefni.

Er listin þá bara eitthvað, peningar fyrir ekkert, einsog Dire Streits söng um á eittís tímabilinu? Eigi er það nú svo snubbótt. Því mörg eru áhrifin af hverju listævintýri hvort heldur er uppsetning leikrits, myndlistarsýning, listahátíð eða kórkonsert. Í raun syngur öll þessi list í einum kór hvað þetta varðar. Fyrst skal telja hvað listin gerir fyrir þátttakendur sem áhorfendur. Hún göfgar, gleður og hreyfir við þér. Listin færir og líf í húsin þar sem hún fer fram. Fátt meira niðurdrepandi en slökkt ljós í húsi allan ársins hring, of mikið um myrk hús á landsbyggðinni. Lýsum þau heldur upp með list. Listin skapar lífsgæði viðkomandi sýningastaðar því víst veljum við okkur búsetu eftir fleiru en atvinnu, það þarf líka list sem menntun.

List á landsbyggð, Elfar Logi Hannesson, list, menning, landsbyggð, úr vör vefrit
„Er listin þá bara eitthvað, peningar fyrir ekkert, einsog Dire Streits söng um á eittís tímabilinu?“

Nýlega kom einmitt þetta í ljós í einhverri könnun um búsetuhugi landans. Efnahagslegu áhrif listarinnar eru talsverð og líklega mun meiri og merkilegri en ég get sagt ykkur. Enda náði ég aldrei algebrunni. Sýningargestir þurfa að koma sér á viðburðinn, sumir koma gangandi meðan aðrir koma akandi og einhver jafnvel fljúgandi. Þeir langt að komnu þurfa að eta eftir ferðalagið og fara því á veitingastað á viðkomandi sýningarstað. Það er ekki nóg því ferðin er svo löng að það þarf einnig að gista og skokkar því gesturinn inná næsta gistiheimili til að tryggja sér herbergi, svona áður en allt selst upp.


Margt er smátt skammtað, monníngar sem orð, og nú er komið að því að setja þurfi punkt við þetta list monníngapár. Vona ég að lesandinn sé einhverju nær um list hagkerfið allavega sé huxandi. Það er betra að enda lestur huxi en vera engu nær. Að lokum og sem atvinnulistamaður á landsbyggð þá óska ég þess að Uppbyggingasjóðir landsfjórðunganna verði efldir enn frekar. Menntamálaráðuneytið hefur staðið sig afleitlega í að styðja beint við list á landsbyggð og því er best að Menningarráðuneytið fái Uppbyggingasjóðina til að sjá um verkið alfarið. Þannig eflir það atvinnulistir á landsbyggð best.


Næst verður huxað um aðstöðu til lista á landsbyggð.


Texti: Elfar Logi Hannesson


Comments


bottom of page