top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Var kuldaskræfa og skíthrædd við kríur


Náttúrubarnaskólinn, Strandir, Dagrún Ósk Jónsdóttir, úr vör, vefrit
Dagrún Ósk Jónsdóttir, umsjónarmaður Náttúrubarnaskólans. Ljómsynd Dagrún Ósk Jónsdóttir

Náttúrubarnaskólinn hefur verið starfræktur í Sauðfjársetrinu á Ströndum síðan sumarið 2014 og styttist því í að fimmta starfsárið hefjist. Í skólanum er boðið upp á allskyns námskeið fyrir börn á aldrinum 6 til 15 ára, þar sem þau læra á náttúruna við bestu aðstæður, þ.e. úti í sjálfri náttúrunni.

Dagrún Ósk Jónsdóttir, umsjónarmaður skólans, sagði blaðamanni ÚR VÖR frá því að lögð sé áhersla á að vernda náttúruna og einnig að nýta hana á skynsaman hátt.

Að auki er lögð áhersla á ákveðin þema sem unnið er með, líkt og fuglaþema, jurtaþema og svokallað Strandaþema, þar sem skólinn er staðsettur á Ströndum. Í fuglaþemanu vinna börnin að því að merkja hreiður, mæla klakstig eggja, gera fuglahræður og skrifa með fjöðrum og í jurtaþemanu eru jurtir týndar, þurrkaðar og einnig er kennt að lita með þeim svo dæmi séu tekin.


Dagrún segir að hún hafi gengið um með hugmyndina í maganum í ákveðinn tíma áður en farið var af stað og bætir við að hana hafi langað að vinna eitthvað með svæðið og þá miklu náttúru sem sé allt í kring.

Náttúrubarnaskólinn, fuglar, Strandir, úr vör, vefrit
Unnið er með fuglaþema í Náttúrubarnaskólanum. Ljósmynd Náttúrubarnaskólinn

„Ég vann á Sauðfjársetrinu sumarið 2013, sama ár og sett var upp sýning um álagabletti á Ströndum. Við fórum víða á staði og tókum myndir og viðtöl við fólk og þá kviknaði þessi áhugi minn á samlífi manns og náttúru. Í framhaldi af því fæ ég leyfi til að taka þessa hugmynd upp á mína arma og við byrjum sumarið eftir það. Við erum hérna alveg við sjóinn og fjöruna þar sem er mikið fuglalíf og því er þetta upplagt.“ segir Dagrún.

Að sögn hennar er skemmtilegt að sjá hvernig svona verkefni vaxi og dafni og segir að aðsóknin aukist með hverju ári. Fyrst um sinn voru það bara börn af svæðinu sem sóttu skólann og segir Dagrún að þau komi ár eftir ár en einnig komi börn annarsstaðar að og að auki sæki erlendir gestir námskeiðin. „Það er auðvitað frábært að sjá það. Íslensk börn eru mjög góð í ensku og svo hafa börn gaman af því að tjá sig með táknmáli, þannig að það er ekkert mál að hafa börn frá ólíkum uppruna saman.“ segir Dagrún.

Náttúrubarnaskólinn, Strandir, úr vör, vefrit
Mikil aðsókn hefur verið í skólann undanfarin ár að sögn Dagrúnar. Ljósmynd Náttúrubarnaskólinn

Samkvæmt Dagrúnu byggir hugmyndin mikið á því að nýta það sem svæðið hefur upp á að bjóða, bæði varðandi efnivið, náttúruna, fuglana, sjóinn og líka mannauðinn. Hún segir upplagt að nýta það fólk sem þau hafi í nærumhverfinu og þá þekkingu sem fólkið hafi.

„Áður en við byrjuðum fór ég í gönguferðir með kennurum, náttúrufræðingum, bændum og fólki sem býr á svæðinu og þau sögðu mér allt sem þau vita um svæðið. Ég reyni svo að miðla því áfram til barnanna.“ segir Dagrún.

Dagrún segir að það sé mikil ánægja með skólann í samfélaginu og að hann veki mikla athygli hvert sem hún fari. Að sögn hennar er lagt upp með að nýta jákvæða þætti frá þessu svæði, t.d. áhersluna um mikilvægi þess að fólk sé í góðu sambandi við náttúruna. Hún segir að fyrstu þrjú árin hafi verið tilraunakennd þar sem prufaðir hafi verið allskonar hlutir, boðið upp á ýmsar tegundir af viðburðum, ólík námskeið með ólíka markhópa í huga. „Við erum ennþá að prufa ýmislegt nýtt. Næstkomandi sumar munum við fara með skólann á einleikjahátíðina Act Alone á Suðureyri og í Byggðasafnið á Hnjóti.

Náttúrubarnaskólinn, Strandir, úr vör, vefrit
Upplagt er að nota fjöruna rétt hjá staðsetningu skólans fyrir leik og lærdóm. Ljósmynd Náttúrubarnaskólinn

„Það er virkilega skemmtilegt að vera í samstarfi við aðra, ég hef líka áhuga á að gera meira af því að flakka um með skólann og svo hef ég heyrt af því að fólk hafi áhuga á að setja svona upp annarsstaðar á landinu, sem er bara frábært!“ segir Dagrún full tilhlökkunar.

Í sumar, samhliða náttúrubarnaskólanum verður einnig á dagskrá svokölluð Náttúrubarnahátíð. Um er að ræða fjölskylduhátíð sem haldin hefur verið síðastliðin þrjú ár sem byggir á sams konar náttúruþema og skólinn sjálfur. Á hátíðinni eru fjölbreytt atriði, eins og smiðjur sem tengjast náttúrunni, náttúrujóga, tónlistaratriði, hestaferðir, gönguferðir, draugasögur, fuglaskoðun og veðurgaldur.

„Við erum með veðurstöð í Sauðfjársetrinu sem við notum mjög mikið til að hafa áhrif á veðrið með mjög góðum árangri. Þetta er vinsælt hjá krökkunum og notum við sérstakan sólardans sem vekur mikla lukku og sem virkar vel!“ segir Dagrún.
Náttúrubarnaskólinn, Strandir, úr vör, vefrit
Boðið upp á leik í námskeiði skólans. Ljósmynd Náttúrubarnaskólinn

Að sögn Dagrúnar kenna börnin henni margt á þessum námskeiðum og finnst henni mjög gefandi að vinna með þeim, ásamt því að vera úti við. „Áður en ég setti skólann á fót var ég ekki mikið náttúrubarn. Ég var algjör kuldaskræfa og skíthrædd við kríur en það hefur breyst, nú finnst mér gaman að vera úti. Það sem er gefandi líka er að krakkarnir eru svo skapandi og hugmyndarík og hafa mikið til málanna að leggja.“ segir Dagrún.


Um er að ræða bæði námskeið sem eru einn dag og einnig í eina viku. Kennslan hefst klukkan 13:00 og stendur yfir til 17:00 og telja hóparnir yfirleitt átta börn. Dagrún segir að námskeiðin hafi verið virkilega vel sótt á síðasta ári og standi frá júní og fram í ágúst mánuð ár hvert. Hún nýtur hverrar stundar og segir að námskeiðin skilji greinilega eitthvað eftir hjá börnunum.

Náttúrubarnaskólinn, Strandir, úr vör, vefrit
Upplagt er að nýta fjöruna sem er skammt frá skólanum. Ljósmynd Náttúrubarnaskólinn

Ég segi mikið af sögum því ég er sjálf þjóðfræðingur og mín kenning er sú að krakkar læri meira á því að vera úti í náttúrunni og komast í snertingu við það sem við fjöllum um. Svo er auðvelt að muna hluti í kringum sögur, ég segi t.d. dæmis sögur um hvernig jurtir voru notaðar áður fyrr.

„Krakkarnir læra af þessu og eftir því er tekið. Hingað koma t.a.m. skólahópar frá Hólmavík og Reykhólum á vorin, sem er alveg upplagt og virkilega jákvætt.“ segir Dagrún að lokum.



bottom of page