top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Lífið á landinu bláa


Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, lífið á landinu bláa, covid19, 2020, nýtt ár, nýjar vonir, 2021, úr vör, vefrit
„Ég er ákveðin í að gefa öllum árum jafnt vægi og stilla mína strengi svo að framtíðin hljómi ljúflega og nýta tækifærin sem koma og skella í góðan hitting með fólkinu í kringum mig þegar mig langar til.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Ákveðin ártöl eru fyllt miklum ljóma hjá mér og ég geri mér enga grein fyrir hvort ég deili þessu með fleirum. Ártöl eins og 1900, 1940, 1980, 2000 og 2020 hafa yfir sér einhvern ljóma hjá mér þrátt fyrir að í sögulega samhengi hafa þau varla verðskuldað aðdáun mína. Árið 2000 fannst mér vera stórkostleg tímamót en alls kyns hrakspár um að öll tölvukerfi heimsins myndu hrynja og aðrar bölspár náðu þó að slá á mestu spennuna.


Það kom svo í ljós að við máttum vel gleðjast og vera spennt fyrir þessum tímamótum. Árið 2000 fyrir mér er einskonar upphaf af því þegar heimurinn þjappaðist, ferðalög á ókunnar slóðir urðu aðgengileg almenningi um allan heim og ekki síst að það fóru að flæða upplýsingar um heiminn í slíku magni að hvert minnsta frávik á ólíkum kimum heimsins komust í fréttirnar.

Margur telur að niðurstaðan sé „heimur versnandi fer“ en þegar allt er skoðað í samhengi og tölfræðinni er bætt inn í er niðurstaðan „heimur bestnandi fer“ og við erum upplýstari. Þegar það svo er sagt vil ég vekja athygli á að við erum á réttri leið þó það sé margt sem við getum gert enn betur.

Það voru engar bölspár í gangi fyrir árið 2020 og því var ekkert sem hafði slegið á væntingar mínar. Stórafmæli í vændum, brúðkaupsafmæli og stórkostlegt ferðalag til Tælands fyrir utan allt hitt sem gerir lífið svo ljómandi ljúft. Fyrst það voru engir bölsýnismenn til að slá á væntingarnar varð það mjög óvænt sem kom upp úr áramótahattinum þetta árið. Veira sem skók heimsbyggðina og neyddi okkur til að fylgja allskyns reglum og virtust koma nýjar reglur um hegðun vikulega.


Ég bjó í Tælandi fyrir margt löngu og á þar fjölskyldu sem tók mér eins og ég var og hugsaði um mig af mikilli ást og umhyggju. Átján ára skiptinemi frá Íslandi sem kunni í fyrsta lagi enga “mannasiði” á tælenska mælikvarða, hafði aldrei heyrt að menn væru á einhvern hátt æðri konum og kunni í raun enga “mannasiði” aðra en þá sem ég hafði lært heima á Íslandi sem ég þóttist þó hafa náð ágætis tökum á.


Það var því menningarsjokk fyrir mig að læra að mannasiðir eru í raun fyrirfram ákveðnar “umferðareglur” í samskiptum og það að fara eftir þessum reglum í hverju samfélagi fyrir sig er aðgöngumiðinn þinn. Siðarreglur í Tælandi er mjög skýrar og virðast endalausar og mikið lagt upp úr að allir læri þær allar. Á Íslandi vonumst við aftur á móti einlæglega til að samfélagsreglurnar síist inn þó þær verða sífelt óskýrari eftir því sem við erum duglegri að ferðast og tileinka okkur nýja siði og fara að eigin geðþótta.

Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, lífið á landinu bláa, covid19, 2020, nýtt ár, nýjar vonir, 2021, úr vör, vefrit
„Flugeldasýningunni minni fyrir árið 2020 er lokið, framtíðar flugeldasýningin er aðeins lágstemmdari en mun vara um ókomin ár og ég er full tilhlökkunar fyrir lífinu á landinu bláa.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson
Ég fékk einhverskonar skiptinema “endurupplifun” í vor þar sem ég ráfaði um í íslensku samfélagi, samfélagi sem ég taldi mig hafa mikla þekkingu á. Ég vissi aldrei hvort ég væri að gera rétt eða rangt, hvort það hefðu komið ný tilmæli þennan daginn eða ekki. Erum við komin aftur í reglurnar sem giltu fyrir mánuði? Og hvaða reglur voru það nú aftur?

Unga fólkið sem var að fara að taka flugið út í lífið var vængstífað og skyldað til að sitja heima meira eða minna allt árið 2020. Ég er full aðdáunar á þessu unga fólki sem mátti ekki hitta jafnaldra sína, borða saman, fara á tónleika bara að vera og gera allt það sem ungt fólk gerir í framhalds- og háskólum.


Hjúkrunarheimilin hafa verið meira og minna lokuð allt árið og aðeins einn til tveir aðstandendur mátt heimsækja fólkið sitt. Allir hinir börn, vinir og ættingjar hafa þurft að halda sig fjarri en nú er mál að linni. Bólusetningar hófust á hjúkrunarheimilum á síðustu dögum ársins 2020 og því ljóst að öruggasti staðurinn til að fara á ef mann þyrstir í félagsskap í byrjun árs eru hjúkrunarheimili landsins þar sem allir hafa verið bólusettir. Svo er bara að bíða rólegur eftir að röðin komi að okkur hinum.

Árið 2020 hefur kennt mér margt. Í fyrsta lagi að taka því ekki persónulega þó að allir þeir viðburðir sem mig dreymdi um á árinu hafi fallið niður. Í öðru lagi að muna að það var notalegt að minnka hraðann á hversdagslífinu og enginn pressa á þig að fara nokkurn skapaðan hlut, helsta dyggð ársins var „haltu þig heima“.

Í þriðja lagi lærði ég að lífið á Íslandi varð í raun eins og að búa í stórborg þar sem þú kinnkaðir kurteislega kolli yfir götuna til nágrannans og brostir en þorðir ekki fyrir þitt litla líf að brjóta múrinn og ræða lífið og tilveruna.


Talandi um Tæland, þar lærði ég líka í anda búddismanns að það mikilvægasta er að finna jafnvægið. Strengurinn má ekki vera og stífur og ekki of slakur heldur verður að vera akkúrat til að ná hinum fullkoma tón í lífunu. Nýársdagur er nýtt upphaf og mikilvægt að gera sittlítið af hverju því sem þú vilt að einkenni nýja árið. Eitthvað hef ég gert rangt fyrir ári síðan og mun því vanda mig enn meira 1. janúar 2021.

Ég er ákveðin í að gefa öllum árum jafnt vægi og stilla mína strengi svo að framtíðin hljómi ljúflega og nýta tækifærin sem koma og skella í góðan hitting með fólkinu í kringum mig þegar mig langar til. Flugeldasýningunni minni fyrir árið 2020 er lokið, framtíðar flugeldasýningin er aðeins lágstemmdari en mun vara um ókomin ár og ég er full tilhlökkunar fyrir lífinu á landinu bláa.Comments


bottom of page