top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Látum verkin tala


Bryndís Sigurðardóttir, pistill, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Í dag eru víðsjárverðir tímar og hafa kannski alltaf verið segir í pistlinum. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson
Það eru viðsjárverðir tímar, það hafa kannski alltaf verið viðsjárverðir tímar, alltaf eitthvað til að hræðast, kvíða, hafa áhyggjur af, stundum með réttu og stundum ekki. Svart virðist alls ekki lengur vera svart né hvítt vera hvítt.

Einu sinni þótti voða fínt og aðdáunarvert þegar „menn létu verkin tala“, rigguðu upp nokkrum blokkum, knattspyrnuhúsi, ráðhúsi, keyptu togara eða banka en smátt og smátt rann upp fyrir flestum að vönduð vinnubrögð og góður undirbúningur væri sennilega farsælli og minni líkur á tjónum. Tjónin reyndust líka oftast lenda á öðrum ekki á verkintalamönnunum.

Einu sinni voru allir sammála um að stóriðja væri málið, framtíðin, nýta landið, auðlindirnar og skapa velsæld fyrir okkur öll en smátt og smátt hefur runnið upp fyrir okkur ljós, stóriðja er ekki framtíðin, þvert á móti.

Því meira sem við framleiðum af áli með ódýrri orku, þeim mun meiri verður sóunin. Stórfyrirtækin hafa snúið á yfirvöld í samningum og greiða sáralítið í sameiginlega sjóði og orkan fer á útsöluverði.

Bryndís Sigurðardóttir, pistill, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Stóriðja er ekki framtíðin að mati greinarhöfundar. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Núna þykir okkur hagvöxtur ákaflega eftirsóknarverður og þeim mun hærri, því betra, en það er eins og pýramídasvindl, hagvöxtur getur ekki hækkað að eilífu, það hlýtur að enda með ósköpum. Fyrir utan að hagvöxtur mælir bara hversu hratt við hlaupum á hjólinu, hagvöxtur mælir ekki hamingju, lífsfyllingu, ekki árangur í baráttu við sjúkdóma, hungur, illsku eða heimsku. Hagvöxtur mælir ekki árangur okkar í nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti eða hvort við höfum minnkað sóun eða fátækt.

Við þurfum hugarfarsbreytingu, við þurfum að meta allt sem við gerum, allt sem við framkvæmum með öðrum mælistikum en við höfum notað hingað til. Áhrif á umhverfið þarf alltaf að vera viðmiðið, það þarf að finna nýjar lausnir og það þarf að láta verkin tala en þó með vönduðum undirbúningi og meðvituðum ákvörðunum.
Bryndís Sigurðardóttir, pistill, náttúra, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Áhrif á umhverfið þarf alltaf að vera viðmiðið segir Bryndís í pistlinum. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Hvaða orkugjafi er náttúrunni hagfelldastur því orku verðum við að hafa og hvernig ætlum við að nýta hana, hefði kannski verið betra að byggja risa gróðurhús á Austurlandi og nýta þannig orkuna frá Kárahnjúkavirkjun. Hvaða fæðu viljum við framleiða og hvers vegna því mat þurfum við, hvaða möguleika hefur okkar kalda land til dæmis í framleiðslu grænmetis. Hvaða afleiðingar hefur það ef við leggjum af kjötframleiðslu og hvað á að koma í staðinn. Hvaða atvinnugreinar viljum við leggja áherslu á því allt sem við gerum hefur áhrif á umhverfið.

Hafi einhvern tímann verið þörf á frumkvöðlum og skapandi hugsun þá er það nú, það þarf að aðlaga siglingu þjóðarskútunnar að kröfum náttúrunnar og mögulegrar framtíðar með afgerandi hætti og það verður ekki gert með gömlum aðferðum. Markmiðið er að breytast, það er ekki lengur að gera sem mest heldur nýta sem best.
Bryndís Sigurðardóttir, pistill, landsbyggðin, frumkvöðlar, úr vör, vefrit
Þörfin er mikil fyrir frumkvöðla og skapandi hugsun. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Við verðum að horfast í augu við staðreyndir og allar aðgerðir verða að byggjast á raunverulegum vísindum og vönduðum rannsóknum. En að gera ekki neitt er ekki lengur í boði.



bottom of page