Ann-Marie Schlutz er ung stúlka frá Þýskalandi sem hefur verið á Íslandi í næstum þrjú ár. Hún er með skemmtilegar hugmyndir varðandi kindaostaframleiðslu og heyrði blaðamaður ÚR VÖR í henni á dögunum til að forvitnast um þetta skemmtilega nýsköpunarverkefni.
Ann-Marie kom hingað fyrst sem ferðamaður og fannst landið afar fallegt og að hennar mati er virkilega skemmtilegt fólk hér. Hún vildi breyta um umhverfi og skipta um vinnu og fannst góð tilbreyting að koma hingað aftur árið 2016 og í það skipti vegna sumarvinnu í Óbyggðasetri Íslands í Fljótsdal á Austurlandi.
Að hennar sögn fann hún það eftir nokkrar vikur að hún vildi ekki fara aftur tilbaka til Þýskalands. Dvöl hennar náði því fram á veturinn og á endanum festist hún hér að eigin sögn. Í dag býr hún og starfar að verkefni sínu hjá tengdafjölskyldu sinni á Egilstöðum inni í Fljótsdal.
Samkæmt Ann-Marie fannst henni skrýtið að sjá svona margar kindur hér á landi en enga kindaostaframleiðslu. Hún segist hafa ferðast um Spán, Frakklandi og Ítalíu og þar er slík framleiðsla mjög algeng. „Ég hef heyrt að það séu vandræði á Íslandi varðandi sauðfjárrækt og að sauðfjárbændur fái ekkert útúr því. Verðin lækka bara og lækka meira og meira.
Tengdafaðir minn er sauðfjárbóndi hér fyrir austan, ég fékk innsýn inn í þá grein og hugsaði með mér: „Af hverju ekki að prófa fyrst heima og halda svo áfram ef það gengur vel?“. Hugmyndin kom fram fyrst fyrir tveimur árum síðan en ég byrjaði að vinna að þessu síðastliðið haust. Fyrst fékk ég tilfinningu fyrir verkefninu hjá tengdafjölskyldunni, þau voru mjög opin fyrir þessari hugmynd og myndi ég segja að þau séu almennt opin fyrir nýjunum.“ segir Ann-Marie.
Ann-Marie segir að tilraunaverkefni varðandi framleiðslu á kindaosti hafi farið fram fyrir 15 árum í Búðardal í samvinnu við Bændaskólann á Hvanneyri. Þá hafi nokkir bændur safnað kindamjólk og að gert ost úr henni. Einnig hafi aðili nálægt Höfn í Hornafirði gert Roquefort sauðaost fyrir 10 árum síðan, en hann hafi svo hætt við framleiðslu. Hún segir að þau tvö verkefni séu einu opinberu verkefnin sem hún viti um, en bendir á að einhverjir hafi verið að gera svona lagað heima hjá sér í litlum mæli.
Ann-Marie segist ekki vita hvers vegna ekki sé meira gert af þessu hér á landi, en grunar að það sé vegna þess hve tímafrek framleiðslan er. Hún segir að lítil mjólk komi úr kindunum, annað en t.a.m. geitum þar sem meira magn komi við mjólkun.
„Þetta er nýsköpunarverkefni og ég er núna í þessu leyfisferli. Það tók smá tíma að finna út hvaða stofnun ég þurfti að leita til. Ég hef verið í sambandi við Matvælastofnun (MAST) og Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST). Þessar stofnanir hjálpa mér af stað en þau þekkja ekki alveg hvernig þesskonar framleiðsla er, þau þekkja meira til vinnunnar varðandi kúaafurðir. En við erum að vinna þetta saman ásamt héraðsdýralækni og sjáum svo hvað setur. Það er enginn sem getur sagt manni að það eigi að gera þetta svona eða svona, því þetta hefur ekki verið gert áður.“ segir Ann-Marie.
Ann-Marie leyfði fólki að smakka afurð sína um jólin á jólamörkuðum til að fá viðbrögð frá fólki. Hún segir að fólk hafi verið hissa fyrst en bætir við að flestir hafi verið ánægðir með útkomuna. Að sögn hennar fer tímalengd framleiðslunnar eftir því hvaða ost þú vilt gera, því hver ostur á sinn feril.
„Osturinn sem ég var að gera er fetaostur og það tekur u.þ.b. einn sólarhring að gera hann. Svo getur maður gert harðan ost sem er hentugri til að skera, það getur tekið hálft ár eða upp í eitt ár, fer eftir því hvaða ost maður er að vinna með. En ég er ennþá í vöruþróunarstíl og er að æfa mig í fetaostinum og er líka að æfa mig með skyr og jógúrt.“ segir Ann-Marie.
Fyrirtækið Ann-Marie og tengdafjölskyldu hennar heitir Sauðagull. Nafnið hefur ákveðna sögu, en í gamla daga komu Bretar til landsins með skipum og þeim var selt kindakjöt. Bændur áttu ekki mikla peninga á þeim tíma og fengu sjaldan aðrar myntir. En þeir fengu myntir frá breskum sjómönnum og kölluðu þessa mynt Sauðagull og þaðan kemur þetta skemmtilega nafn.
Að sögn Ann-Marie er frábært að búa fyrir austan. Hún segist ekki geta hugsað sér að fara af stað með svona verkefni í Þýskalandi og segir að fólk hér á landi sé miklu meira opnari fyrir hugmyndum og meira tilbúið að stökkva af stað með að gera eitthvað nýtt. Hún segist hafa verið afar ánægð með hversu góða endurgjöf varðandi hugmyndina hún hafi fengið hér og ánægð með stuðninginn frá fólki sem hafi ekki hikað við að gefa henni upplýsingar.
„Þýskaland er stórt land, þar er erfiðara að fá allar upplýsingar sem maður þarf. Og þetta væri líka flóknara varðandi mína aðstöðu, ég bjó í stórborg og því er ekki sami aðgangur þar og ég hef hér fyrir austan. Svo held ég að Íslendingar séu jákvæðari fyrir svona hugmynd heldur en þar, þeir eru jákvæðir að eðlisfari. Ég er ekki á leiðinni til Þýskalands í bráð, nema þá bara í heimsókn.“ segir Ann-Marie og hlær.
Ann-Marie segist vonast til að geta komið fram með vöru í lok sumars, en það fari mikið eftir með mjalta-og framleiðsluleyfi. Ef það verði í lagi þá get hún farið að framleiða og selja vöruna.„Sauðamjólk var notuð í gamla daga, þetta er ekki alveg nýtt. Fyrir u.þ.b. 100 árum síðan var hún notuð og mig langaði að koma þeirri þekkingu aftur á og bæta við hana. Mig dreymir um að þetta verkefni gangi. Kannski gengur þetta ekki upp, en mér finnst líka gaman að geta deilt þessari þekkingu sem ég er að safna núna. Þetta er þekking sem fólk getur forvitnast um hjá mér, það getur spurt mig um þetta.
„Ég tel mig vera að undirbúa farveginn fyrir aðra, ég vil ekki virka hrokafull, en ég er að sanka að mér mikilli þekkingu og er tilbúin að deila henni. Mér finnst svo mikilvægt að vinna að og stuðla að nýsköpun.“ segir Ann-Marie að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments