Það er mikil vinna sem fylgir því að undirbúa komu gesta. Síðustu ár hefur verið stanslaus fermingarveisla á Suðurströndinni. Það hefur varla gefist tími til að íhuga hvað á að bera á borð fyrir gestina, hvar þeir eiga að vera eða hvað þeir eiga að fá út úr því að mæta í veisluna. En það eru margir að vinna á bak við tjöldin.
Katla jarðvangur tekur þátt í að undirbúa komu ferðamanna í Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi. Jarðfræði er helsta viðfangsefni þeirra svæða í heiminum sem kallast geopark, jarðvangur á íslensku. Efnt var til samkeppni um nafnið og varð Katla jarðvangur fyrir valinu og er það vel við hæfi þar sem nafna hennar kúrir í Mýrdalsjökli.
Það sem einkennir eldfjallið Kötlu er mikil virkni og það á við um margt annað á þessu svæði. Jöklarnir hopa hratt og það streyma hópar frá öðrum löndum til að fylgjast með, mæla og skoða. Vísindamenn á mörgum sviðum fylgjast með hættu sem getur fylgt breytingunum. Allir muna eftir eldgosinu í Eyjafjallajökli þar sem aska lagðist yfir og olli bændum, en ekki síður ferðamönnum, miklum vandræðum. Vatnselgurinn frá Eyjafjallajökli fyllti farveg Markarfljótsins og mikil tilviljun að stórvirkar vinnuvélar voru til að hindra að vatnið færi yfir tún og engi eða ylli skaða á nýlegri brú við Markarfljótið.
Árið eftir gaus í Grímsvötnum. Gosið stóð í sjö daga en öskumagnið var meira en í fjörutíu daga gosinu í Eyjafjallajökli. Öskufallið var mest í Fljótshverfi og á Síðu, sveitunum austast í Skaftárhreppi. Rúmum átta árum síðar má enn finna fyrir öskunni í loftinu þegar þurrt er í veðri. Skaftárhlaupin 2015 og 2018 voru með þeim stærstu sem orðið hafa og mikill framburður lagðist yfir gróið land. Þegar þornar um er mikill mökkur yfir Eldhrauninu þar sem jökulleirinn birgir sýn til sólar.
Katla jarðvangur nær yfir land sem er eins og kennslustofa í jarðfræði, þar má finna margt sem er einstakt í heiminum. Frá landnámi hafa orðið yfir 150 eldgos á svæðinu. Móberg setur svip á landið en það myndast við eldgos undir jökli eða neðansjávar þar sem gosopið er nálægt vatnsyfirborðinu. Fjöllin fyrir austan eru móbergsfjöll en móberg er sjaldgæft á heimsvísu. Fögrufjöll við Langasjó eru einir stærstu móbergshryggir sem til eru í heiminum.
Allir kannast við Skaftáreldanna og nú er Skaftáreldahraunið, sem oftast er kallað Eldhraun, eitt af því sem vekur mesta athygli ferðamanna. Mosinn á þessari 250 ára gömlu hraunbreiðu er eins og þykk, græn sæng . Mosinn er viðkvæmur eins og svo margt í náttúrunni og hann þarf að vernda og það vilja menn gera með fræðslu.
Jarðvangar eiga það sammerkt að þar er mikið af jarðminjum. Katla jarðvangur stefnir að opnun fræðslu- og upplýsingamiðstöðvar í húsnæði við Þorvaldseyri sumarið 2019. Markmið er að fræða um sérstöðu svæðisins sem hefur fengið alþjóðlega vottun af hálfu UNESCO og fræða um skilgreinda áfangastaði/jarðvætti (geosites) innan hans þar sem sjálfbær nýting náttúruauðlindarinnar, einkum í jarðferðamennsku, er höfð að leiðarljósi.
Eitt af stóru verkefnunum hjá Kötlu jarðvangi um þessar mundir er alþjóðlegt verkefni sem heitir Ruritage. Ruritage verkefnið er styrkt af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þátttökulönd eru 38, hvaðanæva að úr heiminum.
Verkefnið felst í að para saman svæði sem eru að takast á við svipuð vandamál, annað svæðið hefur fundið lausnir, og er kallað fyrirmynd, en hitt svæðið lærir, og er kallað eftirherma. Verkefnin eru skilgreind og flokkuð. Í flokki nýsköpunar eru verkefnin: Pílagrímagöngur, búferlaflutningar, áfallaþol eða seigla, listir og hátíðir, landslag og matur úr héraði. Alltaf er leiðarljósið að nýta þá menningararfleifð og náttúru sem fyrir er til uppbyggingar.
Katla jarðvangur kynnir það sem er kallað áfallaþol eða seigla. Hér hefur byggst upp þekking og þjálfun til að takast á við náttúruhamfarir en það er í flokknum áfallaþol. Þeir sem læra af okkur búa á Ítalíu í Appignanno del Tronto í Marche. Harðir jarðskjálftar ollu mikilli eyðileggingu og mannskaða í héraðinu árið 2016. Samhæfing allra viðbragðsaðila og vísindamanna á Íslandi undir hatti almannavarna s.s. lögreglu, björgunarsveita, veðurstofunnar og fleiri aðila er þannig að brugðist er mjög skjótt við hverju sem gerist.
Þegar eldgosið varð í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum var gengið fumlaust til verks við að koma í veg fyrir að fólk slasaðist, verðmæti skemmdust og síðan að koma hlutunum í samt lag. Þetta skipulag er fyrirmynd að því hvernig er hægt að bregðast við og byggja upp eftir jarðskjálfta á Ítalíu.
Allir gera sitt besta til að heimsókn ferðamanna verði ánægjuleg og án skaða fyrir umhverfið. Það gerist ekkert af sjálfu sér og það þarf að undirbúa og skipuleggja vel áður en farið er að framkvæma. Fólkið á bak við tjöldin mjakar áfram einu og einu verkefni.
Texti: Lilja Magnúsdóttir
Comments