top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Mokkakönnur í straumalandi

Updated: Nov 1, 2019


Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, náttúra, rafmagn, úr vör, vefrit, Vestfirðir
„Þú elskar kannski fjöllin, fossana, gróðurinn og hafið – sem gefa og taka – en þér hugnast hvorki að lúta í lægra haldi fyrir þeim né að daga uppi sem spesímen í sýningarskáp.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þú stendur í vinnuskyrtunni við eldavélina og starir stíft á mokkakönnuna einsog það eitt og sér muni flýta fyrir lagningunni. Kannan muni nú umsvifalaust bregðast við, taka að ýla og frussa svo upp úr sér rjúkandi heitu eldsneytinu sem kemur þér í gegnum daginn. Þú ert kannski ekki stór karl í lífinu en þú ert verkstjórinn í þessari kaffiframleiðslu og þú veist að það dugir ekkert á undirsáta þína annað en grjótharður aginn – þegar það rennur upp fyrir þér að gasið hefur klárast. Loginn puðrar eilítið einsog hann skammist sín fyrir að gefast upp, fyrir að bregðast þér, óttist yfirvofandi ávítur, og svo slokknar hann bara. Kaffikannan stendur kyrr á stálgrindinni og þú bærir ekki á þér frekar en þetta hafi ekki gerst. Einsog þú vonir að ef þú sýnir næga festu þá finni hellan hjá sér örlítið meiri eld – smá gasslettu. Þetta sé bara spurning um vilja.


Klukkan er ekki margt og þú ert ekki viss um að þú höndlir þetta. Þú ert ekki viss um að þú eigir aukakút í bílskúrnum og þú þorir eiginlega ekki að athuga það. Þetta kveikir alls kyns óþægilegar minningar um kaldar jólasteikur á níunda áratugnum, rafmagnsskömmtun og dauðaleit að sprittkertum og vasaljósum í kolniðamyrkri, á meðan úti gnauðar vindur og brakar í snjóhengjum.


Upp gjósa líka áfallastreitu- og árátturaskanirnar sem þú reynir að bæla í hvert sinn sem einhver nefnir raforku og Vestfirði í sömu setningunni; gaggið úr allra handa áróðursmaskínum sem minna á ýlið sem þú saknar úr mokkakönnunni. Virkjaðu, þú sérð eftir því; virkjaðu ekki og þú sérð eftir því; virkjaðu eða virkjaðu ekki, þú munt sjá eftir því. Hér verður engin náttúra ef það verður rafmagn; hér verður ekkert rafmagn ef það verður náttúra; það er nóg til af rafmagni fyrir alla og nóg til af náttúru fyrir alla en samt eru bæði náttúran og rafmagnið búin.


Þú veist að sá sem býr við enda rafmagnslínunnar fær ekkert rafmagn ef það klárast á leiðinni – þetta er lógík hins frjálsa markaðar og verði þér bara að góðu, þetta vildirðu. Þú veist líka að það er heillavænlegast ef fólk fær sjálft að taka mikilvægar ákvarðanir um nærumhverfi sitt og þú veist sömuleiðis að það er álíka langt frá Árneshreppi til Reykjavíkur og frá Árneshreppi til Ísafjarðar og í átökunum virðast þeir einir mætast sem gert hafa frekjuna að afreksíþrótt.


Þú treystir ekki kapítalinu – kapítalið lýgur án þess að hika. Orkufyrirtækinu þínu er alveg jafn sama um þig og bankanum er sama um þig. Eðli kapítalsins er að troða sér inn í allar glufur til að framleiða peninga, nokkurn veginn sama hvað það kostar, og þér finnst ekkert sennilegra en það sé alveg rétt sem haldið er fram að öll ný raforka fari í rafmyntarframleiðslu sem kemur þér ekki við, meiri stóriðju á suðvesturhorninu og fleiri Teslur fyrir fleiri auðkýfinga. Það er ósennilegt að þú fáir raforku til að knýja skemmtiferðaskipin á höfninni, svo þau þurfi ekki að keyra á olíu og það er ósennilegt að þú losnir við að keyra díselstöðina í Bolungarvík þegar Vesturlínan bregst. Það er kannski í mesta lagi að þú fáir kalkþörungaverksmiðju í Súðavík af því það er gott fyrir kapítalið og kapítalið gerir aðallega bara það sem er gott fyrir sig sjálft.


En þú treystir ekki heldur hugsjónamönnum sem segjast svellkaldir myndu gera hvað sem er fyrir málstað ósnortinnar náttúru – sá sem svindlar í sveitarstjórnarkosningum er sennilega ekki yfir það hafinn að halla svolítið máli til að ná sínu fram – og þú veist vel að stundum liggja mörk þessarar ósnortnu náttúru ansi nálægt byggðinni þinni. Þú vilt ekki búa í friðlandi – og þú veist að friðland á ekkert skylt við ósnortna náttúru, friðland er safnvæðing náttúrunnar en ósnortin náttúra er villt. Þú elskar kannski fjöllin, fossana, gróðurinn og hafið – sem gefa og taka – en þér hugnast hvorki að lúta í lægra haldi fyrir þeim né að daga uppi sem spesímen í sýningarskáp.


Það er langt síðan rafmagnið fór í meira en korter, þökk sé díselstöðinni, og þú þarft ekki að ganga mikið lengur en það til að koma í fullkomlega ósnortna náttúru. Eins ósnortna og hún verður, þessi náttúra – ósnortin af mannshönd þangað til þú kemur. Þú vilt lifa í sátt við umhverfi þitt en helst ekki þannig að þú þurfir að búa við umferðarhnút í Reykjavík á milli þess sem þú lítur vestur í góðum veðrum til að hlaða batteríin; það er ekki jafnvægið sem þú leitast eftir. Þú ert heldur ekki aðskiljanlegur frá náttúrunni – þú ert ekki eitthvað annað. Það skiptir máli. Meira að segja umferðarhnúturinn er einhvers konar náttúra.


Þú veist ýmislegt og þú veist að þú veist minna en þú heldur, en þú veist ekki endilega minna en margir sem halda að þeir viti meira – sá sem heldur að hann viti mest, veit ekki alltaf mest – og þú veist umfram allt annað að þú getur engum treyst og það er ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun nema hafa klifið upp um öll helstu fjöll, gægst undir alla helstu steina og tekið – að lágmarki – bakkalárpróf í eðlisfræði, annað eins í rafmagnsverkfræði, já og leiðsögumanninn auðvitað. Þetta skapar ákveðin vandræði. Þú færð aukastig ef þú hefur komið í kjarnorkuver eða séð breiður af vindmyllum út um lestarglugga á meginlandinu. Þú færð mínusstig fyrir að borða nautakjöt og fljúga til útlanda. Aukastig ef þú hefur ort í sandinn en mínusstig ef þú hefur teiknað typpamyndir í mosann.


Þú ert ennþá í vinnuskyrtunni – hún er kannski hvít, kannski köflótt, kannski rósótt – og kaffið er enn ekki til. Þegar þú hefur staðið kyrr við eldavélina í fáeinar mínútur losarðu efstu töluna á til að eiga betra með að anda, sleppir störunni, tekur eitt skref aftur og dæsir. Svo lyftirðu mokkakönnunni af gashellunni, færir hana yfir á spanið, kveikir undir og andar léttar. Þetta verður áreiðanlega alltílagi.Comments


bottom of page