top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Okkur til skemmtunar

Updated: Mar 4, 2020


Bryndís Sigurðardóttir, pistill, leiklist, list, Leikfélag Hveragerðis, menning, leikhús, leiklist á landsbyggðin, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Að geta litið upp úr brauðstritinu og leikið sér er stórkostlegt, að eiga þess kost að njóta svona skemmtunar er ómetanlegt.“ Ljósmynd Leikfélag Hveragerðis

Enn elsti og merkasti áhugaleikklúbbur landsins, Litli leikklúbburinn á Ísafirði hefur nú boðað til vinnustofu og ætlunin er búa til verk frá grunni, æfa og frumsýna í maí. Eins og svo oft áður er Litli leikklúbburinn frumlegur og framsýnn og vonandi verður það stór og uppátækjasamur hópur sem tekur þátt vinnustofunni og bæjarbúar taki vel við sér og mæti vel á sýningarnar í vor.

Víða um land eru áhugamannaleikfélög sem gera kraftaverk og bjóða upp á afburðaskemmtun, skemmtun fyrir nágranna og vini (jafnvel óvini líka ef svo ber undir), það er ákaflega skemmtilegt að sjá vammlausan granna breytast í illvígt tröll eða heimskan þjóf og geta svo bara hlegið að öllu saman.

Ég er svo heppinn að geta núna á innan við viku notið tveggja metnaðarfullra leiksýninga þar sem ekkert vantaði upp á skemmtunina og gleðina.


Leikfélag Hveragerðis er eins og Litli Leikklúbburinn næstum hundrað ára gamalt leikfélag og setur upp stykki ár hvert af miklum metnaði. Barnaleikrit leikfélagsins eru vel kunn og eru sýningar oft hátt í 40 og það fyrir fullu húsi en leikfélagið á sitt eigið leikhús. Undirrituð átti því láni að fagna að fá að leika frú Prússolín hjá Leikfélagi Hveragerðis í Línu Langsokk árið 2012 og gerði henni skil í 35 sýningum. Árið 2017 setti leikfélagið upp „Naktir í náttúrunni“ en það var byggt á myndinni „Full monty“, stykkið þótti það merkasti í áhugaleikhúsum það árið og var sett upp í Þjóðleikhúsinu í maí 2017. Að þessu sinni gerir Leikfélag Hveragerðis þjóðsögum Jóns Árnasonar skil með bráðskemmtilegum hætti, Bakkabræður, Gilitrutt og púkinn á fjósbitanum birtast ljóslifandi og ellefu ára barnabarnið missti ítrekað kúlið og skellihló.

Bryndís Sigurðardóttir, pistill, Ungmennafélag Biskupstungna, leiklist, list, menning, leiklist á landsbyggðinni, leikhús, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Það er gríðarlega vinna að setja leikverk á svið og það eru ekki bara leikararnir sem leggja sitt af mörkum, leikmynd þarf að smíða, miða þarf að selja og leikarana þarf að farða og klæða.“ Ljósmynd Ungmennafélag Biskupstungna

Ekki kann ég sögu leiklistardeildar Ungmennafélags Biskupstungna en að setja hurðafarsa á svið, það kunna þau. Stykkið „Allir á svið“ eftir Michael Freyn vafðist ekki fyrir þeim þarna í Tungunum og þeyttust leikarar sprækir og kátir upp og niður stiga, inn og út um hurðir í þessum sprenghlægilega farsa. Aðalheiður Helgadóttir fór á kostum sem Budda eða frú Frankenheimer, hæ en ekki mæ, en hlutverkið er ákaflega skemmtilegt, undirritaðri hlotnaðist sá heiður að túlka þessa drykkfelldu gormæltu frú með Leikfélagi Flateyrar árið 2013. María Dögg Þrastardóttir túlkaði Öddu Arnalds hjá Leikfélagi Flateyrar á sínum tíma og sló eftirminnilega í gegn og það gerir hún aftur í Aratungu með leiklistardeild Ungmennafélags Biskupstungna. Stórkostleg skemmtun, enn ein perlan í minningarsjóðinn góða.


Það er ekki hægt að tala um áhugamannaleikhús án þess að minnast á leikfélagið á Þingeyri sem hefur ár eftir ár boðið börnunum á Vestfjörðum upp á frábær barnleikrit, metnaðarfull og stórkostlega skemmtileg. Nú eða Kómedíuleikhúsið, Hann Elfar Logi er margra manna maki og hans framlag til menningar á Íslandi er ómetanlegt.

Bryndís Sigurðardóttir, pistill, leiklist, Leikfélag Hveragerðis, leiklist á landsbyggðinni, leikhús, list, menning, landsbyggðin, úr vör
„...Það er ákaflega skemmtilegt að sjá vammlausan granna breytast í illvígt tröll eða heimskan þjóf og geta svo bara hlegið að öllu saman.“ Ljósmynd Leikfélag Hveragerðis
Það er gríðarlega vinna að setja leikverk á svið og það eru ekki bara leikararnir sem leggja sitt af mörkum, leikmynd þarf að smíða, miða þarf að selja og leikarana þarf að farða og klæða. Að geta litið upp úr brauðstritinu og leikið sér er stórkostlegt, að eiga þess kost að njóta svona skemmtunar er ómetanlegt.

Mætum í leikhúsin, þar gerast galdrar.
Comments


bottom of page