top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Lausnamótið Hacking Hekla


Hacking Hekla, lausnamót, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, nýsköpun, úr vör, vefrit
Raunverulegt tengslanet stóð mér nú opið, ég sá að bardaginn sem ég var í hafði áður verið háður og mér fannst ég ekki lengur ein.“ Ljósmynd frá Hacking Hekla

Lausnamót eða hakkaþon (e. hackathon) er viðburður þar sem einstaklingar eða teymi keppast um að finna lausnir á afmörkuðu mengi vandamála. Lausnamótsformið á upptök sín innan tæknigeirans og hefur um langa hríð verið notað sem leið til að knýja fram lausnir vandamála á sem skemmstum tíma. Enska orðið hackathon er samtvinnað orðunum „hack“ og „maraþon“ þar sem hack stendur fyrir tilraunakennda lausnaleit sem brýtur til mergjar vandamál og orðinu marathon sem stendur fyrir tímaramma viðburðarins sem yfirleitt varir aðeins í einn til tvo sólahringa.

Lausnamót hafa áður verið haldin hér á landi en Hacking Hekla er fyrsta lausnamótið sem ferðast hringinn í kringum landið. Markmið þess er að þróa sjálfbærar lausnir á staðbundnum vandamálum landsbyggðarinnar.

Sporgöngukona Hacking Hekla er hin þýska Magdalena Falter sem fyrst kom til landsins sem forfallin áhugamanneskja um íslenska hestinn. Áhugamálið vatt fljótt uppá sig og hún hafði ekki dvalið lengi í Fljótshlíð við að temja hesta þegar hún skráði sig í doktorsnám við Háskóla Íslands til að rannsaka frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi á landsbyggðinni með áherslu á ferðaþjónustu.

Magdalena segir að til að byrja með hafi hugmyndin að lausnamótinu farið hægt af stað og henni hafi fundist svolítið erfitt að fóta sig sökum þess að vera ný innan fagsins og þar að auki af erlendu bergi brotin. En hún segir boltann svo hafa farið að rúlla fyrir alvöru þegar hún tók þátt í málþingi um nýsköpun á landsbyggðinni á vegum nýsköpunar- og samfélags-miðstöðvarinnar Blábankans á Þingeyri undir stjórn Arnars Sigurðssonar. Þar fann hún sig skyndilega innan um hóp fólks sem var svipað þenkjandi:

„Allt í einu skildu allir hugmyndina. Þetta var mikill vendipunktur og þaðan byrjaði allt að byggjast upp. Raunverulegt tengslanet stóð mér nú opið, ég sá að bardaginn sem ég var í hafði áður verið háður og mér fannst ég ekki lengur ein.“
Hacking Hekla, lausnamót, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, nýsköpun, úr vör, vefrit
Teymið í kringum Hacking Hekla, frá hægri Magdalena Falter, Arnar Sigurðsson og Svava Björk Ólafsdóttir. Ljósmynd frá Hacking Hekla

Fleiri samstarfsaðilar drógust fljótt að verkefninu. Svava Björk Ólafsdóttir stofnandi RATA kom fyrst að sem leiðbeinandi fyrir þátttakendur lausnamótsins en hefur síðan staðið við hlið Magdalenu við skipulagningu og utanumhald. „Ég byrjaði ein í þessu en á mjög stuttum tíma hafði ég svo marga í kringum mig. Þetta var eins og segull fyrir kraftmikið fólk. Það er svo góð tilfinning að hafa svo marga sem toga reipið í sömu átt“ segir Magdalena. Með auknum slagkrafti setti hún sig í samband við alla sem hún taldi geta haft áhuga á hugmyndinni og mætti hún áhuga og velvilja hvar sem niður bar. „Allir voru svo reiðubúnir til að hjálpa og bjóða sig fram til að halda erindi eða vera leiðbeinendur í lausnamótinu. Það var kannski tilfinningin um að vera hluti af einhverju mikilvægu sem dró fólk að.“

Sprotafyrirtækið Austan mána, sem Arnar Sigurðsson stofnaði, er annar samstarfsaðili Hacking Hekla, en lausnamótið fer að mestu fram í gegnum vettvanginn Hugmyndaþorp sem Austan mána þróar. Fyrir utan að halda utanum hugmyndavinnu á skýran og gagnsæjan hátt óháð staðsetningu, þá veitir hugmyndaþorpið möguleika á því að tengja fólk og hugmyndir saman, gefur kost á samsköpun og býður uppá almennan samstarfs- og samskiptavettvang.

Einstaklingar jafnt sem fyrirtæki eða sveitarfélög hafa einnig möguleika á að stökkva á vagninn sjái þeir tækifæri í þátttöku einstakra verkefna og geta þá meðal annars lagt til mannskap, þekkingu, búnað og/eða fjármagn.
Hacking Hekla, lausnamót, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, nýsköpun, úr vör, vefrit
Næsta lausnamót Hacking Hekla verður haldið á norðurlandi helgina 15.-18. apríl og ber nafnið Hacking norðurland. Yfirskrift mótsins að þessu sinni er sjálfbær nýting auðlinda svæðisins með tilliti til matar, vatns og orku. Ljósmynd frá Hacking Hekla

Fyrsta lausnarmót Hacking Hekla fór fram á suðurlandi í október 2020. Þátttakan var góð, verkefnin fjölbreytt og virk umræða myndaðist um áskoranir og lausnir verkefnanna. Tólf hópar eða einstaklingar tóku þátt en vinningsverkefnið er verkefni sem kynnti til leiks hugmyndina að því að einangra frumur úr mangóávexti til að rækta upp hér á landi. Ávinningur þess að hefja ræktun mangós sem þolir íslenskar aðstæður er meðal annars fólgin í því að sporna gegn því mikla vistspori sem innflutningur á mangó hefur í för með sér. Magdalena segist afar stolt af þeim verkefnum sem tóku þátt í fyrsta lausnamótinu og þar hafi fjölmargt spennandi komið fram. Hún segir að ekki megi búast við að fullmótuð verkefni spretti fram eftur þátttöku í svona lausnarmóti en mörg fræ verði til sem síðar geti vaxið og dafnað sé áfram hlúð að þeim.

Næsta lausnamót Hacking Hekla verður haldið á norðurlandi helgina 15.-18. apríl og ber nafnið Hacking norðurland. Yfirskrift mótsins að þessu sinni er sjálfbær nýting auðlinda svæðisins með tilliti til matar, vatns og orku. Í kynningarefni mótsins segir:

„Markmið lausnamótsins er að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum. Lausnamótinu er ekki síður ætlað að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi.“

Frekari upplýsingar um Hacking Hekla og næsta laustarnmót Hacking norðurland má finna á vefsíðu þeirra https://www.hackinghekla.is/ og á Facebook síðunni https://www.facebook.com/HackingHekla. Einnig má kynna sér Hugmyndaþorpið á https://www.xn--hugmyndaorp-pib.is/ og https://www.facebook.com/hugmyndathorp/?ref=page_internalComments


bottom of page