top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Nokkrir rólegir dagar í janúar


Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, landsbyggðin, Vestfirðir, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Ekkert mál,“ segir einhver upp úr þurru. „Við vorum einmitt að fá aukabæjarstjóra. Sendingin var að detta í hús. Vanur maður. Ekki týpan til að grenja í sjónvarpinu. Alvöru jarðýta.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

1.

Þetta hefst allt einsog því lýkur – með lægðinni.


2.

„Það er nóg til af rafmagni í þessu landi!“ hvæsirðu á ljósaperurnar þegar þær slokkna. En það þýðir ekki neitt. Þær hlusta ekki.


„Það er til svo mikið af rafmagni í þessu landi að það bókstaflega vellur út úr nösunum á okkur rafmagn!“ heldurðu áfram, einn í myrkrinu – rétt í þessu slokknaði á sjónvarpinu í miðri hryllingsmynd og úti fnæsir rokið, fjúka ruslatunnulok og lokast þjóðvegir. „Hver einasta djöfuls spræna virkjuð,“ segirðu, „og einsog það sé ekki nóg þá er þetta nánast kjarnorka, þegar þetta er ekki kolaorka! Að vísu bara á pappírunum með sölu á mengunarkvóta en það kemur út á eitt. Sýnd er sama og reynd, það vitið þið allra best. Kviknið nú, andskotinn eigi ykkur!“

En ljósaperunum virðist standa á sama hvort rafmagnsleysið sem drífur þær ekki áfram er kjarnorkurafmagnsleysi, fallvatnsrafmagnsleysi eða bara dýpt myrkursins.


Þegar díselvélin í Bolungarvík loksins kikkar inn ertu bæði búinn að missa þráðinn í hryllingsmyndinni og góða skapið sem þú ert annálaður fyrir.


3.

Þú lítur út um eldhúsgluggann. Það fer að verða svolítið langt síðan það var sótt hjá þér ruslið. Plastið flæðir upp úr plasttunnunni og pappinn flæðir upp úr pappatunnunni. Þú hefur keypt of mikið af hlutum og hlutirnir sem þú keyptir hafa verið í of miklum umbúðum og tunnurnar þínar eru of litlar, of fáar og alltof sjaldan tæmdar. Þú hefur líka áhyggjur af því að tveggja ára gömlu flugeldarnir sem þú hentir af því þú þorðir ekki að skjóta þeim upp – og af því þú hafðir áhyggjur af því að grannarnir myndu halda að hjá þér væri ennþá 2017, að þú værir ekki búinn að átta þig á því hvað þetta er óumhverfisvænt – taki upp á einhvers konar sjálfsíkviknun og sprengi allt heila klabbið í loft upp. Væri það ekki líka týpískt?


4.

Á eftir einni lægð kemur önnur lægð. Á eftir þeirri lægð kemur enn önnur lægð. Og þannig koll af kolli. Þetta er sosum að verða kunnuglegt.


5.

Þú ert skilinn eftir einn heima og hugsar þér gott til glóðarinnar. Með engar grænmetisætur í húsinu verður kjöt í öll mál. Beikonbitar út á seríosið. Steikarlokur í hádeginu. Foreldaður kalkúnn í kvöldmat. Bara handa þér einum. Beikonvafinn með skinkukurli.

En þegar þú kemur í búðina er allt kjötið búið. Frystarnir standa tómir í röðum. Lægðin kom í búðina á undan þér og át allt kjötið og kaföldin lokuðu heiðunum og sennilega eru vörubílarnir allir einhvers staðar, kannski í Búðardal. Þar standa sennilega bílstjórarnir í góðu skjóli af kaupfélaginu og grilla allt kjötið sem þú ætlaðir að éta, beint aftur úr trukkunum einsog ameríkanar fyrir fótboltaleik. Hlæjandi.


Þetta eru örlög þín og þú grætur alveg þar til vinur þinn hringir og býður þér heim til sín í rjúpnalifrarkæfu.


6.

Lægð. Þú vaknar. Það er rafmagnslaust. Þegar dísilbrennslan hófst í víkinni um nóttina, fimm mínútum eftir að vesturlínan gaf sig vegna ísingar, kom rafmagnið inn aftur hjá nágrönnunum en sló samstundis út hjá þér. Húsið er sennilega komið með áfallastreituröskun af síblikkandi ljósunum, langdrukkið á dísilrafmagninu, skjálfti í hverri kló.

Þú ert nývaknaður á nærbuxunum og rafmagnstaflan er úti í bílskúr. Bílskúrshurðin er grafin í snjó. Einhver stal skóflunni þinni, fyrir löngu reyndar, og þú hefur trassað að kaupa nýja. Þú þarft því að byrja á því að klæða þig. Vaða snjóskaflana framhjá bílnum þínum, sem situr fastur í skafli, niður í Húsasmiðju og kaupa skóflu. Vaða skaflana heim. Grafa upp bílskúrinn. Slá inn rafmagninu. Og síðan afdúðarðu þig í forstofunni og hellir þér upp á kaffi.


7.

Það týndist bæjarstjóri, segirðu. Hann sást síðast á þvælingi um bæinn með snjómoksturstæki. Það var „í story“ einsog heitir. Eina stundina var hann í öllum fjölmiðlum, á öllum samfélagsmiðlum, nokkrum varðskipum, nokkrum þyrlum, allra handa farartækjum og neyðarfundum. Það er óþarfi að lýsa honum því það þekkja hann allir og hann þekkir alla.

„Ekkert mál,“ segir einhver upp úr þurru. „Við vorum einmitt að fá aukabæjarstjóra. Sendingin var að detta í hús. Vanur maður. Ekki týpan til að grenja í sjónvarpinu. Alvöru jarðýta. Vill að vísu til að hann á hálft bæjarfélagið og hefur unnið fyrir alla stærstu hagsmunaaðila svæðisins en ég meina, ef maður ræður, þá ræður maður, og það þarf að ráða þennan mann. Klárt mál. Hann er líka í flokknum og það vantar bæjarstjóra! Annars ræður enginn.“


Þú heldur að þú hafir vaknað við vondan draum en þú hefur ekkert vaknað.


8.

Ólyginn segir að það stefni í lægð með kvöldinu.

Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, landsbyggðin, Vestfirðir, úr vör, vefrit, Julie Gasiglia
„Lögreglustjóri verður útvarpsstjóri. Hann er svo vinalegur þessi lögreglustjóri – hálfgerður Sebastían bæjarfógeti, var í Gettu betur, horfir á Eurovision og vitnar í Bítlana“ Ljósmynd Julie Gasiglia

9.

Menn eru rétt byrjaðir að pússa ballskóna fyrir þorrablótsvertíðina þegar maður greinist með bótulisma í fyrsta sinn á Íslandi frá árinu 1983. Læknar segja þér að óttast ekki þorrablótin. Jarðfræðingar segja þér að óttast ekki eldfjöllin. Upplýsingafulltrúar flugfélaganna segja þér að óttast ekki kórónavírusinn eða eldsumbrotin. Ekki óttast neitt. Vertu alveg óhræddur. Þetta er ekki þorrablótunum að kenna. Þeim fylgir annar höfuðverkur. Ekki að þú þurfir að hafa neinar áhyggjur af því. Þér hefur aldrei verið boðið á þorrablót og ef þér yrði boðið núna myndirðu fyllast svo miklum grunsemdum að þú myndir sennilega álykta að um einhvers konar tilræði væri að ræða.


10.

Rafmagnið fer. Aftur var það lægðin. Þinn gamli vinur.


Rafhlaðan í tölvunni þinni er orðin svo léleg – sennilega af öllu þessu lumpulega annars flokks dísilrafmagni sem þú dælir í hana – að tíu mínútum síðar er hún orðin batteríislaus. Þú skrifar enga helvítis pistla tölvulaus. Reynir að yrkja í huganum en þú veist betur. Þú ert minnislaus og þetta gufar upp jafn óðum. Skrifar fyrst og fremst til þess að gleyma ekki, til þess að finna hugsun þinni stað. Þér finnst einsog hugsun þín sé hætt að eiga sér stað.


11.

Lögreglustjóri verður útvarpsstjóri. Hann er svo vinalegur þessi lögreglustjóri – hálfgerður Sebastían bæjarfógeti, var í Gettu betur, horfir á Eurovision og vitnar í Bítlana – að það eru ekki nema allra hörðustu róttæklingar sem hvá. En ég meina, lögreglustjóri er orðin útvarpsstjóri!


12.

Þú færð skilaboð á Facebook og fréttir að Dóri Hermanns sé dáinn.


Svo margt af því sem maður telur ódrepandi er það síðan alls ekki.


13.

Þú þarft að sækja ungan dreng til Keflavíkur og eyðir nokkrum vikum í að hafa áhyggjur af færðinni. Þú munt áreiðanlega ekki komast, hugsarðu, og ef þú kemst þá verður það við illan leik. Bíllinn er líka á verkstæðinu – kúplingin lifði ekki af að losa bílinn úr snjóskafli. Toyotan sem þú ert með að láni færi ekki yfir Steingrím þótt það væri júlí – mætti heita góð að komast upp á Urðarveg. Af hverju er þetta alltaf svona? Alltaf brjálað veður? Alltaf ný lægð? Snjóflóðahætta? Hríðarbylur?


Þegar ferðadagurinn rennur loks upp og þú ert orðinn alvarlega vansæll og úttaugaður af áhyggjum er bíllinn kominn úr viðgerð, sól skín í heiði og þú átt flug báðar leiðir. Á móti kemur að ferðalangurinn litli er ábyggilega kominn með kórónavírus eftir millilandaflugið, það er útlit fyrir að suðurlandið klofni í tvennt undan eldfjalli í námunda við Leifsstöð og drukkni svo í eimyrju og ösku. Þú ert varla kominn til Reykjavíkur þegar það fellur snjóflóð úr Esjunni. Það kostar eitt mannslíf.


14.

Í borginni ferðu í Eymundsson og kaupir nokkrar bækur á tilboði. Færð synjun á kortið (hafandi eytt um helmingi listamannalauna mánaðarins í bílaviðgerðir). Maðurinn sem afgreiðir þig um bækurnar brosir vandræðalega. Hann er ungskáld. Þig langar að segja við hann að þetta borgi sig ekki. Þetta starf. Það séu engir peningar í þessu – þú hafir það skítt og allir aðrir í þessum bransa hafi það sennilega skíttar en þú og þetta verði ábyggilega aldrei betra. En þú veist betur – á þessum aldri sjá þau ekkert nema rómantík við að þvælast um á hálfum skósólum með ónothæf kreditkort. Þú tafsar eitthvað um bílaviðgerðina og borgar með seðlum sem þú fékkst fyrir að selja eigur þínar og hugsar að þú þyrftir eiginlega að selja eitthvað fleira fljótlega.

15.

Rafmagnið er löngu komið og þú ert kominn til Reykjavíkur þar sem er ofgnótt af rafmagni öllum stundum og þú ert hvort eð er búinn að fá nýja rafhlöðu í tölvuna sem endist og endist og þú hefur rétt í þessu eytt síðustu aurum mánaðarins í kaffibolla á Rúblunni þar sem þú situr til að skrifa þessi orð og hlaða rafhlöðuna áður en þú ferð aftur vestur þegar þú manst alltíeinu að þú hefur ekki einu sinni nefnt snjóflóðin á Flateyri og Suðureyri. Ekki einu orði. Og pistillinn eiginlega löngu búinn. Jæja. Það koma önnur snjóflóð, aðrar lægðir, rafmagnsleysið hefur ekki sagt sitt síðasta.


16.

Rétt áður en þú stendur á fætur og ráfar út í lægðarlausa blíðuna færðu póst frá frönskum bókmenntahátíðarstjóra sem biður þig að mæla með ákavíti sem drukkið verði undir þinni leiðsögn á hátíðinni, sem fram fer í mars. Þá verða lægðirnar vonandi liðnar hjá en allur er varinn góður. Þú biður stjórann um að útvega brennivín og helst bara nógu andskoti mikið af því.



bottom of page