top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Með beinstífan bitlinginn

Updated: Nov 1, 2019


Eiríkur Örn Norðdahl, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit, pistill, landsbyggðin, göng, fjöll, náttúra
Um þessi götóttu fjöll berast þér síðan gestir. Þeir koma í fríum sínum til þess að hlaða rafhlöðurnar sem þeir hafa tæmt í Kringlunni og Þjóðleikhúsinu – ef ekki hreinlega á Landsspítalanum – með því að leggjast flatir í mosann og naga strá meðan lognið stjakar við skýjunum. Ljósmynd Aron Ing Guðmundsson

Eftir dálítinn spöl kemurðu, líkt og endranær, að fjalli. Fjallið er svo hátt að ekkert kemst yfir það nema fuglinn fljúgandi. Það er þýðingarlaust fyrir þig að snúa við eða reyna að fara fyrir það; það eru fjöll í allar áttir nema þar sem haf og guð veit hvað er handan við hafið. Þannig er lífið bara og kemur heldur ekki að sök því þú elskar fjöllin, þau fylla þig losta, þú óskar einskis frekar en að stinga þér á kaf í þau með dínamítsstautinn einsog stafnmey á undan þér og skríða svo fullnægður út í grjótmulninginn og dagsbirtuna í næsta firði. Þetta er gangur lífsins, svona er þetta bara, guði sé lof fyrir dagsljósið, mulninginn, gatið, guði sé lof fyrir frygðina og guði sé lof fyrir órofnar þunganir þessa fjalls. Legg ég svo á og mæli um.


En ástin er stutt og gleymskan löng, líkt og skáldið og orti, og þú ert vart kominn í gegnum eitt fjall þegar annað eins, ef ekki hreinlega illvígara, verður á vegi þínum og þannig koll af kolli. Öll særa þessi fjöll fram í þér karlmennskuna. Einsog sjálf brekkan ögraði Sýsifosi og gaf honum tilgang æsa þau upp í þér loftbor þíns innra lífs. Þegar þú gerir ekki gat til að komast áfram rífurðu upp úr pússi þínu skurðgröfuna og „ristir firðina á hol“ – einsog það heitir á tyllidögum – leggur veg meðfram fjörunni, ryður burt landnámsskógum og álfasteinum og stundum hreinlega brúarðu fjörðinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífríki sjávar. Því sá sem kemst ekkert, sér ekkert, upplifir ekkert, staðnar og deyr sem heimskur heimalningur, háðsmatur hinna sigldu handan fjarðarins.


Þetta er eðli þitt, þú getur ekkert að þessu gert, þig langar að komast í Kringluna, þín bíða frumsýningar í Þjóðleikhúsinu, þú átt bókað rúm á gistiheimili á gamla beisnum og ekki notarðu tveir-fyrir-einn tilboðin sem bankinn gaf þér á veitingastöðunum heima hjá þér, þar eru engin útibú, hvorki frá bankanum né veitingastaðnum. Í borginni bíða þín líka sérfræðilæknar sem ætla að laga á þér hnén, rétta í þér tennurnar, skera úr þér krabbann og krukka í lúinni sálinni á þér. Í borginni bíða þín pótintátar valdsins, þar eru veskin og fjárhirslurnar, þar drjúpa tilskipanir af hverju strái og þar bresta lagabálkar í söng. Það liggja allir vegir til Rómar, þetta vitum við, og ef þeir liggja ekki til Rómar er það bara vegna þess að þetta hefur eitthvað tafist á vegaáætlun; sennilega hefur borist kæra frá einhverri velviljaðri sál sem á mikið hjarta en annars lítið undir þessum samgöngum annað en útsýnið úr sumarbústaðnum. Öll erum við þjóðníðingar, öll landráðamenn, öll frelsishetjur.


Um þessi götóttu fjöll berast þér síðan gestir. Þeir koma í fríum sínum til þess að hlaða rafhlöðurnar sem þeir hafa tæmt í Kringlunni og Þjóðleikhúsinu – ef ekki hreinlega á Landsspítalanum – með því að leggjast flatir í mosann og naga strá meðan lognið stjakar við skýjunum. Þetta gerir að sögn kraftaverk fyrir sál og líkama og fyrir það borga þeir glaðir stórfé fyrir morgunmat á hótelinu og blett til að tjalda á en alltaf snúa þeir samt aftur í Kringluna þar sem allir fá vinnu við sitt hæfi og notið hins fjölbreytilega mannlífs og gleðilega nafnleysis þar sem ekki standa hnýsnar kellingar á hverju götuhorni og þröngsýni þorparans plagar ekki vegfarendur – já, nei, þeir steypa sér alltaf jafn harðan aftur í gegnum fjöllin eins fimlega og þeir birtust. Því hver á annars að fjölga akreinum á Miklabrautinni eða setja Keflavíkurveginn í stokk? Með hverju á eiginlega að fylla bílastæðahúsin ef bílarnir eru allir að spóka sig í dreifbýlinu? Hver á að borga í mælinn? Ekki gerir þú það.


Ysinn veldur þér kvíða og þreytu en framkvæmdagleðin blæs þér þrótti í brjóst og ekki alltaf ljóst hvort er hvað fyrren þú ert annað hvort á barmi taugaáfalls eða iðandi af lífsgleði. Þannig er þetta bara, sådan er livet, einsog þeir segja í dönskukennslubókunum, og eðlið lætur ekki að sér hæða. Beggja vegna við þessi göng búa hartnær fjögur hundruð þúsund manns sem kunna ekki að hlaða rafhlöðurnar öðruvísi en að fara í gegnum þau – og þau liggja að uppsprettum, fossum, fjallvegum, jöklum og jarteiknum í báðar áttir. Það er ekkert öðrumegin við þessi göng sem er ekki hinumegin við þau líka; þau svo gott sem tvöfalda veröldina, margfalda sjóndeildarhringinn með sjálfum sér og veggfóðra hann með litríki mannlífsins í nafni hins beinstífa bitlings sem rak fjallið í gegn, rétt einsog ég margfaldast við það eitt að sjá framan í þig.


Svona er nefnilega lífið, við erum meiri fyrir að sjást.



Comments


bottom of page