top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Myndlistin er tjáning sem tengir

Updated: Apr 6, 2020


Agnieska Majka, list, menning, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustur,Suðurland, landsbyggðin, Lilja Magnúsdóttir, pistill, úr vör, vefrit
Listakonan Agnieska Majka. Ljósmynd Lilja Magnúsdóttir

Agnieska Majka var listamaður á bæjarhátíðinni Regnboganum í Vík í Mýrdal og listamaður Uppskeru- og þakkarhátíðarinnar í Skaftárhreppi í nóvember 2019. Það var augljóst að íbúar á Klaustri líta á hana sem heimamann og það voru bros og faðmlög þegar íbúarnir komu á Kirkjubæjarstofu og hittu Mæju, eins og þeir kalla hana. En hver er þessi listamaður, hvaðan kemur hún og hvað langar hana að gera á Íslandi?


„Ég var alin upp í litlum bæ Osiek Jasielski í Póllandi“ segir Agnieska Majka og brosir sínu heillandi brosi. „Svo þegar kom að því að velja framhaldsnám þá var mamma alltaf að minna mig á hvað ég hafði gaman af að skapa. Ég var að hugsa um að velja eitthvað sem gæfi peninga. En svo valdi ég listina.“


Majka þurfti að taka inntökupróf til að komast inn í Panstwowe Liceum Plastyczne imienia Tadeusza Brzozowskiego Krosno.

„Þarna voru krakkar sem höfðu lært margt um myndlist. Mamma og bróðir minn biðu í bíl fyrir utan skólann. Þau sáu krakka koma út í allavega listaspírufötun en ég var bara í hvítri skyrtu og pilsi. Næstu vikur þorði ég ekki einu sinni að hringja til að vita hvort ég hefði komist inn. Mamma hringdi fyrir mig og ég fékk já! Ég fór í skólann og var þar í fimm ár.“

Majka fór svo í listaháskóla Uniwersytet Rzeszowski Wydzial Sztuki og var þar í önnur fimm ár. Námið er fjölbreytt, bæði ljósmyndun og myndlist. Námið gefur réttindi til að kenna listir á öllum skólastigum, vinna í galleríi, nota myndlist sem meðferðarform (artþerapíu) og til að vinna sem myndlistargagnrýnandi.

Agnieska Majka, list, menning, landsbyggð, Suðurland, Kirkjubæjarklaustur, pistill, Lilja Magnúsdóttir, úr vör, vefrit
Vatnslitamynd eftir Agnieska Majka

En eftir tíu ára listnám ákvað Majka að fara til Íslands að vinna eitt sumar. „Ég réði mig í vinnu á Hótel Geirlandi og um veturinn fór ég að vinna á hjúkrunarheimilinu á Kirkjubæjarklaustri, þá var ekki ferðaþjónusta allt árið í Skaftárhreppi. Ég eignaðist miljón afa og ömmur á hjúkrunarheimilinu. Ég kom fram við þau öll eins og þau væru afi minn og amma og í staðinn kenndu þau mér íslensku og voru svo elskuleg við mig.

„Íslenskan kom smátt og smátt. Ég hlustaði á útvarp og sjónvarp en það er mikilvægast að tala við fólk. Ég fór líka á stutt íslenskunámskeið. En það er ekki bara tungumálið sem þarf að læra í nýju samfélagi heldur líka menningin, hugsunin og það lærir maður af því að umgangast Íslendinga.“

Majka segir að við Íslendingar verðum að vera þolinmóðir þegar kemur að íslenskunni. Fólk þarf að finna að það sé áhugi á því sjálfu og þeirra bakgrunni ekki síður en að kenna þeim íslenska menningu. Samskiptin verða að snúast um að gefa og þiggja á báða bóga.


Seinna réði Majka sig sem myndmenntakennara á Kirkjubæjarklaustri. „Það er gaman að vinna með börnum og það er gefandi að kenna. Ég sagði við krakkana að þau ættu að fylgja draumum sínum, gera það sem hjartað segir þeim. Gera allt sem þau geta til að ná markmiðum sínum, aldrei að gefast upp.“

Agnieska Majka, Pólland, list, menning, Suðurland, landsbyggð, Kirkjubæjarklaustur, Vík í Mýrdal, Lilja Magnúsdóttir, úr vör, vefrit, pistill
Agnieska Majka ung að árum í Póllandi. Ljósmynd úr einkasafni Agnieska Majka.

En kennslan var ekki full staða og þá sótti Majka um hlutastarf í Arionbanka. „Þá fór ég að læra um efnahagsmál og bankamál á íslensku. Ég var alltaf að fletta upp í orðabókum en stundum vissi ég ekkert hvað orðin þýddu á pólsku heldur. Mér leið vel á Klaustri og þar er svo fallegt. Vatnajökull blasir við og nándin við náttúruna svo mikil. Ég gat farið út á náttfötunum og fylgst með norðurljósunum. Þegar ég er í Reykjavík þarf ég að ákveða hvenær ég ætla að skoða norðurljósin, fylgjast með veðurspánni, keyra út fyrir bæinn og bíða eftir að þau birtist.

En svo langaði mig að fara á stærri stað, sótti um að vinna í öðru útibúi hjá Arionbanka og flutti suður á bóginn.

„En þar varð ég fyrir nýrri reynslu. Fólk hreytti því í mig að ég talaði ekki fullkomna íslensku. Á Klaustri vissu allir að ég var útlendingur sem hafði lært íslensku en þarna vissi það enginn og fólk hikaði ekki við að láta mig heyra það. Þetta var mjög erfitt, þetta gerðist mörgum sinnum á dag. Ég kunni ekki að svara þessu. Ég var algjörlega varnarlaus gagnvart þessari grimmd.“

„Ég hætti að vinna í bankanum. Ég varð að hugsa allt upp á nýtt. Ég var búin að vera hagsýn og dugleg í mörg ár. Ég bældi niður það sem mig langaði að gera og það er ekki hollt fyrir heilsuna. En ég fann ástina! Það er gott að eiga kærasta sem hjálpar mér og hvetur mig til að finna hvað það er sem ég vil gera. Fjölskyldan hans tók mér líka mjög vel. Það er nýtt í mínu lífi að finna þennan skilyrðislausa stuðning.“

Skartgripur, Agnieska Majka, list, menning, Suðurland, landsbyggð, pistill, Lilja Magnúsdóttir, Kirkjubæjarklaustur, Vík í Mýrdal, úr vör, vefrit
Skartgripur sem Agnieska Majka gerir úr efni úr íslenskri náttúru

„Ég er listamaður en vandinn er að lifa af því að vera listamaður. Það er ekki nóg að vinna að list með vinnu, það er full vinna að vera að skapa. Ég er dugleg, en ég þarf að muna að ég get verið listamaður. Það er líka dugnaður. Ég mála stundum fallegt kvöld á striga eða lauf, lauf eru falleg eins og þau eru. Og stundum verð ég stressuð yfir að vera ekki þessi uppreisnargjarni, gagnrýni listamaður sem segir eitthvað alveg nýtt. Núna er ég að reyna að muna að ég þarf ekki að vera öðruvísi en ég er.“


„Suma daga er ég að túlka fyrir fólk. Það kemur mér á óvart hvað eru margir sem búa hér í Reykjavík og hafa lítið samband við aðra en Pólverja og og umgangast ekki Íslendinga.

„Mig langar að tengja saman fólk og nýta það sem ég kann: Kenna á myndlistarnámskeiðum á íslensku, ensku og pólsku þannig að það geti komið fólk af mörgum þjóðernum. Listin er tjáning og ég held að það séu margir einmana en vita ekki hvernig þeir eiga að kynnast öðru fólki. Myndlistin er góð leið til að tengja fólk.“
Agnieska Majka, list, menning, Lilja Magnúsdóttir, Kirkjubæjarstofa, pistill, landsbyggð, Suðurland, Kirkjubæjarklaustur, Vík í Mýrdal, úr vör, vefrit
Agnieska Majka hengir upp verk eftir sig á Kirkjubæjarstofu. Ljósmynd Lilja Magnúsdóttir


Commentaires


bottom of page