top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Konungsríkið fyrir kórónu


Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, kórónuveira, covid19, Ísland, úr vör, vefrit
„Þú þværð þér um hendurnar og horfir á fréttatímann. Náfölir stjórnmálamenn og sérfræðingar segja þér að slappa af. Þetta sé allt undir kontról. Þú reynir að gera að gamni þínu til að létta stemninguna og verður miður þín í hvert einasta skipti sem það tekst.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundson

Þú þværð þér um hendurnar. Sýgur upp í nefið. Lítur flóttalega í kringum þig og varpar öndinni léttar. Það er ekkert að óttast. Á heilsugæslunni eru tvær öndunarvélar og þig vantar aldrei nema í versta falli eina. Og samt. Þú svitnar, þurrkar af þér svitann með snýtupappír og sprittar svitaholurnar. Þetta verður alltílagi.


Twitter er á hliðinni. Facebook er á hinni hliðinni. Batteríið í símanum er að klárast. Það eru allir sammála um að ekki sé nóg að gert nema þeir sem eru sammála um að það sé óþarfi að missa sig. Maður byrgir ekki brunninn eftir að barnið er dottið ofan í og maður byrgir ekki brunninn bara að gamni sínu. Maður þarft að komast í þennan brunn; það lifir enginn vatnslaus nema í þrjá sólarhringa og það er búið að gefa út fyrirmæli um að allir eigi 14 daga birgðir ef þeir skildu lenda í sóttkví. Jafnt af vatni, sem bökuðum baunum og stroganoffi.


Þú þværð þér um hendurnar og horfir á fréttatímann. Náfölir stjórnmálamenn og sérfræðingar segja þér að slappa af. Þetta sé allt undir kontról. Þú reynir að gera að gamni þínu til að létta stemninguna og verður miður þín í hvert einasta skipti sem það tekst. Þetta er ekki tími fyrir neitt glens. Þú fálmar eftir svartari húmor, ljótari skrítlum, minna fyndnum og meira fyndnum, einsog maður sem er að drukkna í eigin kvíða. Þú hlærð móðursýkislega og það myndast horbóla við vinstri nösina á þér. Það líður yfir nærstadda. Þú þurrkar þér í ermina, setur upp sparisvipinn, festusvipinn, þennan sem tekur þessu alvarlega og börnin þín bresta í grát. Þið eruð öll að verða eitthvað litlaus í framan.


Þú þværð þér um hendurnar. Klórar þér í nefinu og þværð þér um hendurnar. Opnar dyr og þværð þér um hendurnar. Keyrir innkaupakerru og þværð þér um hendurnar. Ferð á klósettið og þværð þér um hendurnar. Borar í nefið og þværð þér um hendurnar. Rennir fingrunum í gegnum hárið og þværð þér um hendurnar. Nýrð þér um gagnaugun og þværð þér um hendurnar. Knúsar börnin þín og þværð þér um hendurnar. Sofnar í sófanum og þværð þér um hendurnar – af því að nývaknaður veistu ekkert hvar þær hafa verið. Þú ferð í vettlinga og sprittar vettlingana. Ferð í lúffur yfir vettlingana. Sprittar lúffurnar.


Þú þværð þér um hendurnar og veltir því fyrir þér hvort sé verra, afleiðingarnar eða afleiðingarnar af afleiðingunum? Kórónavírusinn, kreppan eða kaosið? Þú treystir yfirvaldinu og samfélaginu eða þú treystir engu. Þú veist betur en að treysta yfirvöldum og þú veist líka betur en að vantreysta þeim. Það eru engar alveg réttar ákvarðanir, öll svör eru svolítið vitlaus og hæsta einkunn sem gefin verður á þessu prófi er 4,5. Já og þetta er klásus, það munu ekki allir ná.


Þú þværð þér um hendurnar og gerir einsog þér er sagt og lætur ekki leiða þig slævðan af áróðri til glötunar. Efnahagshrunið blasir við og bara spurning hver lifir að sjá það.

Þú þværð þér um hendurnar. Sprittar þig. Hóstar í olnbogann og lítur upp. Þú ert í Bónus. Þú stendur við klósettpappírsrekkann og fólkið sem rétt í þessu tróðst hvert um annað þvert til þess að ná síðustu deluxe-rúllunum hefur staðnæmst í sporunum. Það starir á þig stórum glyrnum, starir út í loftið sem skilur ykkur að, rýnir í sameindirnar. Er þetta munnvatnsúði sem perlar á innanum súrefnisagnirnar? Dropasmit, lífsýni, vessar? Er þetta hor á gólfinu? Þú lætur handlegginn falla og augu viðstaddra fylgja slefblautri olnbogabótinni; þeir bakka varlega út, einn af öðrum, og á eftir þeim fer starfsfólkið en þú stendur kyrr, einsog í draumi.


Að síðustu, þegar þú ert einn eftir í búðinni, einn í dauðaþögninni, einn í bænum, firðinum, fjórðungnum og einn í heiminum, teygirðu handleggina – nýþvegna og angandi af spritti – leiftursnöggt í síðustu pakkninguna af þessum blessuðu deluxe-rúllum og varpar öndinni léttar.


Þú ert með einhver ónot í maganum en núna verður þetta alltílagi.



bottom of page