top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Engin flík eins


Litla Sif, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Sigríður Sif og Marta Sif, stofnendur Litlu Sifjar. Ljósmynd Litla Sif

Vísir að virkilega skemmtilegu verkefni var að skjóta upp kollinum tiltölulega nýlega á Ísafirði. Vinkonurnar Marta Sif Ólafsdóttir og Sigríður Sif Gylfadóttir eru að fara af stað með framleiðslu á barnafatnaði, vettlingum og fjölnota veisluskrauti gerðu úr endurnýttu textíl efni. Marta Sif er vöruhönnuður og Sigríður Sif hefur vakið athygli fyrir prjónavörurnar sínar undir merkinu Ívaf og ákváðu þær að sameina krafta sína undir merkinu Litla Sif. Verkefnið er á byrjunarreit og hafa þær sótt um styrk til framleiðslunnar og stefna á að vera komnar á fullt í sumar. Þangað til er ætlunin að vera með fyrstu vörurnar tilbúnar um komandi páska.


Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til Mörtu á dögunum til að forvitnast um hvernig hugmyndin að verkefninu kviknaði og hvernig gengur.

Litla Sif, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Gömul föt eru endurnýtt á skemmtilegan hátt. Ljósmynd Litla Sif

„Við vorum búnar að vera að ræða saman um ýmsa hluti sem tengjast umhverfismálum og hvernig það tengist fatnaði og neysluvenjum. Við vorum að hugsa hvað væri hægt að gera hér fyrir vestan og nýta þá kosti sem maður hefur í svona litlu samfélagi. Og allt í einu vorum við komnar á fund til að ræða styrktarumsóknir og ég hugsaði bara; „Hvernig gerðist þetta?“ Þetta gerðist bara allt í einu!“ segir Marta og hlær.

Sem fyrr segir er verkefnið komið stutt á leið og ákváðu þær að byrja að vekja athygli á þessu á samfélagsmiðlum. Þar leyfa þau fólki að fylgjast með og óska eftir gömlum flíkum sem eru orðnar of litlar, götóttar eða slitnar. Marta segir að viðtökurnar hafi verið virkilega góðar og að verkefninu sé sýndur mikill áhugi.

Litla Sif, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Hægt er að koma gömflum flíkum á vinnustofu Mörtu og Sigríðar. Ljósmynd Litla Sif.

„Margir hafa gefið okkur lopapeysur og í svona litlu samfélagi þá er auðvelt að nálgast fólk og fá viðbrögð á skömmum tíma. Við höfðum líka samband við Vesturafl sem er með nytjamarkað hér og erum með samstarf við þær. Það er með þannig hætti að við fáum það sem þær vilja ekki selja hjá sér og fáum að fara í gegnum pokana hjá þeim áður en þeir fara í Rauða Krossinn.“ segir Marta.

Hún bætir við að fólk megi endilega koma með efni til þeirra, hvort sem um er að ræða almennan fatnað eða notaðar lopapeysur. Einnig er hægt að hafa samband við þær stöllur í gegnum samfélagsmiðlana varðandi þetta.

Litla Sif, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Einnig verður veisluskraut úr endurnýttu efni fáanlegt hjá Litlu Sif. Ljósmynd Litla Sif.

Marta og Sigríður eru báðar aðfluttar og eiga ísfirska menn. Marta segir að þær vinkonur elski báðar að vera fyrir vestan og að það séu nánast bara kostir við að vera þar. Hún segir að þær séu að gera hluti sem væri án efa erfiðara að gera í borginni. „Hér er allt í göngufæri og styttri og auðveldari leiðir til fólks líka. Ég veit hreinlega ekki hvort við hefðum farið af stað með þetta í höfuðborginni.“ Marta segir að hún og maður hennar séu tiltölulega nýflutt til landsins frá Hollandi og ætluðu þau að fara til Reykjavíkur fyrst.

„Við erum bæði listafólk og viljum hafa frelsi til að vinna við það en þurfum örugga innkomu líka. Og við sáum það fyrir okkur að ef við værum í Reykjavík þá værum við bara að vinna einhverstaðar í 100% starfi og það yrði enginn peningur eftir til að vera með vinnustofu eða hafa tíma til að vera þar. En maður hefur þann kost hér að geta verið í lægra starfshlutfalli.“ segir Marta.

Markmið þeirra er svo að opna búð á vinnustofunni sinni í sumar og vera með vefverslun þaðan. „Það er líka skemmtilegt á svona svæði að vera með verslun sem er með barnaföt þar sem engin flík er eins, allt verður einstakt og það er sérstaklega skemmtilegt á litlum stað sem þessum.“ segir Marta Sif að lokum.



Comments


bottom of page